27.11.1951
Neðri deild: 34. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 952 í B-deild Alþingistíðinda. (1465)

83. mál, Iðnaðarbanki Íslands hf

Pétur Ottesen:

Það eru aðeins örfá orð út af ræðu hv. 7. þm. Reykv. Hv. þm. viðurkennir þá úrbót fyrir iðnaðinn, sem felst í minni till. Hins vegar taldi hann á því annmarka að samþ. till. mína og afgreiða málið með slíkum hætti. Ég skal aðeins drepa á þrjú atriði, sem hann taldi ágalla á. — Hann sagði, að með því væri verið að slá á útrétta hönd iðnaðarmanna, þar sem þeir ætluðu að leggja fram í höfuðstól til grundvallar þessum banka. Ég get ekki litið svo á, að með því að samþ. mína till. sé verið að slá á útrétta hönd iðnaðarmanna. Ég vildi snúa setningunni við og segja, að ef iðnaðarmenn líta ekki svo á, að hér sé um mikið framlag úr ríkissjóði að ræða, og ef það verður þeim ekki hvöt til þess að leggja fram lánsfé í iðnlánasjóð, þá eru það þeir, sem slá á útrétta hönd ríkisvaldsins. Ég efast ekki um, að það sé ærin hvöt til iðnaðarmanna, að þeir geri sjóðnum slík skil sem í mínum till. felast. Ef svo er ekki, þá skilja iðnaðarmenn undarlega sitt hlutverk.

Annað atriðið var það, að iðnlánasjóður gerði lítið að því að lána rekstrarfé. Ég held, að sjóðurinn standi jafnan opinn til lána í þessu augnamiði, þegar því verður við komið, en af því litla fé, sem sjóðurinn hefur nú yfir að ráða, er vitanlega litlu eða engu að miðla umfram það, sem til fjárfestingar fer. Undireins og sjóðnum vex fiskur um hrygg, skapast betri aðstæður til lána til rekstrarstarfsemi iðnaðarins.

Þriðja atriðið var það, að það var takmarkað með l., hve lánin mættu vera há. Þetta var mér ljóst, en mér þótti ekki taka því að flytja brtt. til rýmkunar á þessu fyrr en sýnt var, hvernig Alþ. mundi taka undir till. mína um eflingu iðnlánasjóðs. Ég hafði forgöngu um það árið 1946, að fjárframlag ríkisins til sjóðsins væri hækkað úr 60 þús. kr. á ári í 300 þús. Þá voru gerðar ýmsar breyt. á lögum sjóðsins í samræmi við fjárveitinguna, og eins þyrfti að gera núna, ef minar till. verða samþ., og mun ég bera fram brtt. þar að lútandi, ef til kemur, svo að þetta stendur allt til bóta. — Þá talaði hv. 7. þm. Reykv. nokkuð um aðstöðu atvinnuveganna til að fá lán. Ég hef fengið upplýsingar um lán Búnaðarbankans. Hann hefur til almennrar bankastarfsemi 70 millj. kr., fyrir utan sjóði bankans, sem sérstaklega eru ætlaðir til fjárfestingar landbúnaðarins, en fé það, sem har um ræðir, nemur um 49 millj. kr. Lánum var háttað þannig á s.l. ári, að af þessum 70 mill,j. fór ekki 1/3 hluti til landbúnaðarins, en til iðnaðarins fóru um 141/2 millj.; svo skiptist hitt á verzlun og aðra liði. Þetta sýnir, að þær 70 millj., sem bankinn fær til almennrar bankastarfsemi, skiptast. til atvinnuveganna og annarrar starfrækslu í þjóðfélaginu í eðlilegu hlutfalli. Ég býst einnig við, að þessu sé þannig háttað með hina bankana. Útvegsbankinn lánar til iðnaðar og húsabygginga allmikið, eða gerði það á tímabili, og sinnir þörfum manna almennt.

Skal ég svo ekki eyða fleiri orðum og tíma í þetta. Ég vildi mega vænta þess, að litið verði á till. mínar þannig, að í þeim felist verulega útrétt hönd til eflingar lánastarfsemi iðnaðarins.