05.12.1950
Sameinað þing: 22. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í B-deild Alþingistíðinda. (793)

1. mál, fjárlög 1951

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Ég er flm. að tveimur brtt. á þskj. 280, tölul. V og VI. Vil ég leyfa mér að vekja fyrst athygli á till. undir tölul. VI, þar sem farið er fram á, að Guðmundi Jónssyni söngvara verði veittur 6000 kr. styrkur til söngnáms. — Hér er um að ræða einn okkar glæsilegasta og vinsælasta söngvara, og að þessu sinni hyggur hann á framhaldsnám í Bretlandi. En hann fór fyrst utan 1943 til náms í Bandaríkjunum, varð síðan að hætta þar námi um stund, en dvaldist síðar 2 ár við söngnám í Svíþjóð, en hefur svo orðið að hverfa heim vegna fjárskorts. Þessi ungi og glæsilegi söngvari hefur aldrei fengið eyrisvirði í námsstyrkjum af opinberu fé. Hann hefur tvisvar sótt um slíkan styrk, en ekki fengið áheyrn. Því hefur námsferill hans orðið slitróttari en skyldi. Mörgum öðrum ungum söngvurum hafa verið veittir slíkir styrkir, bæði af Alþingi og menntamálaráði. Og ég leyfi mér því að vænta, að þessu sanngirnismáli verði vel tekið.

Þá er ég flm. að annarri till. á sama þskj. ásamt 7 þm. öðrum; hún er V. tölul. á þskj. og fjallar um það, að veittur verði á fjárl. nýr liður, 200 þús. kr., til sinfóníuhljómsveitar Íslands, enda náist samkomulag um framlag frá bæjarstjórn Reykjavíkur, ríkisútvarpinu og þjóðleikhúsinu. Hljómsveit þessi var stofnuð í fyrra af unnendum tónlistarinnar og með stuðningi ríkisútvarpsins og bæjarstjórnar Reykjavíkur. Þeir, sem gengust fyrir stofnun þessarar hljómsveitar, skildu, að tónlistin er bæði göfgandi og þroskandi og að það væri nauðsynlegt að skapa hér skilyrði til að flytja verk hinna miklu meistara. Ég vil benda hér á, að það er óhugsandi að reka þjóðleikhús án stórrar hljómsveitar, enn fremur, að heimsókn sænsku óperunnar á síðastliðnu vori var óhugsandi án þessarar íslenzku hljómsveitar, og þannig mun það verða, að slík verk verður ekki hægt að flytja í okkar þjóðleikhúsi, nema sinfóníuhljómsveit verði starfandi. Nú hefur reynslan sýnt, að við Íslendingar eigum góðan efnivið í slíka hljómsveit, þar sem eru hinir mörgu og efnilegu listamenn okkar, og framfarir hljómsveitarinnar hafa verið glæsilegar þann stutta tíma, sem hún hefur starfað. Við höfum heyrt dóma erlendra hljómlistarmanna, sem hafa starfað með hljómsveitinni. Ég get þar sænska hljómsveitarstjórans, sem hér dvaldi og fór mjög lofsamlegum orðum um hljómsveitina, og enn fremur hins finnska hljómsveitarstjóra, Jussi Jallas, er hafði einnig lofsyrði um hljómsveitina að segja, og töldu báðir árangur hennar aðdáunarverðan. Það má líka geta þess, að kona Jussi Jallas, sem er dóttir hins heimsfræga tónskálds Síbeliusar, hafði þau orð um eitt þeirra verka, sem hljómsveitin lék eftir föður hennar, að hún hefði aldrei heyrt það jafnvel leikið. Ég nefni þetta hér aðeins af því, að sumir virðast draga í efa, að við eigum nægilegan efnivið í sinfóníuhljómsveit, en dómur sá, sem ég hef nefnt, er ekki aðeins innlendra manna, heldur og erlendra. Nú má vera, að sumum þyki gáleysislegt að flytja till. sem þessa nú, er allt skal spara og draga saman. Ég skal sízt verða til að lasta sparnaðinn, en við verðum að gera okkur grein fyrir því, að því fylgir mikill kostnaður að vera sjálfstæð menningarþjóð. Háskólinn kostar mikið fé og yfirleitt öll menntasetrin. Í þessu fjárlfrv. er fyrirhugað að verja 39 millj. kr. til skólamála. Hér er um að ræða einn þátt í þessum málum, og þótt sumum kunni að vaxa í augum þessar 200 þús. kr., sem hér er farið fram á, þá eru þær hverfandi í samanburði við fyrrnefnda upphæð. Nú er hugsað, að fjórir aðilar standi á bak við hljómsveitina og kosti hana: ríkissjóður, ríkisútvarpið, þjóðleikhúsið og bæjarstjórn Reykjavíkur. Bæjarstjórnin samþykkti 150 þús. kr. fjárveitingu í þessu skyni, og við næstu afgreiðslu munu veittar 200 þús. kr. úr bæjarsjóði. Hins vegar er gert ráð fyrir, að bæjarstjórn og ríkissjóður komi sér saman um framlag jafnhliða. En ef einhver þessara aðila kippir að sér hendinni, þá hlýtur það að verða til þess, að hljómsveitin lognast út af, og við, sem flytjum þessa brtt., höfum sett það skilyrði fyrir framkvæmd hennar, að samkomulag náist við þessa aðila. Ég vænti þess svo, að till. fái góðar undirtektir hér hjá hv. þm. Hér er á ferðinni mikið menningarmál, og eins og ég gat um áðan, þá er varla hugsanlegt, að þjóðleikhúsið geti starfað án hljómsveitarinnar, en líf hennar veltur á undirtektum þessarar till. hér.