29.10.1951
Efri deild: 21. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í C-deild Alþingistíðinda. (2942)

77. mál, Atvinnustofnun ríkisins

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, var á síðasta þingi lagt fram í hv. Nd., en fékk þá ekki afgreiðslu þar og er nú flutt hér í þessari hv. d. að þessu sinni. — Ég hef drepið á það áður í sambandi við annað mál, að þegar l. um almannatryggingar voru undirbúin, þá var einnig að nokkru leyti undirbúið frv. til 1. um atvinnustofnun ríkisins, sem skyldi hafa það verkefni, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., sem nú liggur hér fyrir, og auk þess hafa með höndum atvinnuleysisskráningar, ef þær yrðu upp teknar, ef aðrar ráðstafanir til þess að afstýra atvinnuleysi, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, reyndust ekki fullnægjandi. Síðan þessi undirbúningur fór fram, eru nú liðin sex ár, og þessu máli hefur nokkrum sinnum verið hreyft við ríkisstj. og ráðamenn í landinu á þessu tímabili, sem jafnan hafa svarað því til, að eins og þá væri ástatt, væri ekki ástæða til að koma á fót slíkri stofnun sem hér um ræðir, vegna þess að nóg atvinna væri í landinu og allir, sem vildu vinna og gætu unnið, gætu fengið nóg að gera, án þess að slík stofnun yrði sett á fót. Hins vegar hef ég engan heyrt flytja þau rök, að ef til slíks ástands kæmi. að verulegur hluti starfandi fólks í landinu ætti þess engan kost að fá atvinnu við sitt hæfi, þá væri ekki ástæða til svipaðra aðgerða eins og hér er gert ráð fyrir í þessu frv.

Nú hygg ég, að ekki sé ofmælt, þó að sagt sé. að ástandið sé orðið þann veg, að ekki sé gerlegt að vísa þessu máli frá, a. m. k. ekki á forsendum þeim, sem hingað til hefur verið beitt til tafar málinu. Það er staðreynd, sem ekki þýðir að mótmæla, að atvinnuleysi er þegar orðið verulega tilfinnanlegt á ýmsum stöðum í landinu, og var það þegar á síðasta vetri. Og fullar horfur eru á, að það verði enn þungbærara atvinnuleysi víða á landinu á þessum vetri, sem nýbyrjaður er nú. Að þetta frv. er borið fram, byggist að sjálfsögðu á þeirri skoðun, að það sé eitt höfuðverkefni hverrar ríkisstj. að haga svo stjórn á málefnum almennings í landinu, að ekki komi til atvinnuleysis umfram það, sem eðlilegt er á hverjum tíma vegna tilfærslu á milli atvinnugreina og þess háttar, og að hver maður, sem vill vinna og er fær um það, geti fengið starf við sitt hæfi. Öllum má vera það ljóst, að ef ekki er einhver opinber aðili, sem hefur þessi störf með höndum, kynnir sér ástandið og ákveður, hvaða ráðstafanir gera skuli, þá er gersamlega ómögulegt að afstýra því, að til atvinnuleysis komi. Það er líka viðurkennt, að þetta er á valdi stjórnarvaldanna sjálfra að langmestu leyti. Það er undir því komið, hvaða stefnu í atvinnu- og fjármálum stj. hallast að, hvort atvinnuleysi skapast í landinu. Þeir, sem stjórna málefnum ríkisins sjálfs og jafnframt yfirstjórn banka og annarra fjármálastofnana í landinu, þeir, sem ákveða hverju sinni, hversu miklu fé er varið til fjárfestingar á hverjum tíma og hvernig útlánafénu er ráðstafað, þeir geta haft mjög mikil áhrif á það bæði að draga úr atvinnu og auka atvinnu og einnig að jafna atvinnu í landinu milli ára og árstíða. Þetta er að minni hyggju og okkar flm. eitt sjálfsagt verkefni stjórnarvaldanna í landinu að taka til meðferðar og sjá um, að gert verði, því að um það verður ekki deilt, að sú mesta sóun á verðmætum, sem á sér stað, er það, að menn, sem hafa vinnugetu og vilja vinna, fái ekki að nota starfsgetu sína sér til framfærslu og þjóðinni í heild til gagns.

