06.12.1951
Efri deild: 38. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1300 í B-deild Alþingistíðinda. (2198)

109. mál, skipun prestakalla

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Mig langar til að segja nokkur orð í sambandi við þetta mál og skal þá fyrst snúa mér að því að ræða ákvæði 6. gr. um kennsluskyldu presta. Ég vék að þessu við 1. umr. og beindi því til nefndarinnar að athuga þetta sérstaklega, en þar sem málið var flutt af nefnd, var því ekki vísað til nefndar, og hún hefur því ekki haft málið til meðferðar milli umræðna. Mér finnst ástæða til að gera grein fyrir, hvers vegna þetta ákvæði um kennsluskylduna kom inn í frv. Virðist ákvæðið fyrst og fremst hafa verið sett inn vegna þess, að það lá óumdeilanlega fyrir, að í mörgum prestaköllum er ekkert verkefni fyrir þjónandi prest á þeim vettvangi, sem prestum er ætlað að starfa á. Í Mjóafjarðarprestakalli er 161, Hofsprestakalli 151, Hrafnseyrarprestakalli 92 0. s. frv. Þessar tölur sýna ómótmælanlega, þegar litið er á annars vegar, hve mörgum ýmsir prestar þjóna, að starfssvið er ekki á þessum stöðum fyrir prest á eðlilegum vettvangi.

Mér finnst frvgr. um barnakennsluskyldu presta sérstaklega merkileg, af því að hún kemur frá nefndinni, sem tvímælalaust verður að ætla, hvað sem hv. þm. Barð. segir, að hafi ekki haft tilhneigingu til að gera lítið úr þörfinni fyrir starf prestanna á hinum ýmsu stöðum. Þessi kennsluskylda í frv. er ótvíræð viðurkenning á því, að á þessum stöðum er ekki fyrir hendi starf fyrir þjónandi prest á þeim vettvangi, sem prestsstarfið hingað til hefur farið fram á. Þessa hv. nefnd skortir að vísu ekki raunsæi til að sjá þetta, en hana skortir kjark til að horfast í augu við þessa staðreynd og haga tillögum samkvæmt henni. Í stað þess er horfið að því að reyna að finna uppbótarverkefni fyrir væntanlega presta á þessum stöðum, og er þá kennslan heppilegasta og nærtækasta úrræðið. — Ég viðurkenni, að fljótt á litið lítur þetta ekki illa út. Það er ekkert óeðlilegt við það, þó að mönnum á nefndarfundi í Reykjavík sýnist þetta vel geta gengið. Prestar eru stundum kallaðir kennimenn, og hví þá ekki að útfæra það dálítið, ef með því er fengið, að fámenn byggðarlög fá að halda andlegum foringja sínum og það háskólamenntuðum skólamanni? Sem sagt, þessi hugmynd er þó nokkuð aðlaðandi álengdar. En mér finnst þetta þurfa nánari athugunar við, menn þurfi að standa nær raunveruleikanum eins og hann er úti á landi heldur en ég held að sé þægilegt fyrir nefnd hér í Reykjavík, því að alltaf markar umhverfið að einhverju leyti afstöðu manna hverju sinni.

Vil ég þá fyrst víkja að því, að fræðslulögin gera ráð fyrir, að hvert barn njóti kennslu sérmenntaðs manns. Fræðslulögin eru að vísu ekki ný, en það er svo með þau mál eins og önnur, að þau þurfa tíma til að þróast, og ég tel, að óðum færist í áttina, að marki fræðslulaganna verði náð að þessu leyti. Það hefur sjálfsagt verið og er ætlunin að vinna tvennt með þessu ákvæði um sérmenntun kennara. Það fyrst, að fá að þessu starfi menn, sem beint hafa áhuga á því og hafa þess vegna aflað sér undirbúnings til þess sérstaklega að takast það á hendur. Í öðru lagi að fá að starfinn menn, sem í gegnum sérstakan undirbúning hefðu aflað sér hæfni til að sinna því. Mér sýnist, að hér sé skref stigið til baka. Nú veit ég, að því er haldið fram af stuðningsmönnum þessa fyrirkomulags, að kennsluprestarnir skuli hafa kennaramenntun. Þó er ekkert ákvæði um þetta í frv. Þetta efni er hins vegar rætt í grg. frv., en þess háttar spjall í þskj. er næsta þýðingarlítið. Framkvæmdin skiptir hér mestu, ef ekki öllu máli.

