16.11.1951
Neðri deild: 29. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1156 í B-deild Alþingistíðinda. (1946)

47. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Þegar ég áður ræddi um brtt. á þskj. 183, láðist mér að minnast á tvö atriði. Það er brtt. á þskj. 183 við 32. gr. frv. Greinin hljóðar svo: „Bifreiðarstjórar, sem að staðaldri flytja fólk, og stjórnendur þeirra véla, er mönnum getur stafað sérstök hætta af, skulu ekki hafa lengri vinnutíma en 12 stundir á sólarhring.“ Við leggjum til, að á eftir orðinu „skulu“ bætist inn í greinina „að jafnaði“. — Þetta var samþ. á síðasta þingi. — Eins stendur á um aðra brtt., 18. brtt. á þskj. 183 við 45. gr., en þar segir: „Í hverju fyrirtæki, þar sem 5 verkamenn eða fleiri vinna að staðaldri, skulu þeir velja sér trúnaðarmann, er viðurkenndur sé af vinnuveitanda.“ Við leggjum til, að í staðinn fyrir „skulu þeir velja“ í 1. málsgr. komi „er þeim heimilt að velja“. — Þessi till. er um sama efni og till., er var flutt hér í fyrra og var þá samþ., og skal ég því ekki fjölyrða um það frekar. Það þýðir ekki að eyða tíma í að ræða um öryggisráðið við hv. þm. Hafnf., ég geri ekki ráð fyrir, að hann taki sinnaskiptum í málinu.

Þá vil ég minnast á brtt. hv. 5. þm. Reykv. Hinar þrjár fyrstu eru ekki veigamiklar, en hina fjórðu tel ég varhugaverða, a.m.k. síðari málsgr. Þar skilst mér, að flm. vilji slá því föstu, að til vélgæzlu við ýmis fyrirtæki verði ekki ráðnir menn nema með meira vélstjórapróf. Ég tel það varhugavert að setja slíkt fortakslaust í l. og gera ómögulegt að reka minni fyrirtæki þessarar tegundar án þess að hafa lærða vélstjóra. Þetta veldur óþægindum hjá öllum þeim fjölda smárafstöðva, sem eru í smáþorpum, sveitum og bæjum, og gerir jafnvel ókleift að hafa þessar stöðvar, ef þetta verður lögleitt. Ég held, að það sé líka óþarfi að setja slík ákvæði í l. Ég vil því beina því til hv. 5. þm. Reykv., hvort hann sæi sér ekki fært að taka aftur 4. brtt. sína.