Í frv. því, sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir því, að þau verkefni, sem stofnunin hefur með höndum, séu þau, sem nú skal greina. Í fyrsta lagi skráning allra vinnufærra manna og samning launaskýrslna. Það er gert ráð fyrir, að til hennar séu sendar skýrslur um alla menn á vinnufærum aldri og hvernig starfsskiptingin er í heild á öllu landinu og í einstökum héruðum. Hvarvetna í nágrannalöndum okkar er slík skýrslusöfnun talin sjálfsögð og óhjákvæmileg undirstaða undir þeim aðgerðum, sem eru svo stórfelldar í eðli sínu, að þær hafa áhrif á atvinnuna í landinu í heild. Það er því allra hluta vegna mjög áríðandi, að slíkar skýrslur séu til á einum stað og úr þeim sé unnið til þess að fylgjast með, í hvaða áttir vinnuaflið beinist á hverjum tíma og hvar ástæða sé til að láta það afskiptalaust eða hins vegar hafa afskipti af því. Það er ekki vafi á því, að þegar mest var um fjármuni í landinu, var óeðlilega mikið af fjárfestingu, fyrirtækjum, þar sem menn kepptu um vinnuaflið, öllum til tjóns. Þegar svo stendur á, á ríkið að nota aðstöðu sína til þess að draga úr of mikilli eftirspurn eftir vinnuafli, en hins vegar gera ráðstafanir til að auka atvinnuna, þegar hún verður of lítil. Þetta er staðreynd, sem allir viðurkenna í orði kveðnu. En undirstaða þess, að slíkum ráðstöfunum sé hægt við að koma, er, að jafnan séu til skýrslur um það lausa vinnuafl í landinu og um það, hvert það beinist á hverjum tíma. Þá þarf líka að gera ráðstafanir til þess, að menn geti fært sig til á milli héraða og landshluta eftir árstíðum og árferði, því að oft er það svo, að á einum stað á landinu er of lítil atvinna og á öðrum skortur á fólki. Þetta er kannske stundarfyrirbrigði og erfitt fyrir einstaklinga að færa sig til eftir þessu. Þetta verður að gerast eftir tilvísun stofnunar, sem hefur glöggt yfirlit og eftirlit með þessu á hverjum stað og tíma. Þá er óhjákvæmilegt, að til viðbótar þessari almennu skrásetningu séu haldnar nákvæmar skýrslur um tölu atvinnuleysingja á hverjum stað og að til séu ákveðnar reglur um það, hvað talið sé atvinnuleysi, upplýsingar um, hve langvarandi atvinnuleysið hafi verið og hverjar hafi verið orsakir þess í hverju tilfelli.

Mig hryggir að þurfa að játa, að hið háa Alþ. skuli hafa fellt úr lögum skyldu ríkisins til þess að halda uppi fyrir sitt leyti vinnumiðlunarskrifstofum, sem áttu að skrá atvinnuleysingja og annað slíkt. Það er ömurlegt til þess að vita, að ekki skuli hafa verið meiri skilningur á þessu hjá hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokkum hennar en það, að einmitt þegar atvinnuleysi er að hefjast í landinu, skuli vinnumiðlunarskrifstofurnar vera lagðar niður.

