18.10.1950
Sameinað þing: 6. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í D-deild Alþingistíðinda. (4074)

15. mál, atvinnuaukning í kaupstöðun og kauptúnum

Flm. (Haraldur Guðmundsson) :

Herra forseti. Með till. þessari er gert ráð fyrir, að ríkisstj. skipi 5 manna n. til þess að kynna sér atvinnuástandið og atvinnuhorfur á ýmsum stöðum á landinu, fyrst og fremst kaupstöðum og kauptúnum, og jafnframt til þess að gera till. um, hverjar ráðstafanir sé unnt að gera til þess að afstýra atvinnuleysi á þeim stöðum, þar sem það birtist eða er yfirvofandi. Það er lagt til, að n. verði skipuð með þeim hætti, að tveir menn séu skipaðir eftir tilnefningu verkalýðssamtaka landsins, tveir eftir tilnefningu samtaka vinnuveitenda og einn af ríkisstj. án tilnefningar. Jafnframt er svo til ætlazt, að n. hafi samráð við sveitarstjórnir og samtök verkamanna og atvinnurekenda á þeim stöðum á landinu, þar sem þörf þykir ráðstafana í þessu skyni. Ber henni að leita til þeirra aðila, sem ástandinu eru kunnugastir og bezt mega vita, hvar skórinn kreppir, og jafnframt er kunnugt um, hverjar nauðsynlegar framkvæmdir bíða aðgerða og hversu þeim er háttað. Þarf að sjálfsögðu að taka tillit til þess, hvort mikið þarf af erlendum gjaldeyri til þeirra verkefna, sem bíða.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að atvinnuástandið og horfur á ýmsum stöðum á landinu, sérstaklega fyrir norðan, austan og vestan, eru þannig, að það er þörf á skjótum aðgerðum, ef ekki á að skapast á sumum þessum stöðum neyðarástand. Það geta allir gert sér í hugarlund, hvernig ástandið muni vera í þessum efnum á stað eins og Siglufirði, sem byggir tilveru sína á síldveiðum og síldarverkun. Sumarið í sumar hefur verið svo ægilegt áfall fyrir þennan stað, að það eitt út af fyrir sig er ærið verkefni til ráðstafana, en þar við má bæta því, að þetta sumar er hið 6. í röðinni, sem þessi höfuðatvinnuvegur á þessum stað bregzt. Hið sama eða svipað er að segja um ýmsa aðra staði, sem eiga afkomu sína og sumaratvinnu undir síld og síldveiðum, eins og t. d. Ísafjörður og margir smærri staðir á norðanverðu landinu. Ég hygg því, að um það þurfi ekki að deila, að ástandið er nú þegar á ýmsum stöðum svo, að fjárhagur þeirra bæjar- og sveitarfélaga, sem örðugast eiga um vik, megnar ekki að reisa rönd við þessum ófögnuði; það er ekki unnt á annan veg en þann, að þjóðarheildin og ríkisstj. ljái þar lið fjárhagslega og á annan hátt. Ég skal aðeins til viðbótar minna á það, að eftir því sem ég bezt veit, þá er það svo á Vestfjarðakjálkanum öllum, að þar stunda fáir bátar róðra og alls ekki sums staðar. Ég held, að það sé rétt, að hraðfrystihúsin á öllum Vestfjarðakjálkanum séu nú athafnalaus og ekkert þeirra taki fisk eða starfi eins og stendur. Þetta er meginatvinnuvegurinn á þessum stöðum, hann er stöðvaður, og geta menn gert sér í hugarlund, hvernig ástandið er. Ég skal játa það, að í rauninni ætti að vera óþarft að minna ríkisstj. á þennan hátt á nauðsyn aðgerða í þessum efnum og hennar ríku skyldu í því sambandi, vegna þess að ég minnist þess, að þegar ríkisstj. og flokkar hennar knúðu gengisbreyt. í gegn á síðasta vetri, þá var talið, að einn megintilgangur þessara aðgerða væri sá að tryggja næga atvinnu í landinu og afstýra atvinnuleysi. Sú ráðstöfun, sem þá var gerð, var að því er sagt var beinlínis í þeim tilgangi gerð að afstýra atvinnuleysi, sem þá var talað um, að vofði yfir, og tryggja næga atvinnu og framleiðslu í landinu. Því segi ég, að það ætti að vera óþarfi að ýta við ríkisstj. í þessum efnum, og það er ekki heldur gert fyrr en nauðsyn knýr til og ekki fyrr en ríkisstj. hefur látið í ljós á ótvíræðan hátt, hversu hún hyggst fyrir sitt leyti að mæta þessu. Um leið og fjmrh. fylgdi fjárlfrv. úr hlaði hér á Alþingi, lét hann þess getið, að svo væri til ætlazt, að vinnumiðlunarskrifstofurnar væru lagðar niður og ríkissjóði sparað það fé, sem til þeirra væri varið. Það er það eina, sem heyrzt hefur af hálfu ríkisstj., sem sýnir hug hennar um ráðstafanir til að mæta því atvinnuleysi, sem nú er skollið á og er yfirvofandi. Því miður er þetta allt annað en ég hafði vænzt. Ég veit vel, að vinnumiðlunarskrifstofan hefur haft lítið að gera við það að útvega atvinnulausum mönnum vinnu undanfarin ár. Starf hennar hefur frekar hnigið í þá átt að útvega atvinnurekendum fólk til vinnu, sem líka er gagnlegt starf. En nú getur engum lifandi manni blandazt hugur um það, að ástandið er nú orðið svo, að ærin verkefni eru víða á landinu að vinna fyrir þá stofnun, sem var sett á fót með l. um vinnumiðlun, einmitt við það að skrá ástandið á hverjum tíma og leitast við að útvega atvinnulausum mönnum vinnu. Mig furðar ákaflega á því, að það eina, sem ríkisstj. lætur frá sér heyra í þessum efnum, skuli vera það að fyrirhuga að leggja niður þessa einu stofnun, sem til er í landinu til þess að greiða fyrir atvinnu, þegar ljóst er, að þörf er aðgerða af hálfu þessarar stofnunar.

