08.11.1951
Sameinað þing: 13. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í D-deild Alþingistíðinda. (3068)

75. mál, viðbótarsamningur við Norður-Atlantshafssamninginn

Frsm. minni hl. (Finnbogi R. Valdimarsson):

Herra forseti. Um það bil sem Atlantshafsbandalagið var stofnað, ritaði Mr. Summer Welles, fyrrv. aðstoðarutanrrh. Bandaríkjanna, grein í eitt stærsta og áhrifamesta blaðið í Bandaríkjunum, New York Herald Tribune, þar sem hann gagnrýndi það, hvernig haldið hefði verið á samningum af hálfu Bandaríkjanna til undirbúnings bandalagsstofnuninni. Mr. Summer Welles hafði verið svo að segja uppalinn í utanríkisþjónustu lands síns. Hann hafði unnið í þeirri þjónustu alla sína starfsævi, gegnt þar fjöldamörgum vanda- og virðingarstöðum, en síðast verið aðstoðarutanrrh. í fjölda ára og sérstakur sendimaður og trúnaðarmaður Roosevelts forseta í sendiförum til Suður-Ameríku og Evrópu. Í þeirri grein, sem ég gat um og birtist í New York Herald Tribune 22. febr. 1949, komst hann m. a. að orði á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Aðferðirnar, sem hefur verið beitt í þessum samningum, sýna, hve hörmulegar afleiðingarnar hljóta alltaf að verða, þegar utanríkisstefnu Bandaríkjanna er stjórnað af hershöfðingjum.“ — Á ensku: „The way in which we have handled these negotiations shows how fatal the effects must always be, when American foreign policy is controlled by the armed services.“

Í júlí í sumar skrifaði einn af hæstaréttardómurum Bandaríkjanna, Mr. Douglas, grein í eitt víðlesnasta vikuritið í Bandaríkjunum. Greinin fjallar beinlínis um utanríkisstefnu Bandaríkjanna og það, hver áhrif hún hefði haft víða um heim, en þó einkum í Asíu, en dómarinn var nýkominn þaðan úr margra mánaða ferðalagi. — Það er ekki algengt, að hæstaréttardómarar taki sér fyrir hendur að fletta ofan af rangri stjórnarstefnu eða því, sem þeir álíta ranga stjórnarstefnu síns eigin lands. Þessi grein eftir Douglas dómara, sem mun vera einn af þeim dómurum í hæstarétti Bandaríkjanna, sem mestrar virðingar njóta, vakti því mikla athygli víða um heim. Í þessari grein lýsti Douglas dómari yfir þeirri skoðun sinni, að utanríkisstefna sú, sem fylgt hefur verið af Bandaríkjastjórn síðan Roosevelt forseti féll frá, hefði beðið algert skipbrot, lent í algerum ógöngum, væri „bankrupt“ — gjaldþrota. Hann lýsti hinum skaðvænlegu áhrifum, sem þessi stefna hefði haft víða um heim, séð frá hagsmunasjónarmiði Bandaríkjanna sjálfra. Hann lýsti stærstu skyssunum, sem hann taldi að hefðu verið gerðar. Hann sagði, að ólgan í Asíulöndunum væri eðlileg uppreisn gegn erlendum yfirráðum og heimsveldisstefnu og innlendu arðráni stóreignamanna. Hann sagði, að utanríkisstefna Ameríku hefði leitt af sér ákafa andúð í garð Bandaríkjanna með öllum Asíuþjóðum og að það hefði verið hræðileg yfirsjón að láta amerísku herina nokkurn tíma fara yfir 38. breiddarbauginn í Kóreu og ef ekki yrði breytt um utanríkisstefnu Bandaríkjanna, gæti það leitt til þess, að öll Asía yrði kommúnistísk. „Ástæðan til allra þessara ófara, orðinna og yfirvofandi,“ sagði hann, „er sú, að Ameríkumenn hafa gerzt „fórnardýr hernaðarlegs hugsunarháttar“, — á ensku: have become victims of military thinking, — „og að sjónarmið og skoðanir hershöfðingja ráða utanríkisstefnunni.“ „Þetta,“ segir hæstaréttardómarinn, „en ekki vopnaveldi Rússa, er orsök þess öryggisleysis, sem ameríska þjóðin býr við í dag.“

