13.12.1950
Sameinað þing: 25. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í D-deild Alþingistíðinda. (4065)

85. mál, dagskrárfé útvarpsins

Frsm. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að segja nokkur orð í sambandi við ummæli hv. 3. landsk. þm. Hv. þm. viðhafði þau orð, að hann væri hissa á þeirri afstöðu, sem fram kæmi hjá mér í þessu máli. Hann sagði, að ég hefði sagt, að ekkert það hefði fram komið í rekstri útvarpsins eða dagskrá, sem gæfi sérstakt tilefni til að skipa rannsóknarn. á þessa stofnun. Í framhaldi af þessum ummælum lagði hann fyrir mig nokkrar spurningar. Þessi orð hv. þm., sem ég hafði eftir, hafa ekki við rök að styðjast. Þetta hefði hann getað sannfært sig um, ef hann hefði lesið nál., sem ég hef gefið út. Ummæli mín voru á þá lund, — ég tók það oftar en einu sinni fram, — að ég teldi ekkert hafa komið fram, sem fremur hefur gefið tilefni til að skipa rannsóknarn. á ríkisútvarpið en aðrar stofnanir ríkisins, og kom með ýmislegt í sambandi við það, sem fyrir mun liggja um fjárreiður útvarpsins. Í samræmi við það var sú till. borin fram, að þar sem ekkert hefði komið fram í sambandi við rekstur útvarpsins, sem fremur gæfi tilefni til að skipa rannsóknarn. á það en aðrar stofnanir, yrði skipuð rannsóknarnefnd til þess að gera ýtarlega athugun á rekstri ríkisútvarpsins, en teldi sjálfsagt, að jafnframt yrði gerð hliðstæð rannsókn á fleiri ríkisstofnunum, ef koma mætti fram sparnaði hjá þeim.

Á þessu er vitanlega grundvallarmunur, og með því að mælt er svona fyrir, falla allar fyrirspurnir hv. þm. gersamlega um sjálfar sig. — Ég vil vísa á bug því, sem fram kom í ræðu hv. 3. landsk. þm., að afstaða mín í þessu máli væri bundin við það, að ég vildi gera tilraun til að hilma yfir eða draga úr rannsókn í fyrirtæki, þar sem í hlut eigi vildarvinir mínir og pólitískir samherjar, og hér sé um að ræða, sem svo algengt er orðið í okkar þjóðfélagi, þá pólitísku spillingu, sem vill í hvívetna breiða yfir með sínum samherjum og skjólstæðingum. Þessu vísa ég algerlega á bug og vil taka fram, að þeir, sem við þessa stofnun vinna, eru mér sérstaklega lítt kunnir á allan hátt. Mér er ekki heldur kunnugt um, að forráðamenn þessarar stofnunar séu á nokkurn hátt tengdir þeim flokki, sem ég er í, þannig að hv. þm. hafi ástæðu til að segja þetta. Það væri meiri ástæða til, að ég spyrði, hvers vegna það er, að hv. 3. landsk. þm. berst gegn því, að hliðstæð rannsókn verði gerð á öðrum ríkisstofnunum, þar sem hans flokksmenn eru í ábyrgð fyrir rekstrinum og ráða stjórn fyrirtækisins. En því er ekki til að dreifa, að flokksmenn mínir séu í stjórn þessara ríkisstofnana, sem ég hef fallizt á að rannsakaður væri reksturinn hjá, til að vita, hvort ekki er þar hægt að spara. En hv. 3. landsk. berst gegn sams konar rannsókn á fyrirtækjum, þar sem hans flokksmenn hafa með fjárreiður að gera. Öllum þm. er kunnugt, að komið hafa fram á Alþingi aths. varðandi rekstur ýmissa ríkisfyrirtækja og ríkisstofnana, sem gefur tilefni til að athuga, hvort ekki væri hægt þar úr að bæta í sambandi við rekstrarútgjöld og gera ráðstafanir til sparnaðar. Mig furðar á því, að það skuli vera menn hér á Alþingi, sem rísa upp og mæla gegn — að fengnum upplýsingum — slíkri rannsókn.

Ég vil, vegna þeirra orða, sem áður hafa hér fallið, undirstrika, að ég er hlynntur því, að slík rannsókn sé látin fara fram, eins og nál. mitt tekur fram. Í nál. segir: „Ég er samþykkur því, að skipuð verði rannsóknarnefnd til þess að gera ýtarlega athugun á rekstri ríkisútvarpsins, en ég tel sjálfsagt, að ríkisútvarpið sé ekki eitt tekið út úr af ríkisstofnunum til slíkrar rannsóknar, heldur verði jafnframt gerð hliðstæð rannsókn á fleiri ríkisstofnunum.“ — En þetta virðist koma illa við einstaka þingmenn. Viðvíkjandi þessu hefur komið fram, ég hygg frá hv. þm. V-Húnv., till. þess efnis að vísa málinu til ríkisstjórnar. Út af fyrir sig hef ég ekkert við þetta að athuga. Ég geri engan grundvallarmun á, hvort skorað sé á ríkisstjórn, að hún skipi rannsóknarnefnd eða hvort málinu er vísað til hennar. En ég vil, að ríkisstj. láti fara fram almenna rannsókn á ríkisstofnunum yfirleitt með tilliti til, hvort ekki væri hægt að koma á sparnaði og bæta reksturinn. Ég hygg, að það liggi ljóst fyrir, hvar leiðir skilur og hvar ágreiningur er um þetta mál. Það er freistandi að fara út í umr. um þetta mál, en ég ætla ekki að ræða þá pólitísku siðfræði, sem hv. 3. landsk. gerði að umræðuefni og taldi sig hafa efni á að læða inn í þetta mál. Vænti ég þess, að hæstv. Alþingi sjái sér fært að verða við þeirri till., sem ég ber fram á þskj. 223. Ég gæti fallizt á að vísa málinu til hæstv. ríkisstj. í trausti þess, að hún láti fara fram alhliða athugun á þessu máli.