10.01.1952
Efri deild: 56. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í C-deild Alþingistíðinda. (3033)

152. mál, húsrými fyrir geðsjúkt fólk

Frsm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Út af þeim ummælum, sem hér hafa orðið í sambandi við fjölda þeirra sjúklinga, sem væntanlega kæmu til með að eiga kröfu á hælisvist samkvæmt ákvæðum þessa frv., þá eru hér ofur litlar upplýsingar í bréfi, sem Helgi Tómasson sendi n. á síðasta þingi, þar sem hann segist hafa reynt að reikna út eftir upplýsingum, sem hann hafi aflað sér, um hve marga slíka sjúklinga gæti verið að ræða. Hann telur útkomuna vera, að það muni þurfa um 37 öryggisklefa undir þessa sjúklinga, en hann telur jafnframt, að þessir klefar mundu fljótlega stíflast, þar eð þarna sé um varanlega sjúklinga að ræða á hælinu, og býst þess vegna við, að innan fárra ára muni þurfa að bæta við þessa klefa. Frá mínu sjónarmiði — en ég er að sjálfsögðu leikmaður í þessum efnum — virðast mér þetta nokkuð undarlegar upplýsingar, og eru þær sennilega gefnar í fljótræði, þótt þær kunni að vera réttar. En ég vil geta þess einnig, að það er ekki eingöngu húsnæðisskortur, sem þarna er um að ræða, heldur þarf og að fá fólk til þess að gæta sjúklinganna. En ég vil þrátt fyrir þessar upplýsingar leggja áherzlu á það að leggja þessa skyldu á Kleppsspítalann, að hafa alltaf pláss til að taka við þannig hættulegum sjúklingum, alveg eins og slysavarðstofur og spítalar telja sér skylt að hafa alltaf pláss fyrir hættulega slasaða eða veika menn, hvernig svo sem þessu verður komið fyrir, en það á að vera hægt og hlýtur að vera hægt, án þess að til þess komi, að stöðugt þurfi að bæta við nýjum klefum, vegna þess að hinir eldri stíflist. Þess vegna er ég ekkert hikandi að taka þátt í að bera fram þetta frv., án þess að koma jafnframt með tillögur um það, á hvern hátt skuli leysa þessa hlið málsins, er snýr að húsnæðinu. Mér finnst það hljóti að vera frumskylda þessa spítala sem annarra að taka við hættulega veiku fólki. Ég játa, að ég er leikmaður í þessum efnum, en mér finnst, að það horfi ekki öðruvísi við fyrir Kleppsspítalann en aðra spítala, að hann verði að vera reiðubúinn til að taka við sjúklingum, þegar stórhættuleg veikindi ber að höndum.