12.02.1951
Sameinað þing: 41. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í D-deild Alþingistíðinda. (4128)

100. mál, endurskoðun áfengislöggjafar

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þessi till. um endurskoðun íslenzkrar áfengislöggjafar var hjá allshn., eins og kunnugt er. Á þskj. 593 hefur n. lagt til, að þáltill. verði samþ. með nokkuð breyttu orðalagi.

Það hefur verið talað svo mikið um áfengismálið, að ég held, að það væri að bera í bakkafullan lækinn — fyrir mig að minnsta kosti — að bæta miklu við.

Á þeim fundum, sem n. ræddi till., bar hins vegar á því, að umr. um framkvæmd áfengislaganna höfðu vakið ýmsar skoðanir hjá einstökum nm., eins og eðlilegt er, og voru flestar í þá átt, að endurskoðun þessarar löggjafar væri holl og jafnvel aðkallandi. Svo að hvað það atriði snertir var ekki verulegur ágreiningur meðal nefndarmanna og raunar ekki um önnur atriði heldur. Allir virtust sammála um, að þessa löggjöf þyrfti að endurskoða og þá vitanlega með það markmið að fá tryggt í lögunum, að misnotkun áfengis gæti minnkað en ekki vaxið. — En till., eins og frá henni var gengið af hálfu flm., fól í sér ábendingu varðandi brugg á áfengu öli einvörðungu til útflutnings, eða fór fram á yfirlýstan þingvilja. Urðu nm. ásáttir um að gera ekki neina till. um þetta atriði. Uppástungur um bruggun öls til útflutnings munu hafa komið fram áður, ég man ekki glöggt, hvort lagt var til, að það væri eingöngu til útflutnings eða til útflutnings og innlendrar neyzlu. (SB: Það var þannig.) En að þessu sinni lá fyrir till. um bruggun áfengs öls, sem ekki var ætlað að hafa áhrif á áfengisneyzlu innan lands, þar sem hv. þm. N-Ísf. lagði til, að framleiðslan yrði eingöngu ætluð til útflutnings. Þegar sá liður till. var ræddur og athugaður í allshn., virtist n., án þess að beinlínis væri eftir því gengið, hversu margir væru þannig sinnaðir, að með þessu væri bætt einni nýrri útflutningsvöru við þær, sem við höfum, og væri þetta því frekar atriði fyrir þá, sem hafa með fjárhags- og iðnaðarmál að gera, en allshn. Sú skoðun varð sterkari, að allshn. kæmi ekki með neina till. í þá átt.

Ætla ég, að mér sem frsm. n. leyfist að láta í ljós skoðanir, sem ég tek fram, að n. er ekki við bundin. Mér virðist einkennilegt, að þjóðríki, sem af þörf til að afla fjármuna þarf að reka verzlun með áfenga drykki, sem er þannig rekin, að engar hömlur eru á því, hvað hver einstakur megi kaupa af því, sem verzlað er með, m. ö. o., ríkið selur þegnum sínum hömlunarlaust eins mikið og þá lystir af þessum drykkjum, — þá virðist undarlegt, að ekki skuli vera leitað til þeirra fjáröflunarleiða af því sama ríki, sem aflar fjár í ríkiskassann án þess að veita áfengisflóðinu til landsmanna sjálfra, en svo yrði, ef öll bruggun öls væri til útflutnings. Það er vitað, að hér hefur verið bruggað öl til útflutnings — eða til sölu handa útlendingum — á hernámsárunum. Mér hefur verið sagt, að tilbúningur vörunnar hefði heppnazt vel, og mér hefur verið sagt — og ég trúi því vel —, að viðkomandi verksmiðjur hafi gætt þess, að ekkert af ölinu færi til innlendra manna. — Ég endurtek það, að þegar þess er gætt, að allir þm. virðast vera á þeirri skoðun, að nota bæri þá leið að flytja inn rándýrt áfengi og selja þegnunum það taumlaust, þá er það mín skoðun, að ekki sé skaði af ölbruggun, og það er einkennilegt, ef ekki má auka einni grein við útflutninginn, sem ekki skaðar landsmenn á neinn hátt. Ef einhver er þeirrar skoðunar, að ríkið ætti ekki að leyfa áfengissölu, ætti sá hinn sami að koma með till. um það, að ríkið leggi niður áfengissölu, og stöðva þannig þann fjárstraum, sem þaðan rennur í ríkissjóð. Ég hef ekki orðið var við slíka till., — og yrði að finna aðra tekjulind, sem gæti fyllt þann svang í tekjum ríkisins, sem eftir yrði eftir slíkar aðgerðir. Ég veit, að margir hafa hrópað á bann, en þeir hinir sömu hrópa út í bláinn. En þessir bannmenn hafa engu minni þörf og hafa sig engu minna í frammi en aðrir um að krefjast fjárframlaga af ríkinu, vitandi, að kröfur þeirra verða ekki uppfylltar, nema tekjur ríkisins bregðist ekki, nema áfengistekjurnar haldist. Þetta er talað til þeirra, sem hafa fjárhags- og iðnaðarmál landsins í sinni umsjá. Það varðar miklu, ef hægt er að reka fjölþætta iðnaðargrein og skapa landsmönnum atvinnu.

