28.02.1951
Sameinað þing: 48. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1489 í B-deild Alþingistíðinda. (43)

Almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður)

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Við heyrðum hér seinast rödd úr Heiðnabergi íhaldsins, og röddin var Hermanns Jónassonar. Að vita af honum þar er dapurlegra en svo, að ég geti fengið mig til að ræða við hann inn í bergið.

Þeir hæstv. ráðh., sem töluðu hér í fyrrakvöld, gripu til þess í rökþrotum sínum fyrir eigin stjórnarstefnu að bera fram ásakanir á hendur ríkisstjórnar Stefáns Jóhanns Stefánssonar. Vitanlega má ganga út frá því, að henni kunni að hafa mistekizt margt, ekki hvað sízt þegar þess er gætt, að hún átti við sömu ógæfu að búa og þessi ríkisstj., nefnilega, að íhaldið fór með mörg þýðingarmestu ráðherraembættin, og auk þess naut hún svo aðeins stuðnings íhaldssamari hluta Framsóknar. En samt sem áður voru þessar ásakanir á stjórn

Stefáns Jóhanns mjög veigalitlar og sumar ósannar með öllu. — Ég skal nú víkja að þessu nokkrum orðum.

Stjórn hans lagði á söluskatt. Mikið rétt. Og til hvers? Til að halda atvinnulífinu gangandi og komast hjá gengislækkun. Og hvort tveggja tókst. Síðan hafa fiskábyrgðirnar verið felldar niður. Og var þá ekki söluskatturinn líka felldur niður? Nei, ekki aldeilis. Síðan hefur söluskatturinn tvívegis verið hækkaður og gengislækkuninni skellt á í þokkabót, en hún er, eins og öll þjóðin mun játa, sú þungbærasta skattaplága, sem nokkurn tíma hefur yfir þjóðina dunið. Hvorri stjórninni er svo þessi samanburður í hag? „Ríkisstj. Stefáns Jóhanns gafst upp við lausn vandamálanna“, sagði hæstv. forsrh., Steingrímur Steinþórsson. — Hafi nokkur gefizt upp, þá er það Framsókn, því að það voru hennar ráðh., sem dregnir voru út úr stjórninni. En hins ber að minnast, að henni hafði tekizt að koma í veg fyrir atvinnuleysi, halda stórum betur í hemil dýrtíðarinnar en nú er gert og afstýra verkföllum, sem hæstv. núv. stj. er helzt að minna á, sér til afsökunar, en sannar einmitt úrræðaleysi hennar og óvinsældir.

Þeir voru báðir að gamna sér með það, hæstv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, og hæstv. atvmrh., Ólafur Thors, að Alþfl. hafi dregið sig út úr pólitík eftir seinustu kosningar. Þetta er barnalegt hjal. Dró íhaldið sig út úr pólitík eftir 1927? Dró Framsókn sig út úr pólitík, þegar hún var í stjórnarandstöðu á dögum nýsköpunarstjórnarinnar sælu? Vissulega ekki. Hitt er rétt, að báðir þessir flokkar voru utangátta, af því að enginn vildi hafa þá með sér. En hins vegar hefur verið gengið með grasið í skónum eftir Alþfl. um að taka þátt í stjórn, eins og hann væri þar ómissandi. Og hví tók hann ekki biðlum sínum? Sambúðin við íhaldið hafði eins og vænta mátti gefið illa raun, og gat því íhaldið ekkert fengið nema hryggbrot. Og um hugsanlegt samstarf Alþfl. og Framsóknar er það að segja, að annar flokkurinn hafði af alefli barizt á móti gengislækkuninni, en hinn fyrir henni sem allsherjar bjargráði og framtíðarlausn vandamálanna. Og hvaða stjórnarstefna átti svo að koma út úr því? Auk þess höfðu Alþfl. og Framsókn ekki meiri hluta á Alþingi og skorti því þingstyrk til að koma nokkru máli fram. Öll þeirra sambúð í stjórn hefði því orðið að byggjast á náð og miskunn kommúnista, og hygg ég, að það hefði orðið næsta ótraustur grunnur á að byggja. Og einmitt þá var það, sem foringi vinstri arms Framsóknar venti sínu pólitíska kvæði í kross og hvarf inn í Heiðnaberg íhaldsins og sameinaðist íbúum þess um hugsjón gengislækkunarinnar.

