07.02.1951
Sameinað þing: 39. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í D-deild Alþingistíðinda. (4437)

909. mál, vínveitingaleyfi lögreglustjórans í Reykjavík

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Það eru aðeins fáein orð í tilefni af ræðu hv. þm. Barð. Hv. þm. sagði, eftir að fyrirspyrjandi hafði lokið ræðutíma sínum og gafst því ekki tækifæri til andsvara, að málflutningur hv. fyrirspyrjanda, hv. þm. V-Húnv., hefði verið á þann veg, að augsýnilegt væri, að það vekti aðeins fyrir honum málshöfðun á hendur lögreglustjóranum, en ekki umbætur í þessu máli, hvorki hvað það snerti að draga úr vínneyzlunni né framkvæma betur leyfisveitingarnar og reglur á því sviði. Ég tel það nú ekki sæma þessum mikla kappa að leyfa sér að snúa svona út úr ræðu hv. þm. V-Húnv., þegar hann getur ekki svarað fyrir sig. En það, sem fyrirspyrjandi lagði einkum áherzlu á, var, að reynt yrði að draga úr brennivínsneyzlunni í landinu og farið yrði eftir lögum og reglum, sem um vínveitingar giltu. Eftir að hv. þm. hafði heyrt, að dómsmrh. tók heldur dauflega í mál fyrirspyrjanda, sagði hann, að hann gæti bara snúið sér til hæstv. fjmrh. Ég veit, að við berum allir mikið traust til hæstv. fjmrh., en mér er ekki ljóst, hvernig hann á að ráða bót á þessu, nema svo væri, að hann lokaði öllum útsölum, um leið og lögreglustjóri hefði gefið hæpin leyfi.

Hv. þm. vék líka að því máli, er afslátturinn var afnuminn af víni, sem Hótel Borg keypti, og sagði hann, að það hafi átt upptök hjá þáverandi fjmrh. En það, sem sannast er um þetta mál að segja, — og ætla ég þó engum veginn að draga úr afrekum hæstv. þáverandi fjmrh., — er það, að þetta mál var tekið upp í fjvn. og skrifaði hún þáv. fjmrh. um málið.

Hv. þm. þurfti endilega að láta þess getið, að sá eini, sem hefði greitt atkv. á móti þessu hefði verið framsóknarmaður. Ég ætla ekki að vefengja, að þetta hafi verið svo, og ætla ekki heldur að bera hönd fyrir höfuð þessa þm., en ég geri ráð fyrir, að afstaða hans hafi verið þessi vegna þess, að hann hafi talið það brjóta í bága við gerða samninga að afnema þennan afslátt.