15.11.1950
Sameinað þing: 13. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í D-deild Alþingistíðinda. (4114)

78. mál, vélbátaflotinn

Haraldur Guðmundsson:

Það er upplýst, að málið hefur tafizt vegna misskilnings milli hæstv. sjútvmrh. og hæstv. forsrh. En það, sem ég meinti með því að málið hefði orðið fyrir óþarfa drætti, var það, að mér fannst óþarfi fyrir hæstv. ráðh., með þeim kunnugleik, sem hann hefur í þessum málum, og með tilliti til þess, sem hann sagði áðan, hversu stórfellt vandamál hér er um að ræða, að bíða eftir bréfi frá Landssambandi útvegsmanna. Honum var kunnugt um ástandið og gat, ef hann vildi, farið að athuga og undirbúa þessi mál, ef hann gerir ráð fyrir því, að það þurfi að koma til kasta þingsins áður en setu þess lýkur, sem ég hygg, að hann meini með þeim orðum, sem hann lét falla hér áðan. Ég hef engu við það að bæta, sem hv. 3. landsk. sagði hér áðan, það er einmitt það, sem ég meinti með mínum ummælum um þingnefnd, og hins vegar um þá menn, sem hæsta. ráðh. hefur falið þessa athugun, að ég álít hana pólitískt til þess fallna að ákveða rannsóknaratriði og gefa skýrslur. En lausnar málsins á þingi geri ég ekki ráð fyrir, að hæstv. ráðh. vænti frá þessum mönnum eða till., sem séu líklegar til þess að ganga greiðlega gegnum þingið, eins og till., sem fram yrðu bornar og fengju þessa athugun af n., sem sérstaklega yrði falið að athuga þetta mál. Ég tel því, að málið verði auðleystara á þann hátt, að það sé undirbúið undir þingið af þingnefnd, sem ræði við útgerðarmenn. Ég leyfi mér að skilja hæstv. ráðh. svo, þegar hann talar um, hvernig hann hugsar sér gang málsins, að hann geri ráð fyrir því, að fiskábyrgðarnefnd mundi snúa sér til hans með þær upplýsingar, sem hún hefur um þetta mál, og mundi svo athuga það í ríkisstj. að leggja það fyrir Alþ. Ég skil því mál hæstv. ráðh. svo, að hann telji sjálfsagt, að þetta mál komi til kasta Alþ. áður en setu þess lýkur, og með tilliti til þess þætti mér æskilegt, að þessi till.samþ., sem hér liggur fyrir.