Þegar ég var fjmrh. í ríkisstj. hv. 8. landsk. þm. (StJSt), var það ástand, að til Keflavíkur komu erlendir starfsmenn, og voru þeir vanir því að heiman að geta fengið öl með mat og utan matar, og þeir gátu ekki fellt sig við þetta öl, sem hér er framleitt, þar sem þeir voru betra vanir. Ríkisstj. sá sér ekki fært að stemma stigu við, að öl væri flutt inn til landsins frá öðrum löndum til notkunar handa starfsmönnum á Keflavíkurflugvelli. Ég minnist þess, að þetta var, þegar ég hafði fjármálin með höndum og hætta var á, að ýmsar tekjuleiðir brygðust. Ég vissi þá fullkomlega, að hægt var að búa þetta öl til hér á landi og að þeir væru reiðubúnir að hætta við innflutning á öli, ef leyft væri að búa til öl hér á landi. Var sá útreikningur, sem lagður var fyrir mig 1947 eða 1948, að með því að búa til öl handa því fólki, sem var „exterritorialt“, væri hægt að afla gjaldeyris, sem næmi 3/4 millj. kr., og færa toll og tekjur í ríkissjóð. Ég talaði við dómsmrh. um, hvort ekki mætti efla atvinnuna og auka tekjurnar á þennan hátt. Hann taldi sig ekki ófúsan að koma þessu í kring, ef hann ætti víst, að málið yrði ekki drepið á Alþingi. Var leitað eftir samþykki í þingflokkunum um málið, og leiddi það í ljós, að vonlaust var að fá samþykki. Þar með féll sú viðleitni niður. Ég er ekki að segja, að þetta hefði orðið neinn stór hvalreki fyrir ríkissjóð, en þó búbót og atvinna. En það, sem út yfir tekur, að þarna hefðum við getað losnað við þá lítillækkun að horfa upp á, að danskt eða amerískt öl væri flutt hér inn í tonnatali, án þess að eyrir rynni til hins opinbera. Svona horfði málið við þá. Ég fæ ekki annað skilið, og tala ég þar til þeirra yfirvalda, sem vísað er til í nál., en að allir hljóti að sjá, hvað broslegt er að viðhalda innflutningi á tollfrjálsu áfengu öli heldur en að búa það til í landinu. Ætla ég ekki að fjölyrða um það.