Í einu viðurkenndasta blaði Bandaríkjanna, Baltimore Sun, birtist í sumar grein eftir víðkunnan blaðamann, Mark Watson, hernaðarsérfræðing þessa blaðs. Hann sagði þar m. a., en greinin er skrifuð um herstöðvar Bandaríkjanna á Spáni: „Það er dálítið hastarlegt að veita því athygli, að í okkar lýðræðisþjóðfélagi, þ. e. Bandaríkjunum, þar sem borgaraleg, pólitísk sjónarmið hafa fram að þessu alltaf ráðið utanríkisstefnunni og her og floti orðið að haga sér eftir því, þá skuli nú vera komið svo í dag, að ekki er minnsti vafi á því, að hernaðarlegar þarfir ráða stefnunni í utanríkismálum.“

Ég hef hér nefnt þrjú nöfn, Summer Welles, fyrrv. aðstoðarutanrrh., Douglas hæstaréttardómara og Watson, víðkunnan blaðamann. Allir þessir amerísku menn slá því föstu, að stefna Bandaríkjanna í utanríkismálum sé miðuð við hernaðarleg sjónarmið, enda stjórnað raunverulega af hershöfðingjum. Ég hef með þessu viljað finna stað þeim orðum mínum í nál. minni hl. utanrmn., að það mál, sem hér um ræðir, að taka Tyrki og Grikki í Atlantshafsbandalagið, og Alþingi Íslendinga á nú að leggja blessun sína yfir, er runnið undan rifjum þeirra amerísku hershöfðingja, sem stjórna núverandi utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Það er miðað við það eitt, sem þeir telja hernaðarlegar þarfir Bandaríkjanna, en á ekkert skylt við hinn yfirlýsta tilgang Atlantshafsbandalagsins að skapa varnir fyrir lýðræðisríkin við Norður-Atlantshaf og efla lýðræði á Norður-Atlantshafssvæðinu.

Nú má vera, að einhverjir segi, að þau þrjú amerísku vitni, fyrrv. utanrrh., hæstaréttardómari og blaðamaður við Baltimore Sun, sem ég hef leitt fram þeirri staðhæfingu minni til sönnunar, að utanríkismálastefnu Bandaríkjanna sé stjórnað af hershöfðingjum og hún miðist við hernaðarlegar þarfir einar, séu kommúnistar eða laumukommúnistar. Það getur vel verið, að senator Mac Carthy hafi þegar „stimplað“ alla þessa menn sem kommúnista. Ég hef ekki fylgzt með því. Dálítið skrýtið væri það þó, t. d. um Douglas hæstaréttardómara, því að Pravda, hið rússneska málgagn, lýsti hann fyrir nokkrum árum njósnara í leyniþjónustu Bandaríkjanna fyrir þá sök, að hann hefði haft þann sið árum saman að fara í sumarleyfi sínu í fjallgöngur í Himalayafjöllum og á landamærum Persíu og Sovétríkjanna. En Mac Carthy þessi hefði sem kunnugt er heimsmet í bjánalegu rausi um kommúnisma og kommúnista, ef við hefðum ekki okkar hæstv. utanrrh. og Morgunblaðið hans.

Þegar Atlantshafsbandalagið var stofnað, tók Ameríka upp stóra fjárveitingu til hernaðaraðstoðar við ríkin, sem í það gengu. En áður höfðu verið veittar stórkostlegar upphæðir til hernaðaraðstoðar í Tyrklandi, Grikklandi, Mið-Kína, Suður-Kóreu og Filippseyjum, síðar var Formósu með Chiang kai-Shek bætt við, og nú kemur Spánn í þennan flokk, en Grikkland og Tyrkland færast yfir á Norður-Atlantshafssvæðið. Því er haldið fram, að því er virðist í alvöru, að öryggi Íslendinga verði meira fyrir það, að lönd í Afríku og Asíu, Algier og Tyrkland, séu í Norður-Atlantshafsbandalaginu. Alþingi Íslendinga á nú að samþykkja bandalag við Tyrki á þeim forsendum. Ekki fylgir það þó með enn, að við eigum að fá Tyrki og Algiermenn til landvarna á Íslandi, þó að uppástungur hafi heyrzt um það, að vel viðeigandi væri að fá þeim t. d. skansinn á Bessastöðum, Grindavík og Vestmannaeyjar til gæzlu fyrir sakir „sameiginlegrar arfleifðar“, eins og segir í forsendum þessa samnings.

