07.12.1951
Neðri deild: 38. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í C-deild Alþingistíðinda. (2854)

129. mál, útflutningur á saltfiski

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Í því frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 273, er lagt til, að tveir aðilar, þ. e. a. s. Sölusamband íslenzkra fiskframleiðenda og Samband íslenzkra samvinnufélaga, fái framvegis að flytja út saltfisk án leyfis yfirvaldanna, en öðrum verði ekki heimilt að flytja þá vöru til sölu á erlendum markaði nema með leyfi atvmrn.

Um alllangt árabil að undanförnu hefur Sölusamband íslenzkra fiskframleiðenda haft einkarétt til útflutnings á saltfiski, en snemma á þessu ári sendi S. Í. S. úrsögn fyrir sig og sambandsfélögin úr S. Í. F., og gildir sú úrsögn frá byrjun ársins 1952. S. Í. S. hefur svo sótt um leyfi til útflutnings á saltfiski eða löggildingu sem saltfisksútflytjandi, en hefur ekki enn fengið útflutningsleyfi hjá rn. Er frv. þetta flutt í því skyni að tryggja S. Í. S. aðstöðu til sölu og útflutnings á saltfiski.

Mjög hefur verið rætt um það að undanförnu, að þýðingarmikið sé að gera verzlun og viðskipti landsmanna frjálsari en þau hafa verið síðustu áratugina. Núverandi ríkisstjórn hefur einkum stefnt að því að auka viðskiptafrelsið, og hefur fyrir nokkru verið rýmkað mjög verulega um höftin á innflutningsverzluninni. Ég býst við, að því hafi yfirleitt verið fagnað, að þetta hefur tekizt. En þá er það mjög í ósamræmi við þessa stefnu hæstv. ríkisstj., ef haldið er einokunarfjötrum á útflutningsverzluninni. Íslenzku þjóðinni er þess mikil þörf, að ötullega sé unnið að sölu á framleiðsluvörum hennar erlendis, og þetta verður betur gert með afnámi einokunar á sölunni en með því að halda henni við.

Í sambandi við þetta mál má gjarnan minna á það til samanburðar, að útflutningur á frystum fiski er ekki í höndum einnar stofnunar. Stærsti útflytjandinn á þeirri vöru er Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, en S. Í. S. flytur einnig út verulegt magn af þeirri vöru. Einnig hefur Fiskiðjuver ríkisins flutt út frosinn fisk, og einhverjir fleiri munu hafa fengið leyfi til útflutnings á þannig verkuðum fiski. Ég held, að óhætt sé að fullyrða, að þetta fyrirkomulag hafi vel gefizt, og ýmsir hafa haldið því fram og stutt með rökum, að fremur ætti að auka frjálsræði í viðskiptum með frosinn fisk en þrengja það. Þeir eru sjálfsagt fáir, ef þeir eru nokkrir, sem nú vilja halda fram, að verzlun með frosinn fisk mundi verða þjóðinni hagkvæmari, ef horfið væri að því ráði að fela aðeins einum aðila þann útflutning.

Þess hefur orðið vart, að ýmsir fiskframleiðendur telja varhugavert að gefa frjálsa verzlun með saltfisk. Er því lagt til í frv. þessu, að ekki verði stigið stærra skref til frjálsræðis í þessum efnum að svo stöddu en það að veita tveimur aðilum heimild til saltfisksverzlunar, eins og áður segir, en aðrir þurfi leyfi rn., ef þeir vilja flytja út saltfisk. En vitanlega væri æskilegast, að áður en langt liði væri fært að afnema höft á verzluninni á þessum fiski eins og öðrum.

Þegar rætt er um það að veita fleirum en S. Í. F. möguleika til útflutnings á saltfiski, virðist flm. frv. eðlilegt, að S. Í. S. komi þar í fyrstu röð. S. Í. S. er félagsskapur, sem nær yfir allt land. Samvinnufélög innan þess eru í öllum sýslum og kaupstöðum landsins, og þátttakan í þeim er mjög mikil, þar á meðal eru margir útvegsmenn og sjómenn. S. Í. S. er líka eini aðilinn, sem vitað er um að hafi óskað að hætta þátttöku í S. Í. F. og hefja útflutning á saltfiski.

Ég legg til, að máli þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.