16.01.1952
Sameinað þing: 32. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 792 í B-deild Alþingistíðinda. (1135)

169. mál, fjáraukalög 1949

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég hafði út af því, sem hv. þm. Barð. tók fram, gert ráð fyrir því, að afgreiðsla þessara fjáraukal. tæki ekki langan tíma, því að þetta hefur aldrei tafið neitt fyrir á Alþingi. Þetta er aðeins formsatriði, eins og hv. þm. A-Húnv. tók fram hér áðan. Þetta er aðeins skýrsla um það, sem skeð hefur, um gerðan hlut. Ef menn vilja gera athugasemdir út af þeim framkvæmdum, sem gerðar hafa verið árið 1949, þá skulu þeir ræða það og gera till. um það í sambandi við landsreikningana.

Varðandi nauðsyn á því að láta fara fram ýtarlega athugun á frv. í fjvn., þá væri það hægt að láta henni í té ríkisreikningana frá 1949, sem hún hefur haft til afnota, og fylgiskjöl og allar upplýsingar, sem hún getur fengið þar um. En slík athugun hefur farið fram við endurskoðun landsreikninganna, og er gert ráð fyrir því, að hún sé gerð af endurskoðunarnefnd, en ekki af fjvn. Ég held, að það sé því ekki ástæða fyrir fjvn. að endurskoða landsreikningana, þó að ráð sé fyrir því gert, að henni sé heimilt að fá gögn um þetta, ef henni þykir það rétt.

En svo vil ég eindregið mælast til þess, að n. afgreiði þetta frv. fljótlega frá sér, og mér sýnist, að það geti ekkert verið því til fyrirstöðu. Þær upplýsingar, sem í frv. felast, eru ekki neitt nýtt fyrir fjvn., því að það er ekki meira en ár síðan reikningarnir voru gerðir og hafa verið til athugunar fyrir n. Og þegar n. hefur verið að íhuga þetta og rætt víð forstöðumenn stofnana, þá hefur n. haft fyrir sér heimild í l. frá 1949.