Næst skulum við svo líta á það, hverjar líkur eru fyrir því, að sérmenntaðir kennsluprestar fáist á viðkomandi stöðum. Mörg þessara prestakalla, sem um er að ræða, eða a. m. k. sum, — ég get ekki slegið því föstu um öll, af því að ég þekki ekki nóg til þeirra, — hafa ekki verið eftirsótt fram að þessu. Veit ég sérstaklega um Mjóafjörð, af því að ég þekki þar bezt til. Þar hefur ekki sótt prestur síðan Haraldur Þórarinsson hvarf þaðan, og um Hof í Öræfum hefur ekki verið sótt um sinn. Færi nú svo, að einhver prestlærður maður teldi sig til neyddan að sækja um þessi afskekktu köll, þá dettur mér ekki í hug að halda, að honum yrði neitað um þau á þeim grundvelli, að hann hefði ekki kennsluréttindi. Þá væri að því komið, sem ég óttast að verði óumflýjanlega í framkvæmd, að hugmynd fræðslulaganna um sérmenntaða áhugamenn við barnafræðsluna væri að engu gerð. Hér má ekki blanda saman því tvennu, að fastráða próflausa menn til kennslunnar, og hinu, sem enn viðgengst, að próflausir menn eru að vísu ráðnir til starfsins, þegar þörf krefur, en gert að víkja hvenær sem völ er á prófmanni.

Þá er ástæða til að gera sér grein fyrir því, hvort líkurnar fyrir því, hvort prestar fáist í smæstu prestaköllin, vaxi eða minnki við þessi ákvæði frv. Það er ætlazt til, að laun þessara presta verði nokkru hærri en annarra, en þó ekki sem miklu nemur. En fyrir tiltölulega litla launahækkun er ætlazt til, að þeir taki að sér starf, sem er bæði mikið og erilsamt. Mönnum hættir til að líta á, að það eru fá börn, kannske ekki nema 10 eða 12, og álykta svo, að það geti ekki verið mikið verk að kenna svona fáum börnum. En þar skjátlast mönnum hrapallega. Það mætti í fljótu bragði virðast, að það væri meira verk hér í Reykjavík að kenna kannske 30 börnum í bekk en þessum fámenna hóp í sveitunum. En það er hreint ekki víst, því að þar þarf að strekkja við að hafa saman börn frá fermingu og niður í 8–9 ára, og það eru hreint ekki svo lítil óþægindi að þurfa að hafa þau öll saman í einum hóp eða þá skipta í deildir og kenna þá því lengur dag hvern, eins og sumir gera. Hér við bætist, a. m. k. sums staðar á landinn, að í byrjun yrði að halda uppi farkennslu, og yrði þá presturinn að kenna á fleiri en einum stað. Ég sé í grg., að gert er ráð fyrir, að prestshúsin verði byggð með heimavist og þar verði ætluð herbergi fyrir börnin, m. ö. o., presturinn á að halda uppi heimavist. Mér er ómögulegt að trúa, að það þyki fýsilegra að vera prestur á afskekktum stað eins og t. d. Mjóafirði og að það verði stórum eftirsóknarverðara, þegar búið er með tiltölulega lítilli launahækkun að bæta þessu ofan á starfið. Ég lít svo á, að líkurnar fyrir, að prestur fáist, minnki við þetta, og er a. m. k. óhætt að slá föstu, að í þessi köll, þau óálitlegri a. m. k., fáist þeir einir, sem ekki eiga kost á betra brauði.

Næst kem ég að því, hvaða líkur séu til, að þessir aðilar ræki barnafræðsluna við þessar kringumstæður. Svara ég þeirri spurningu með því að rifja upp staðreyndir, sem ég nauðþekki. Fyrst vil ég minna á, að í rúm 20 ár var prestur í minni sveit, aldraður, heilsuveill maður, sem sótti um þetta brauð frá öðru erfiðara. Óhætt er að segja afdráttarlaust, að þessi aldraði maður var mjög vinsæll og vel látinn allan þann tíma, sem hann starfaði hjá okkur, og við ekki í vafa um, að hann var fær um að gegna sínu prestsstarfi. Sést það bezt á því, að safnaðarmenn sendu oftar en einu sinni áskorun um, að hann fengi að starfa lengur en aldurstakmarkið sagði til um. En þessi maður hefði hreint ekki getað sinnt barnafræðslunni, með öllu því þvargi, sem henni fylgir, bara af því að hann var við aldur og heilsuveill. Þá vil ég benda á annað dæmi, sem er nokkru eldra. Í Mjóafirði starfaði um skeið prestur, sem tvímælalaust var valinn maður til að gegna prestsembætti. Hann reyndi að fást við kennslu með, en það var honum um megn, því að þar var hann ekki á réttri hillu, enda hafði hann ekki búið sig undir kennslu barna sem lífsstarf. Ég veit með vissu, að fermingarundirbúningur presta, þar sem ég þekki til, er oft aðeins fáir dagar í vikunni fyrir ferminguna og allt niður í einn dag, laugardaginn, og önnur afskipti af kristilegu uppeldi í þessu tilfelli engin. Þessar staðreyndir þekki ég út í æsar, og benda þær til, að ekki sé álitlegt til góðs árangurs að knýja prestana til kennslustarfa. Það má ekki skilja svo út frá þessu, að ég áliti, að meginþorri prestastéttarinnar sé ófær um að sinna barnafræðslu, en ég óttast einfaldlega, að í þetta horf sæki í þessum fámennu og minna eftirsóttu stöðum, því að þangað sækja að jafnaði ekki þeir dugmestu úr stéttinni.