Annað verkefni þessarar stofnunar yrði atvinnuleysisskráning og svo hið þriðja vinnumiðlun. Slík starfsemi er öllum hv. þm. svo kunnug, að ég tel óþarft að gera grein fyrir því, í hverju hún er fólgin. Auk þess, sem ég taldi, er skrifstofunni ætlað á hverjum stað að miðla þeirri vinnu, sem fellur til á staðnum, og tilætlunin er, að atvinnustofnunin og þær stofnanir, sem atvinnustofnunin felur að hafa nokkurt eftirlit á hverjum stað, hafi samband sín á milli um allt land og leiðbeini mönnum um að flytja sig milli staða, eftir því sem ástæða er til á hverjum tíma. Og sérstaklega vil ég benda á, að vinnumiðlun er í þessu frv. ekki eingöngu og ekki aðallega hugsuð á atvinnuleysistímum, til þess að úthluta atvinnubótavinnu, heldur jafnan til að leiðbeina atvinnurekendum og öðrum slíkum um ráðningu manna til margháttaðra starfa. Það er orðinn svo lítill persónulegur kunnugleiki hjá okkur sem einstaklingum á milli atvinnurekenda og verkamanna, að ekki er hægt að láta hendingu ráða í þessum efnum. Atvinnurekendum er þess ekki síður nauðsyn en verkamönnum, að til sé stofnun í hverjum landshluta, sem geti leitt saman og reynt að samræma óskir atvinnurekenda um starfsfólk og óskir verkamanna um störf. Það má því alls ekki líta á vinnumiðlun eingöngu sem þátt í því að útvega atvinnuleysingjum vinnu, þegar erfitt er um atvinnu, heldur miklu fremur sem sjálfsagðan aðila til þess að koma á samningum milli atvinnurekenda og verkamanna og fullnægja beggja þörf og létta báðum þessum aðilum starfsemi sína.

Þá er gert ráð fyrir því í frv. til viðbótar þessu, að stofnunin leiðbeini um stöðuval þeim, sem þess óska, og jafnvel verði gerðar sérstakar ráðstafanir í því sambandi. Það er ekki vafi á því, að það er eins hjá okkur og annars staðar, að á því er hin mesta nauðsyn, þar sem svo mikil fjölbreytni er í störfum, að mönnum sé leiðbeint um að komast, eins og sagt er, á rétta hillu í lífinu. Hneigðir manna eru mismunandi og störfin margháttuð, og litlar líkur eru til þess, án opinberrar aðstoðar, að menn hitti á eða eigi þess kost að taka fyrir þau störf, sem þeir eru hneigðastir fyrir og gera mest gagn við, ef þeir beina að þeim kröftum sínum. Slíkar stofnanir hafa verið settar upp í nágrannalöndunum og eru að vísu á byrjunarstigi, en að sjálfsögðu er slíkri stofnun sem hér um ræðir ætlað að byrja þessa starfsemi um leið og hún tæki til starfa. Hér í Reykjavík eru ágæt skilyrði. Hér er iðnskóli, sem tekur við öllu fólki, sem iðnaðarnám stundar, auk barna- og unglingaskóla. Ég minnist þess, að á skátasýningunni var eins konar skoðanakönnun, þar sem krakkarnir áttu að gera grein fyrir, hvaða starf þeir vildu velja sér, og þó að ekki sé mikið upp úr því leggjandi, þá sýnir það, að hugur manna er opinn fyrir þessu og vilji og viðleitni í þessa átt. Þá er einnig nauðsynlegt, þar sem í mörgum tilfellum er þarna um að ræða menn, sem ekki eru fullkomlega heilir og hraustir til að geta tekið að sér hvaða störf sem er, að koma því svo fyrir, að menn eigi þess kost að æfa sig og þjálfa sig og læra ýmislegt í sambandi við sérstök störf, sem þeim eru hentug, jafnvel þó að ekki sé um öryrkja að ræða í þeirri venjulegu merkingu þess orðs. Á sama hátt er alveg nauðsynlegt á þéttbýlustu stöðum landsins, þegar litið er um atvinnu, að sérstakar ráðstafanir séu gerðar til þess, að unglingar á vissu aldursskeiði eigi þess kost að fá vinnu við sitt hæfi, þegar þeir stunda ekki nám, án þess að gerast keppinautar þeirra, sem leggja fyrir sig almenna verkamannavinnu. Það er enginn vafi á því, að jafnvel þó að lítið sé um atvinnu, þá er mikið hægt að gera í þessu efni, ef sérstök verkefni eru fyrir þessa unglinga.

