13.10.1950
Sameinað þing: 3. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í B-deild Alþingistíðinda. (773)

1. mál, fjárlög 1951

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Hér hafa talað hv. þm. af hendi stjórnarandstöðunnar, og gagnrýni þeirra á fjárlfrv. hefur nú verið það máttlítil, að það er engin ástæða fyrir mig að vera óánægður með hana. Ég hef ekki mörgu að svara í sambandi við sjálft fjárlfrv., en vil þó benda á sem dæmi um málflutning hv. 5. landsk. (ÁS), að hann sagði, að höfuðsvipur fjárlfrv. væri sá, að allur kostnaður við starfræksluna hefði hækkað stórkostlega. Las hann upp tölur úr frv. og bar saman við tölur í gildandi fjárl. og sagði, að þetta og þetta hefði hækkað svo og svo mikið. Þetta gerir hann gegn betri vitund, því að það sér hver maður við að lesa frv., að 14 millj. eru færðar á einn stað í 19. gr. í fjárl. þessa árs, en þessi fjárhæð er nú sett inn á ýmsa staði í fjárlfrv., þannig að auðséð er, að þetta eru alls ekki sambærilegar tölur. Þegar þetta er tekið til greina, sést, að kostnaður við starfræksluna lækkar, en ekki hækkar, og að uppbætur á laun eru hærri í frv. en í gildandi lögum. Það er þess vegna furðu djarft að halda þessu fram hér á Alþ. við hlustendur, sem kannske hafa ekki haft tækifæri til að lesa frv. og grg.

Þá átaldi hv. 5. landsk., að ráðgert er að leggja niður sendiráðið í Moskva. Þetta er gert fyrir kostnaðar sakir, þar sem ekki hefur verið hægt að koma neinu áleiðis með viðskipti við Rússland, þannig að þetta sendiráð hefur ekki getað orðið að neinu gagni. Rússar hafa lokað öllum viðskiptum við Ísland um mörg ár og sagzt ekki hafa brúk fyrir okkar fisk. Þetta hefur endurtekið sig mjög rækilega æ eftir æ. En við vitum, hvað kommúnistar meina. Þeir vildu, að við létum innlima okkur í Sovétkerfið, því að þá hefðum við fengið að selja Rússum fiskinn. Við áttum að hafna allri samvinnu við Vesturveldin og láta innlima okkur í Sovétkerfið, því að þá hefðu Rússar viljað kaupa af okkur fiskinn og annars ekki. Það er þetta, sem kommúnistar vilja vinna að, en þjóðin vill ekki fallast á, þó að hún fengi í eitt eða tvö ár gott verð fyrir fiskinn, að selja sjálfa sig um leið, og er mál til komið fyrir þessa menn að gera sér grein fyrir því.

Hv. þm. Ísaf., Finnur Jónsson, ræddi nokkuð um fjárlfrv. og spurði: „Hvar eru tollalækkanirnar, sem heitið var í sambandi við gengislækkunina?“ Það var engum tollalækkunum heitið í sambandi við gengislækkunina. Þetta er ekkert annað en vindmylla, sem hann hefur nú talið sig nauðbeygðan til að grípa til, þar sem hann sá ekkert annað ráð. En ég get sagt hv. þm., að tollar voru lækkaðir nokkuð í fyrra og lækkaðir skattar á lægstu tekjum, og ég margtók fram, að ég sæi enga leið til að lækka tollana og skattana meira, eins og útlitið væri, og hefði verið heppilegra að benda á þetta en að finna þetta upp.

Þá gerði þessi hv. þm. sér far um að koma inn öfund í garð bændastéttarinnar og sagði, að það hefði verið viðbragðsflýtir að rétta bændum hjálparhönd, þó að óþurrkar hefðu komið eitt ár. Ég vil benda hv. þm. á það, sem allir ættu að vita, að of seint er að afla fóðurs fyrir þá kind, sem búið er að slátra, og annaðhvort er að gera það strax eða ekki. Í þessu sambandi talaði hann um sljóleika í garð sjávarútvegsins, bersýnilega til þess að reyna að koma af stað öfund. Í þessu sambandi er full ástæða til þess að undirstrika það, sem hann gleymdi, að ríkissjóður á útistandandi lán vegna erfiðleika sjávarútvegsins í 8 lánaflokkum, sem koma þar til greina, og hann veit, að fjárveitingar í frv. til landbúnaðarins og sjávarútvegsins eru ekki ósambærilegar tölur og að í frv. eru milljónatugir, sem eru vegna sjávarútvegsins. Það er síður en svo verið að telja þetta eftir, en þetta hefði hv. þm. átt að taka til greina.

Ég hafði gaman að heyra, að hv. þm. lýsti ánægju sinni yfir tveimur sparnaðartill., sú fyrri þess efnis, að lagt verði niður sendiráðið í Moskva, og hin síðari, að embætti flugmálastjóra verði lagt niður. Þetta stafar ekki af tilviljun, heldur er það vegna þess, að hann hefur verið viss um, að þetta snerti ekki neinn Alþýðuflokksmann, en ekki verið búinn að athuga um hinar brtt., hvort þær gætu komið við einhvern, sem honum þætti vænt um.