Við þessa till. frá hv. þm. N-Ísf. er komin fram brtt. frá hv. þm. Borgf., á þskj. 196, og á þskj. 655 frá hv. þm. V-Húnv. Hv. þm. Borgf. mun hafa verið búinn að koma sinni brtt. á framfæri áður en allshn. gekk frá málinu. (PO: Löngu áður.) Er hún í sjálfu sér á engan hátt lítilsvirt með þeirri niðurstöðu, sem allshn. hefur komizt að. Að vísu er sleppt hinni kröftugu bindindisræðu, sem er í lok till., en tilgangurinn með till. n. er sá sami. Tillgr. orðast svo:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta fara fram endurskoðun áfengislöggjafarinnar, með það fyrir augum að koma í veg fyrir misnotkun áfengis í landinu.“

Till. stefnir í sömu átt og brtt. hv. þm., þótt hún sé ekki orðuð eins, ekki með sama málskrúðinu. Sem sé viljum við í allshn. gjarnan, að þessi endurskoðun fari fram og verði til þess, að misnotkun áfengis geti minnkað. En við vitum það allir, hvernig sem fer og hvað sem gert verður, að ekki er hægt að koma með öllu í veg fyrir það hér á Alþingi, að áfengi sé misnotað.

Brtt. á þskj. 655 fer í aðra átt, og þykir mér fyrir því, að hún kom ekki fram, áður en n. gekk frá málinu. Þetta er gamall kunningi, sem við allir könnumst við, sem sé, að „Alþingi felur ríkisstjórninni að afnema nú þegar sérréttindi nokkurra viðskiptavina áfengisverzlunar ríkisins og tóbakseinkasölu ríkisins, sem eru í því fólgin, að þeir fá keypt vínföng og tóbak fyrir lægra verð en aðrir kaupendur þurfa að borga fyrir þær vörur“. Þessi till. er ekki nýmæli og hefur verið hér fyrr á ferðinni. Að vísu er það dregið fram á elleftu stund að koma fram með hana, en hún er hér allt að einu, og getur Alþingi tekið afstöðu til hennar. Ég veit ekki, en ég geri ráð fyrir, að þetta, sem stendur um sérréttindi nokkurra viðskiptavina, þar með sé átt við alla viðskiptavini áfengisverzlunarinnar og tóbakseinkasölunnar, sem þessara sérréttinda njóta. Þar sem till. barst ekki nægilega snemma, skal ég ekki segja neitt um hana. Ég kýs ekki að halda uppi sérstökum umr. um þessa brtt. Hún snertir ekki aðalefni till., heldur er hún skábretti til hliðar, sem má taka sem nýja grein, ef Alþingi líkar. Það, sem vakir fyrir með þáltill. hv. þm. N-Ísf. og hv. þm. Borgf. með sinni brtt. sem og fyrir allshn., er að breyta áfengislögunum til þess að minnka drykkjuskapinn í landinu. Hvort þessi sérréttindi auka á misnotkun áfengis, fullyrði ég ekkert um.

Ég ætla, að ég hafi gert grein fyrir hönd nm. fyrir okkar skoðunum á þessu máli. Við tökum undir um fyrri lið till. hv. þm. N-Ísf. og komum til móts við hv. þm. Borgf., en meira gat n. ekki látið af sér leiða í þessu máli.

Viðvíkjandi því, sem ég sagði um bruggun áfengs öls, þá er það frá eigin brjósti, og stendur n. sem heild ekki ábyrg fyrir því.

Ætla ég, að flm. brtt. á þskj. 655 skilji, að fyrir hönd n. get ég ekki sagt neitt um þessa brtt. — Það var ekki, að ég held, búið, þegar þessi þáltill. var afgr. til allshn., að skrifa svarbréfið til ráðuneytisins viðvíkjandi vínveitingaleyfi í flugstöðinni í Keflavík. Það voru gerðar aths. við afstöðu n. í því máli, en það er ekki þörf fyrir mig að draga það mál inn í þessar umr., því að það snertir ekki áfengisneyzlu Íslendinga að nokkru leyti, og því sleppi ég að tala um það. Mér kom aðeins í hug í þessu sambandi, hvort þessi þáltill. var afgr. áður eða eftir að við afgreiddum bréfið til samgmrn. og sú afstaða var tekin, sem þar kom fram, en ég sé, að það mun ekki eiga við að ræða það í sambandi við þetta mál.