Ég hef þá leitt nokkur rök að því, að í fyrsta lagi er með þessu stigið spor til baka frá fræðslulögunum hvað snertir barnafræðsluna, í öðru lagi mundu litlu köllin ekki verða eftirsóttari eftir þessa breytingu, og í þriðja lagi, að þeir ýmsu vitnisburðir, sem fyrir liggja um starfshætti presta, benda til, að nokkur óvissa sé, hversu heppilegir þeir séu til barnakennslu. Hér til viðbótar vil ég einnig benda á, að með tilhögun 6. gr. væri gripið á mjög óheppilegan hátt inn í þróun barnafræðslunnar, þar sem hafizt hefur verið handa um uppbyggingu skólakerfisins í sveitum sem annars staðar, sums staðar með því að sameina tvö eða fleiri lítil skólahverfi um einn heimavistarskóla, en sums staðar eru fyrirhuguð önnur viðbrögð, þar sem um er að ræða lítil sveitarfélög, sem eru einangruð, eins og t. d. Mjóifjörður. Mér sýnist, að þessi þróun yrði að nokkru leyti stöðvuð um sinn. Skólahverfin ættu þá að bíða eftir, að byggð verði prestssetur, en t. d. í Mjóafirði er útilokað, að það fáist að svo stöddu. Þótt erfitt sé og dýrt að koma upp kennaraíbúð, hygg ég enn dýrara að koma upp prestssetri, þó að ríkið eigi að kosta það. Það er ætlazt til, að beðið sé eftir þessu og svo eftir presti, hver veit hvað lengi, í stað þess að halda áfram ótruflað við uppbyggingu skólakerfisins í samræmi við fræðslulögin. Ég tel, að fræðslumálum viðkomandi héraða sé með þessu gert verulegt óhagræði. Hlýt ég því að leggja til, að þessi grein verði felld niður, og fer þess á leit við hæstv. forseta, að hann beri hana upp sérstaklega við atkvæðagreiðslu.

Hvað viðvíkur frv. sem heild, þá hafa aðrir rætt það aftur á bak og áfram, og sýnist mér, að stuðningsmenn þessa máls leggi áherzlu á að knýja frv. þetta í gegn nú þegar, til þess að lögin, sem sett voru um þetta í fyrra, komi ekki til framkvæmda. Með þeim lögum voru lögð niður nokkur prestaköll, fyrst og fremst þau, sem ekki hafði verið prestur í að undanförnu. Ein af rökunum gegn því að fækka prestum í dreifbýlinu eru, að það sé fjandskapur við sveitirnar. En ég verð að segja það, að eigi ég kost á að fækka embættismönnum, sem ég tel lítt eða ekki þarfa, þá hlýt ég að ljá fækkuninni lið. Og álit mitt í þessu sambandi styð ég m. a. við skoðun milliþn., sem viðurkennt hefur verkefnaskort prestanna með till. sínum um kennsluskylduna. Einnig má bera saman fjölda lækna og presta á ýmsum stöðum. Heima hjá mér verður þessi samanburður mjög áþreifanlegur. Þar er læknishéraðið nákvæmlega jafnstórt og prestakallið, þ. e. Neskaupstaður með Norðfjarðarhreppi og Mjóafjarðarhreppi. Að vísu er ég ekki daglegur gestur í Neskaupstað, en mjög oft legg ég leið mína þangað, og er ég þar vel kunnugur, enda búsettur í næsta firði. Ég hef séð störf þessara manna í þessu plássi, þar sem segja má, að hver maður sé önnum kafinn við framleiðsluna. Ég skal ekki segja, að læknirinn hafi allra manna mest að gera, en presturinn minnst, því að slíkt væri sleggjudómur. En ólíku er saman að jafna um annríki þessara embættismanna. Það veit hvert mannsbarn á staðnum, enda hefur presturinn nú bætt við sig allumfangsmiklu kennslustarfi við gagnfræðaskólann í Neskaupstað. Hverfið er þó jafnstórt fyrir báða, og báðir hafa jafnmörgum mönnum að sinna. Svo á maður að trúa því, að það sé óumflýjanleg nauðsyn, að haldnir séu t. d. 6 prestar í Rangárþingi, þar sem aðeins er einn læknir. Og á Fljótsdalshéraði, þar sem eru 1 til 2 læknar, á að vera nauðsynlegt að hafa 4 presta. Mér er ómögulegt að fella mig við slíkar röksemdir.

Eins og ég hef sagt, þá fer ég ekki út í það að ræða einstök atriði þessa frv. En ég vil þó segja þetta: Ég get ekki fallizt á nauðsyn margra þeirra breytinga, sem í frv. felast, frá l. þeim, sem samþ. voru í fyrra, og mun ég greiða atkv. samkvæmt því.