Í sambandi við það, sem hv. þm. Ísaf. og hv. 5. landsk. sögðu um gengislækkunina, er ástaeða til að draga fram nokkrar staðreyndir. Það er furðulegt að heyra málflutning þessara tveggja þm. — og hv. þm. Ísaf. enn meira en hv. 5. landsk — um gengislækkunina. Hv. þm. Ísaf. vildi halda því fram, að þeir erfiðleikar, sem við búum við nú, væru gengislækkuninni að kenna og gengislækkunin, sagði hann, hefði drepið sjávarútveginn. Hver hafa verið áhrif gengislækkunarinnar fyrir sjávarútveginn? Hún hefur hækkað um 74% útflutningsverð allra sjávarafurða, og það er djarfur leikur að ætla að halda fram, að slíkar ráðstafanir séu til óhagræðis fyrir sjávarútveginn. Og við vitum, að ef gengisbreytingin hefði ekki verið framkvæmd, hefði fiskverðið verið þannig, að engin togaraútgerð eða saltfiskveiðar hefðu getað komið til greina. Þessi hv. þm. veit líka vel, að ef genginu hefði ekki verið breytt og menn hefðu átt að búa við stórlækkað verð á útfluttum freðfiski, hefði ekkert frystihús getað orðið rekið og enginn freðfiskur verið seldur til Ameríku, og það er einmitt vegna gengislækkunarinnar, að hægt hefur verið að halda uppi veiðum og frystihúsum víða um land. Allir vita, að ekki væri hægt að stunda karfaveiðar, ef menn ættu að búa við það útflutningsverð, sem fengist, ef gengið hefði verið óbreytt. Og sannleikurinn er sá, að eftir því sem hv. þm. Ísaf. og hv. 5. landsk þm., Ásmundur Sigurðsson, og aðrir slíkir lýsa með sterkari litum erfiðleikum útvegsins, eftir því flengja þeir sjálfa sig rækilegar, því að eftir því verður erfiðara að gera sér grein fyrir því, hvernig hægt væri að fara með málefni þessa atvinnuvegar að óbreyttu gengi krónunnar og taka á sig verðfallið og hvernig ætti að fá peninga til þess að geta vegið þetta upp. Hv. þm. Ísaf. reyndi ekki einu sinni að gera grein fyrir þessu. Það hefði þýtt algera stöðvun togaraflotans, 23% verðfall á allflestum útflutningsvörum sjávarútvegsins. Það er gengisbreytingunni einni að þakka, að framleiðslan hefur ekki stöðvazt fyrir löngu. Það er tvennt, sem hefur afstýrt því, að þjóðin hefði á þessu ári þurft að búa við stórkostlegt atvinnuleysi og bágindi. Það er gengisbreytingin og Marshallhjálpin. Það væri gaman að sjá framan í hv. þm. Ísaf., ef farið væri með hann upp í stjórnarráð og honum sagt, að nú skyldi hann stjórna samkvæmt kenningum sínum, færa gengið til þess, sem það var, og lækka allar sjávarafurðir um 23%. Þá mundi hann sjá, hvernig kenning hans mundi standast dóm reynslunnar, en það er bara ekki hægt vegna þjóðarinnar að fara þannig að. Sannleikurinn var sá, að í fyrravetur gátu foringjar Alþfl. ekki fundið neina leið aðra en gengisbreytinguna. En af því að atvinnuvegirnir hafa orðið fyrir ýmsum áföllum á árinu, ætlar þessi flokkur nú að slá sig til riddara frammi fyrir þjóðinni með því að halda fram, að allir erfiðleikar atvinnuveganna séu gengislækkuninni að kenna.

Þá talaði hv. þm. Ísaf. um togaraverkfallið og lýsti sök á hendur ríkisstj. fyrir áhugaleysi við að leysa það. Hann veit þó vel, að ríkisstj. hefur átt hlut að því að setja sáttanefnd í þessari deilu, og hún hefur viku eftir viku unnið að því dag og nótt að reyna að finna möguleika til að leysa deiluna og gert till., sem báðir aðilar felldu. Sáttasemjari ríkisins, sem er fulltrúi ríkisstj., hefur einnig unnið að því í marga mánuði að leysa deiluna. Og siðast í morgun gerði ríkisstj. ráðstafanir til að skipa nýja nefnd í málið til að gera tilraunir til sátta. En hvað hefði Alþfl. sagt, ef stj. hefði gripið fram í deiluna? Ég hygg, að hann hefði fljótt sakað stj. um fasisma og annað slíkt. En nú ásakar hv. þm. stj. fyrir afskiptaleysi í málinu, þó að hún hafi gert allt, sem í hennar valdi stendur. Þannig er samræmið í því, sem hann ber fram og hans flokkur heldur fram.

Tími minn er á enda, og skal ég ekki bregðast trausti hæstv. forseta, enda hef ég minnst á flest höfuðatriðin í því, sem andstæðingarnir hafa haldið fram.