Eitthvað var hæstv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, að státa af hlutdeild Framsóknar í byggingu verkamannabústaða. Þar er því miður af litlu að státa, að öðru leyti en því, að Framsókn studdi að því á sínum tíma að koma þeirri viturlegu og farsælu löggjöf á, en algert frumkvæði að löggjöfinni átti samt Alþfl. — Nýjasta dæmið um það, hvernig Framsókn efnir sín glæstu loforð í húsnæðismálunum, er ofurlítið frumvarpsörverpi, sem hv. 8. þm. Reykv. (RÞ) bar fram í Ed. og er um — já, um hvað haldið þið, hlustendur góðir? Um ódýrar teikningar — ekki einu sinni um ókeypis teikningar — af litlum íbúðum eða íbúðarhúsum. Já, það er ekki alltaf stórt, sem fæðist, þegar fjöllin taka léttasótt.

Og þá verð ég að víkja nokkrum orðum að Spánarfara ríkisstj., hæstv. atvmrh., Ólafi Thors, þótt hann sé nú allur á bak og burt. Hann sakaði ráðh. Alþfl. í stjórn Stefáns Jóhanns, og alveg sérstaklega Emil Jónsson, hv. þm. Hafnf., um að hafa innleitt hrognapeningakerfið svokallaða. En þetta eru, þó að leitt sé að segja það að hæstv. ráðh. fjarverandi, bein ósannindi. Hið sanna er, að ráðh. Alþfl. greiddu atkvæði á móti þessu í þáv. stjórn, en aðalformælandi hrognapeninganna var sjálfur hv. þm. G-K., Ólafur Thors. Hitt er rétt hjá þessum hæstv. ráðh., að blýantsstrikið hans er hrognapeningaleiðin í tíunda veldi, eins og ég held, að hann hafi sjálfur orðað það, — leið, sem rúmar ægilega möguleika brasks og spákaupmennsku, en kemur sjómönnum að engu gagni. Sú var vissulega reynslan af hrognapeningunum.

Hæstv. fjmrh. lét enn drýgindalega af sparnaði þeim, sem hann hefur þegar framkvæmt á ríkisbákninu. Ekki mótmælti hann þó launarausninni í utanríkisþjónustunni, ekki bar hann á móti því, að ekki hefði enn þá orðið úr þeim sparnaði að sameina tóbakseinkasöluna og áfengisverzlunina. Ekki gerði hann grein fyrir þeim sparnaði, sem leitt hefði af hinni sérstöku sérfræðirannsókn, sem hefjast átti í október til að draga úr starfskerfi ríkisins. En hann vildi bera á móti því, að skattdómarinn yrði áfram á launum hjá ríkinu, og vitnaði í því sambandi til þess, að hann fengi eftirlaun hjá Akureyrarbæ. Þetta eru bágborin villurök. Áður en þessi maður gerðist embættismaður ríkisins var hann bæjarstjóri á Akureyri og fær því eðlilega eftirlaun hjá bænum. En á sama hátt mun hann einnig fá eftirlaun hjá ríkissjóði, miðað við embættisaldur sinn hjá ríkinu. En þar sem hann hafði veitingu fyrir skattdómaraembættinu, á hann kröfu á fullum launum til 65 ára aldurs a. m. k. Þetta var og skoðun reynds lögfræðings og dómara í stjórnarliðinu í vetur, er frv. um að leggja þetta embætti niður var til umr. Þessi sparnaðarráðstöfun hæstv. fjmrh., sem honum verður tíðræddast um, er því aðeins sparnaðarráðstöfun á pappírnum, en ekki í reyndinni.

Sannleikurinn er líka sá, að móti þeim 6 embættum, sem hæstv. ráðh. boðaði, að hann mundi leggja niður, koma a. m. k. 9 eða 10 ný embætti inn í gjaldabálk fjárl. að þessu sinni. Það er nú allur niðurskurðurinn á ríkisbákninu.