Nei, öryggi okkar á að vaxa við það eitt, að þessir Múhameðstrúarmenn í Norður-Afríku og Litlu-Asíu séu með í Norður-Atlantshafsbandalaginu. Óljóst og dálítið dularfullt er, hversu þetta aukna öryggi á að skapast. Bandaríkin hafa í mörg ár haft samning við Tyrki og stöðvar fyrir flota og flugher og greitt til þess stórfé. Aðmíráll Atlantshafsbandalagsins á Miðjarðarhafi á að hafa valdssvið allt til Ceylon. Þetta er staðhæfing hershöfðingjanna og aðmírálanna, sem stjórna utanríkisstefnu Bandaríkjanna, mannanna, sem hafa, að því er Douglas hæstaréttardómari Bandaríkjanna heldur fram, leitt öryggisleysið yfir borgara Bandaríkjanna.

En af því að við íslenzkir alþingismenn eigum nú í dag að sýna, þ. e. þeir, sem vilja sýna, að við trúum staðhæfingu hershöfðingjanna, en ekki hins vel metna, ameríska borgara, þá er ekki úr vegi að rifja upp, í hverju utanríkisstefna hinna amerísku hershöfðingja er fólgin, að hverju hún stefnir og hvaða árangur hún hefur borið til þessa. Við höfum fulla ástæðu til þess, Íslendingar, því að þessi stefna kom fyrst fram í fullu ljósi gagnvart okkur Íslendingum.

Í október 1945 kröfðust Bandaríkin herstöðva hér á landi til hundrað ára fyrir landher sinn, flugher og flota. Þau neituðu síðar að hverfa með herafla sinn burt af þessu landi eins og þeim bar samkv. hátíðlega gefnum loforðum Roosevelts forseta, nema því aðeins að þau fengju jafngildi herstöðva hér. Hér voru að verki áhrif hershöfðingjanna á utanríkisstefnu Bandaríkjanna, manna, sem svifust þess ekki að gera orð Roosevelts forseta ómerk og þurrka út alla hans stefnu, manna, sem líta ekki á „borgaraleg, pólitísk sjónarmið“, heldur aðeins á sínar hugmyndir um það, hvað ameríski herinn þurfi að fá, hvar sem er í heiminum, og það skuli hann fá. Þetta var í október 1945. Þá var ekkert Atlantshafsbandalag og engin stríðshætta. Blóðið úr sárum milljónanna var að byrja að storkna og blekið á samningum Roosevelts forseta við Rússa var nýlega þornað. Rússar höfðu ekki sýnt sig í neinni ágengni. En nýir menn höfðu náð tökum á utanríkispólitík Bandaríkjanna, hershöfðingjarnir.

Hershöfðingjum hættir til að halda, að það sé fyrst og fremst hernaðarleg aðstaða, herstöðvar og vopnin sjálf, sem ráði úrslitum stríða. Borgaralegir menn vita, að það er fleira. Ég gæti nú lesið hér margar athyglisverðar lýsingar amerískra hershöfðingja frá árunum eftir 1945 á því, hvar í heiminum þeir hafi og hvar þeir þurfi að fá herstöðvar til þess að geta með skjótum og auðveldum hætti malað Rússa með atómsprengjum, sendum með sérstökum gerðum flugvéla. Herstöðvar hringinn í kringum Sovétríkin og atómsprengjan, — það var nóg. Þetta var og er utanríkispólitík hershöfðingjanna amerísku, sem leitt hefur öryggisleysið yfir ameríska borgara, eins og m. a. Douglas hæstaréttardómari hefur sagt.