Þá er sá liðurinn, sem kannske er einna þýðingarmestur fyrir vinnumiðlun og leiðbeiningar og það er öryrkjavinnan. Eftir þeim skrám, sem liggja fyrir nú, þá mun láta nærri, að það séu um 2500 manns í landinu, sem talið er að hafi misst meira en 50% af starfsgetunni, auk alls þess fólks, sem dvelur á hælum, eins og berkla eða geðveikrahælum, og sjúkrahúsum til langframa. Margt af þessu fólki, sérstaklega það, sem er nokkuð við aldur, getur á engan hátt komið sér fyrir á þeim almennu opinberu vinnumörkuðum, allra sízt þegar lítið er um atvinnu. Enginn efi er á því, að mörgu þessu fólki mætti hjálpa til sjálfsbjargar, ef hægt væri að hafa vinnustofnun, við skulum segja saumastofu, þar sem saumuð væru föt, hnýtt net, lóðir settar upp o. m. fl., sem þessu fólki gæti hentað, ef þannig væru híbýlahættir, að það gæti mætt ákveðinn tíma á dag og unnið þessi störf við góð skilyrði. Þessu fólki, sem svona er ástatt um, væri bezt hjálpað með því, að svona vinnustofnun væri sett upp, svo að það gæti unnið þar að þeim störfum, sem því hentaði bezt. — Aftur er annar flokkur öryrkja, sem er fólk á unga aldri og hefur hlotið einhver meiðsl eða áfall, sem gerir það að verkum, að það eru ekki nema sérstök störf, sem því henta, en eru þó þannig, að það getur rækt þau jafnvel og hver annar. Til þess að vinnuafl þessa fólks gæti notið sín, þyrfti það að eiga þess kost að vera á námskeiðum, sem því hentuðu, í þeim störfum, þar sem líkur eru til, að það gæfi full afköst að loknu námi. — Loks kæmi til mála með þá öryrkja, sem aldrei hafa von um að geta fengið fulla vinnugetu, en hafa þó nokkra orku til vinnu undir góðum skilyrðum, líkt eins og er með sjúklinga, sem bíða fulls afturbata á Reykjalundi. Það gæti komið til mála að minni hyggju, að þeir tækju þátt í sérstakri framleiðslustarfsemi í landinu, ef henni væri haldið til þeirra á einn veg eða annan.

Ég bendi á þessi atriði, til þess að mönnum sé ljóst, að margir möguleikar eru hér, án þess að stórkostlega miklu fé þurfi til að kosta. Hér er um svo mikil verðmæti að ræða, sem fara í súginn, að sjálfsagt er, að þessi mál séu tekin til athugunar svo fljótt sem við verður komið.

Þetta eru þá samkvæmt frv. þau meginverkefni, sem atvinnustofnuninni eru ætluð. Til viðbótar skal ég geta þess, að ef það verður ofan á, sem ég tel óhjákvæmilegt, að atvinnuleysistryggingar verði leiddar í lög, þá eiga þær aðeins að vera sem síðasta úrræði, og til þess á að sjálfsögðu ekki að grípa, fyrr en búið er að gera allar aðrar ráðstafanir, sem unnt er, og þær hafa ekki reynzt fullnægjandi. Ég tel því sjálfsagt, ef atvinnuleysistryggingar verða teknar upp undir því fyrirkomulagi, að ein stofnun annist þær fyrir landið allt, að þá sé þessari sömu stofnun, atvinnustofnun ríkisins, falið að hafa stjórn þeirra og framkvæmd með höndum.

Ég skal svo ekki hafa þessa framsögu lengri, en vil leyfa mér að mælast til þess og leggja til við hæstv. forseta, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til heilbr.- og félmn.