12.11.1951
Efri deild: 27. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í B-deild Alþingistíðinda. (224)

74. mál, loftvarnaráðstafanir

Frsm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 105, er staðfesting á brbl., sem sett hafa verið um það efni, sem þar greinir. Samkvæmt áður gildandi l. var reglan sú, að kosið skyldi í þessar loftvarnanefndir á þann hátt, að þær væru kosnar af bæjar- og sveitarstjórnum, en lögreglustjóri væri form. þeirra. Þær áttu að vera skipaðar 4 mönnum í Reykjavík og 2 mönnum annars staðar á landinu, auk lögreglustjóra.

Nú hefur nefnd verið starfandi í vor eða sumar, sem gerði bráðabirgðaathugun á þessum málum yfirleitt og ráðstöfunum til loftvarna og annarra varna gegn hættum af hernaðaraðgerðum, og þessi n. komst að þeirri niðurstöðu, að eðlilegra væri, hér í Reykjavík, að þeir embættismenn, sem fara með hinar ýmsu deildir bæjarins, svo sem slökkviliðsstjóri og verkfræðingar, skipuðu þessa n., heldur en að n. væri kosin eða skipuð mönnum, sem ekki væru starfandi í þessum ýmsu deildum bæjarins og þyrftu svo aftur að sækja alla sína aðstoð til þessara starfsgreina. Jafnframt þótti eðlilegt, sem líka er gert ráð fyrir í 1. gr., að þessar n. yrðu skipaðar með svipuðum hætti annars staðar á landinu. Breyt., sem gert er ráð fyrir samkvæmt l., er sú, að í staðinn fyrir að bæjarog sveitarstjórnir kjósi 4 menn eða 2 menn, þá skuli n. skipuð ákveðnum embættismönnum, í Reykjavík lögreglustjóra, slökkviliðsstjóra, borgarlækni, yfirverkfræðingi landssímans, verkfræðingi í þjónustu bæjarins og tveimur mönnum öðrum, kjörnum af bæjarráði. Það er gert ráð fyrir, að þetta séu menn, sem hafa yfirumsjón með þeim sérstöku tækjum, sem búast má við að nota þyrfti, ef til sérstakra varna kæmi. Annars staðar er gert ráð fyrir, að þessar n. séu skipaðar lögreglustjóra, bæjarstjóra, slökkviliðsstjóra, héraðslækni og bæjarverkfræðingi eða byggingarfulltrúa, eftir ákvörðun bæjar- eða sveitarstjórnar.

Þegar allshn. fór að athuga þetta mál eða þessa breyt., þá tók hún eftir því, að það vantaði að gera ráð fyrir því, hvernig þessum málum skyldi skipað þar, sem þeir embættismenn væru ekki, sem gert er ráð fyrir í frv. Af þeim sökum er gert ráð fyrir þessari viðbót, að ef þessir embættismenn eru ekki allir starfandi á stað, þar sem ástæða þykir til loftvarna, þá skuli lögreglustjóri og héraðslæknir þess umdæmis ásamt bæjarstjóra (oddvita) á staðnum tilnefna menn í þeirra stað. Það var hugmynd n., að þessari breyt. þyrfti að koma fram, til þess að hægt væri að skipa þessar nefndir alls staðar, einnig þar, sem þessir embættismenn eru ekki starfandi, sem gert er ráð fyrir í brbl. — Nefndin leggur til, að frv. sé samþ. með þessari breyt.