En hvað á Douglas hæstaréttardómari við með því, að þessi stefna sé gjaldþrota? Markmið og tilgangur amerískrar utanríkisstefnu síðustu ára hefur oft verið orðað svo, að það sé:

1. Að hindra framgang kommúnismans í heiminum.

2. Að semja við gagnaðilann þá og því aðeins, að Bandaríkin og bandamenn þeirra hafi nógu sterka aðstöðu.

Hvernig hefur þetta nú tekizt? Það má taka aðeins fá dæmi til þess að sýna það og fara fljótt yfir sögu.

Þegar Atlantshafsbandalagið var stofnað, tók ameríska þingið upp stóra fjárveitingu til hernaðaraðstoðar við ríkin, sem í það gengu, en áður höfðu verið veittar stórkostlegar upphæðir til hernaðaraðstoðar í Tyrklandi, Grikklandi, Indókína, Suður-Kóreu og Filippseyjum, og síðan var Formósu með Chiang kai-Shek bætt við, og nú kemur Spánn í þennan flokk, en Grikkland og Tyrkland færast yfir á Atlantshafsbandalagið.

Sumarið 1949 birti bandaríska utanríkisráðuneytið hvíta bók um viðskipti Bandaríkjanna við stjórn Chiang kai-Sheks í Kína. Þar var upplýst, að Bandaríkin hefðu þá varið 4000 millj. dollara af fé amerískra skattborgara og fengið þetta fé í hendur Chiang kai-Shek til þess að hindra framgang kommúnismans í Kína. Ég las þessa hvítu bók alla. Hún var langt, ýtarlegt og merkilegt mál. Ég hef heyrt og séð ljóta lýsingu á stjórnum, sem setið hafa að völdum hér á Íslandi, í eldhúsdagsumræðum hér á Alþingi, en ég hef aldrei séð svo dökka lýsingu á neinni stjórn eins og þessa lýsingu utanríkisráðuneytisins bandaríska á þessum þáverandi og núverandi bandamanni sínum. Um hitt, hvernig framgangur kommúnismans í Kína var stöðvaður með þessum 4000 millj. dollara og ráðum og dáð amerískra hershöfðingja, þarf ekki að ræða.

Kommúnistar ráða nú yfir 500 millj. Kínverja, og vopnin og hergögnin, sem keypt voru fyrir þessar 4000 millj. dollara handa Chiang kai-Shek til þess að hindra framgang kommúnismans í Kína, hafa verið notuð með góðum árangri til þess að hindra framgang amerísku herjanna í Kóreu. En bandamaðurinn Chiang kai-Shek, sem utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna lýsti óalandi og óferjandi 1949 og ákvað að svipta öllum fjárstyrk, er setztur að á eynni Taiwan eða Formósu og nýtur enn riflegs stuðnings frá Ameríku.

Eyjan Taiwan eða Formósa er annað ágætt dæmi um það, hvernig borgaraleg, pólitísk sjónarmið hafa orðið að víkja fyrir hernaðarlegum sjónarmiðum hershöfðingjanna, sem sjá aðeins herstöðvar, og hvernig sjálft utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna hefur orðið fórnardýr hernaðarlegs hugsunarháttar.