Eins og hv. alþm. er kunnugt, þá eru engar atvinnuleysistryggingar til hér á landi. Þegar undirbúin var löggjöfin um almannatryggingar, var í fyrsta uppkastinu kafli um vinnumiðlun og vinnuávísun á atvinnuleysistryggingar. Var gert ráð fyrir að grípa til þess í síðasta lagi að greiða mönnum atvinnuleysistryggingu og fyrst reynt að sjá mönnum fyrir vinnu, en því aðeins, að það lánaðist ekki, skyldi gripið til beinna styrkja. Þessi kafli var ekki tekinn með, þegar almannatryggingal. voru samþ., og ástæðurnar, sem fram voru bornar, þær, að það bæri að stjórna atvinnumálum okkar þann veg, að ekki þyrfti og ekki mætti koma til atvinnuleysis, því að það væri dýr lúksus, eins og það var kallað, að láta svo og svo marga menn ganga atvinnulausa, þegar gnægð verkefna væri að leysa vegna nauðsynjar landsmanna. Og því verður ekki neitað, að það er náttúrlega stórum æskilegra á allan hátt að sjá mönnum fyrir vinnu við gagnleg störf, sem koma samfélagi þeirra að gagni, en að greiða þeim styrki.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð. Ég vildi vænta þess, að hv. alþm. vildu ljá þessari till. atkv. og hæstv. ríkisstj. síðan skipi n. og aðstoði hana, eftir því sem föng eru á, því að það er fullvíst, að knýjandi þörf er á aðstoð í þessum efnum. Ég vil því leyfa mér að vænta þess, að alþm. samþ. þessa till. og hæstv. ríkisstj. hraði síðan málinu, eftir því sem tök eru á.