Nei, það er vissulega ekki búið að gera neitt skurk í að draga saman ríkisbáknið. Og ef hæstv. ráðh. vill láta menn halda, að í sparnaðaraðgerðum í sambandi við ríkisreksturinn beri skörungsskap hans hæst, ja, þá er þessi virðulegi ráðh. vissulega enginn skörungur. Hefði þó þjóðin vissulega getað vænzt þess, að byrjað væri á sparnaði, sem um munaði, þegar svo þrengir að hag þegnanna sem nú gerir af atvinnuleysi á aðra hönd og óstjórnlegri sívaxandi dýrtíð á hina.

Að einu leyti var söngurinn sami hjá öllum þremur hæstv. ráðh., sem hér töluðu í fyrrakvöld. Það var lofsöngur um gengislækkunina og blýantsstrikið. Sjómenn, verkamenn og bændur hafa nú fengið smjörþefinn af gengislækkuninni. Sjómenn óbreytt fiskverð, verkamenn kaupbindingarofsókn, bændur stórkostlega verðhækkun á tilbúnum áburði, fóðurbæti, vélum og varahlutum, olíum og fleiru, er til búskaparins þarf, án þess að njóta verulegra verðhækkana á afurðum sínum vegna gengislækkunarinnar. Og halda þessar stéttir nú. að það verði dýrðlegt að lifa, þegar verðlag hins frjálsa gjaldeyris fer að segja til sín ofan á afleiðingar gengislækkunarinnar í verðlagsmálum, þegar einn vatnskassi á jeppa er kominn í 1400 kr., eins og verzlunarfróðir menn hafa reiknað út, og aðrir varahlutir eftir því, þegar ensk karlmannsföt kosta 1500–1600 kr. og hattar, húfur, sokkar og fleira til fatnaðar með svipuðu verðlagi, þegar venjuleg handlaug kostar um 700 kr., ein ensk þvottavél 5000–6000 kr., og svo framvegis og svo framvegis?

Blekkingar stjórnarandstæðinga, segja málsvarar stj., en við skulum láta reynsluna tala. Hún mun staðfesta þá skoðun okkar, að hér er lagt inn á mikla óheillabraut.

Þessi „einokun“, sem stjórnin mun hafa samþykkt að skuli heita frjáls verzlun, mun færa þjóðinni mikla blessun, segja ráðh. allir í kór, aðeins ef verkalýðurinn heimtar ekki vísitölubætur á kaup sitt, heldur tekur möglunarlaust á sig án kauphækkana allar þær byrðar, sem dýrtíðarflóð þessa „bjargráðs“ leggur á allt launafólk. En því miður: Ef bjargráðið getur ekki heppnazt nema á kostnað launafólks, þá verður að hafa það. Slíkt er ekki hægt, svo framarlega sem framleiðslan og gjaldeyrisöflun þjóðarinnar þurfa á lifandi fólki að halda. Eða máske hæstv. stjórn vilji lána sérfræðinga sína, Ólaf Björnsson prófessor og dr. Benjamín Eiríksson, til að kenna verkafólki, hvernig það eigi að draga fram lífið á óbreyttu kaupi við rýrnandi atvinnu og hraðvaxandi dýrtíð? En sannfærður er ég um það, að þótt þessir einstöku lærdómsmenn yrðu lánaðir til þessarar kennslu, mundi hún misheppnast, því að hér er um ómöguleika að ræða. Hér er um svo ósvífna árás að ræða á verkalýð landsins og samtök hans, að það á sér engin dæmi og mun stofna öllum vinnufrið í háska, ef stj. lætur ekki undan síga og minnist þess, að misrétti þolir engin upplýst þjóð.

Ég vil svo ljúka máli mínu með þessum fleygu orðum meistara Jóns Vídalíns og beina þeim til hæstv. ríkisstj. Þau eru á þessa leið: „Skoðið þér yður í spegli, ó, þér stoltu gæðingar veraldar þessarar, og hugleiðið, hversu fánýtir þér eruð, nær þér viljið troða lítilmagnann undir fótum.“