06.12.1950
Sameinað þing: 23. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í D-deild Alþingistíðinda. (4387)

120. mál, virkjun Fossár í Fróðárhreppi

Fyrirspyrjandi (Sigurður Ágústsson) :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. greið svör, þó að þau séu á engan hátt geðfelld. Ég undrast yfir því viljaleysi hjá hæstv. ríkisstj. að leysa þennan vanda, auk þess sem illa fer á því nú, þegar sem mest er talað um, að stöðva þurfi fólksflutninga úr sveitum í kaupstaði, að á sama tíma séu gerðar ráðstafanir af stjórnarvöldunum til þess að tefja framkvæmdir í dreifbýlinu og þau skuli að engu sinna framkvæmdum, sem þó þarf að koma á þar. Sérstaklega er þetta óhentugt á Hellissandi og Ólafsvík, því að óvíða mun vera jafnerfitt um öflun eldsneytis og einmitt þar. Nú þurfa þeir t. d. að kaupa smálestina af kolum á 600 kr. Ef þessi virkjun hefði komizt í framkvæmd, væri eldsneytisþörf þessara staða að miklu leyti leyst. Það er hart, að 1 millj. kr. yfirfærsla skuli hafa orðið þess valdandi, að þetta mál er saltað; sérstaklega hart, þegar áætlað er að leggja tugi milljóna af Marshallfé í stórvirkjanir, eins og Sog og Laxá, að þá skuli ekki vera hægt að útvega 1 millj. kr., þegar þessir landshlutar eiga í hlut. Ég vil vona, að hæstv. ráðh. geri allt sitt til þess að hrinda þessu nauðsynjamáli í framkvæmd.