20.11.1951
Efri deild: 31. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í C-deild Alþingistíðinda. (2362)

118. mál, eftirlit með opinberum sjóðum

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. síðasta ræðumanni, að mikil þörf var á, að mál þetta væri flutt, og það er fyllilega tímabært, að mál þetta komi hér fram.

Eins og komið hefur hér fram, eru margir sjóðir, sem fengið hafa skipulagsskrá sína staðfesta, þannig að þeir geta ekki sinnt tilgangi sínum eða þeim verkefnum, sem sjóðnum var ætlað að leysa. Stafar þetta af gömlum fyrirmælum, sem nú henta ekki. Meðal annars er ég þakklátur fyrir það, að þetta mál kom fram, sökum sjóðs, sem er í mínu kjördæmi, legatssjóðs Jóns Sigurðssonar. Hann var stofnaður til þess að afstýra hallæri í Eyjafjarðarsýslu og sérstaklega í Svarfaðardalshreppi. Nú er að vísu spurning, hvernig sjóðurinn getur afstýrt hallæri með því að hafa eignir sínar í jarðeignum. Hins vegar mun vera erfitt að búa á þessum jörðum sjóðsins sökum þess, að ekki hefur verið lagt í endurbætur á húsum sem lög ákveða. — Ég er samþykkur þessu máli, en vildi fá það upplýst hjá hæstv. dómsmrh., hvort það væri leyfilegt að breyta jarðeignum slíkra sjóða í peninga og hvort ekki væri leyfilegt að breyta starfssviði sjóðs, ef tilgangur hans væri sá sami. Ég spyr að þessu, nánar tiltekið, út af sjóði í Eyjafjarðarsýslu, því að ef stjórn sjóðsins fengi staðfestingu á breytingu, væri með því móti hægt að leitast við að fyrirbyggja harðrétti af óáran. Hins vegar, eins og ákvæði sjóðsins eru nú, þá má aðeins veita hjálp, ef harðæri er skollið á.