Hinn 23. des. 1949 lagði utanríkisráðuneytið ameríska fyrir utanríkismálanefndir þingsins skjal merkt „trúnaðarmál“ til upplýsingar um stefnuna viðvíkjandi Formósu, en þá var búizt við því, að Formósa kynni að falla í hendur kínverskra kommúnista. Í skjali þessu, sem nú í sumar var birt af utanríkismálanefnd öldungadeildar ameríska þingsins, segir m. a.: „Formósa er frá pólitísku, landfræðilegu og hagfræðilegu sjónarmiði hluti af Kína . . . Það mundi ekki skaða alvarlega hernaðarlega hagsmuni Bandaríkjanna, þótt eyjan félli í hendur kommúnistum, og ekki bjarga Chiang kai-Shek frá algerðum ósigri, þótt hún væri varin, enda bæri Bandaríkjunum engin skylda til þess. Það mundi spilla vináttu Bandaríkjanna og bandamanna þeirra (þ. e. Breta) og vekja fjandskap og tortryggni Asíuþjóða í garð Bandaríkjanna fyrir hernaðaraðgerðir, heimsveldisstefnu og yfirgang.“ Þetta voru orð utanríkisráðherrans Achesons sjálfs 23. des. 1949, og það er enginn vafi, að það hefur farið svo sem Acheson spáði, að Bandaríkin hafa uppskorið tortryggni og fjandskap Asíuþjóða fyrir aðgerðir sínar á Formósu. — En hvernig fór? Hann varð að lúta í lægra haldi fyrir hershöfðingjunum, sem ráða utanríkisstefnunni, þegar á herðir. Formósa er varin amerískum herskipum og fengin Chiang kai-Shek og liði hans, sem gerir þaðan árásir á Kína með amerískum flugvélum. Þó kemur öllum óháðum hernaðarsérfræðingum saman um það, að eyjan hafi aðeins mikla hernaðarþýðingu til árása á Kína, en ekki til árása þaðan, t. d. á Japan, hvað þá til fjarlægari amerískra stöðva.

Til dæmis um það, hvernig litið er á þetta framferði Bandaríkjamanna, skal aðeins tilfært eitt dæmi af mörgum. Í riti, sem þrír af ráðherrum verkamannaflokksstjórnarinnar í Bretlandi gáfu út, rétt eftir að þeir höfðu sagt af sér ráðherraembættunum í sumar, segir svo um þetta:

„Dvöl Chiang kai-Sheks á Formósu í skjóli amerískra fallbyssna og amerískra styrkja er táknræn fyrir alla Asíu. Aðeins vera hans þar getur eyðilagt öll áhrif af áætlunum Ameríkumanna um fjárhagsaðstoð til Asíulanda, þótt þau væru tíu sinnum meiri en þau eru.“

En í sama riti er sýnt fram á, að fyrir hvert eitt cent (1/100 úr dollar), sem Bandaríkjamenn verja til fjárhagsaðstoðar til Asíuþjóða til friðsamlegra þarfa, verja þeir 300 dollurum til herbúnaðar, og er þó ekki Kórea talin með.

Um rétt Bandaríkjanna til að halda Formósu lét amerískur senator, Morse að nafni, svo ummælt í sumar, með leyfi hæstv. forseta: „Ég er hræddur um, að ef Formósumálið kæmi fyrir alþjóðadómstólinn núna og ef um það eitt væri að ræða, hvort Kairo-samningurinn hefði gildi sem alþjóðalög, þá gæti svo farið, að alþjóðadómstóllinn skyldaði okkur til þess að láta Formósu af hendi. Það gæti a. m. k. orðið mjög erfitt fyrir okkur að vinna það mál á Lagalegum grundvelli.“

En Mac Arthur sagði um sama leyti: „Við töpum bókstaflega Kyrrahafinu, ef við látum Foxmósu af hendi.“

Sjónarmið hershöfðingjans réð hér sem oftar, þótt það kostaði það, að utanríkisráðherrann yrði að kingja skýrslu sinni frá 23. des. 1949.

Þriðja dæmið um það, hvaða árangur utanríkispólitík amerísku hershöfðingjanna hefur borið, er Filippseyjar, önnur þýðingarmesta herstöð þeirra í Austur-Asíu. Ég verð að fara fljótt yfir sögu, svo að ég ætla að láta nægja að tilfæra stuttan kafla úr grein, sem birtist í vor í ameríska tímaritinu Foreign Affairs, sem er hálfopinbert málgagn utanríkisráðuneytisins ameríska. Þar segir svo:

„Þeir Ameríkumenn, sem hafa haldið, að á Filippseyjum höfum við unnið fyrirmyndarstarf með því að leiða nýlenduþjóð til sjálfstæðis og velmegunar, eru nú að verða fyrir sárum vonbrigðum, og munu þó fleiri á eftir fara. Áður en fimm ár eru liðin frá stofnun þessa nýja Asíuríkis, hafa vonir okkar og Filippseyinga brugðizt og það komið í ljós, sem hvorki þeir né við getum við unað. Óstjórn, spilling og vankunnátta til að koma á nauðsynlegum umbótum hafa gereytt öllu trausti á stjórn landsins og leitt til hruns í stjórnarfari og viðskiptalífi. Þjóðfélagið á Filippseyjum er að fara úr böndunum, að líkindum fremur en í nokkru öðru landi í Austur-Asíu. Innanlandsástandið og horfur á þessum eyjum gera þá hugsun óraunhæfa, að Filippseyjar geti verið örugg herstöð fyrir Bandaríkin og bandamenn þeirra á þessum tímum.“ — Og þetta tímarit utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna heldur áfram: „Hvenær sem skæruliðum uppreisnarmanna á Filippseyjum þóknast, þá geta þeir einangrað stærsta ameríska flugvöllinn við Clark Field, og margar aðrar herstöðvar, sem Bandaríkin hafa fengið í hendur á Filippseyjum, væru í jafnmikilli hættu fyrir árásum þeirra.“

Þessi athyglisverða grein ber fyrirsögnina „Filippseyingar. Í hverju yfirsást okkur?“ Höfundurinn svarar þeirri spurningu á þann hátt, að Ameríkumönnum, sem fengu nógar og góðar herstöðvar á Filippseyjum, hafi aðeins yfirsézt í því smáatriði, að þeir gerðu enga tilraun til að koma fram umbátum á þjóðfélagskerfinu á Filippseyjum, og því hafi farið svo sem hann lýsir. Þjóðin er ofurseld stóreignamönnum, 1% þjóðarinnar á allar eignir hennar, og annað er eftir því.

En til dæmis um það, hve ánægðir amerískir hershöfðingjar eru með Filippseyjar, má láta nægja að tilfæra eftirfarandi orð Mac Arthurs fyrir öldungadeild ameríska þingsins í sumar:

„Filippseyingar standa sem voldugur varnarveggur í Austur-Asíu. Geta þeirra til þess að veita þjóðum Asíu siðferðilega forustu er ótakmörkuð.“

Ef einhverjir hv. alþm. vilja kynna sér nánar, hvernig komið er fyrir þjóð, sem Bandaríkjamenn hafa lengi stjórnað, en gert að sjálfstæðu ríki fyrir fáum árum með eigin forseta, stjórn og þingi, þá vil ég ráða þeim að lesa skýrslu Bell-sendinefndarinnar svonefndu, en í þeirri nefnd voru amerískir sérfræðingar, einkum í hagfræðilegum efnum.

Ég get ekki að því gert, þegar ég les um Filippseyjar, að mér kemur stundum í hug önnur þjóð með eigin forseta og formlegt sjálfstæði, þjóð, sem einnig hefur farið að ráðum amerískra sérfræðinga, hefur notið amerískrar fjárhagsaðstoðar og hefur líka amerískar herstöðvar í landi sínu.

Nokkru eftir lok síðasta stríðs slepptu Bretar stjórnartaumunum við helztu nýlendur sínar í Asíu, Indland (nú Indland og Pakistan), Ceylon og Burma. Það er vafalaust stærsta afrek Verkamannaflokksstjórnarinnar í Englandi, og þótt hún hefði ekkert annað gert, yrði hennar lengi minnzt fyrir það. Síðar urðu Hollendingar neyddir til að sleppa Indónesíu. Engum blandast hugur um, að þessar þjóðir ættu nú í stríði við þessar fyrrverandi nýlenduþjóðir, ef þær hefðu haldið stjórn þar áfram til þess að tryggja sér herstöðvar.

Árið 1946 gerði Frakklandsstjórn samning við mótspyrnuhreyfingu þjóðernissinna í Indókína, sem höfðu barizt af mikilli hreysti gegn Japönum öll stríðsárin, um sjálfstæði Indókína innan frönsku ríkisheildarinnar. Það má deila um margt í alþjóðamálum, en um það verður ekki deilt, að þessi samningur var rofinn af Frökkum. Hitt er ekki eins víst, að hvers undirlagi hann var rofinn, en það er fyrir löngu opinbert, að Bandaríkin leggja Frökkum til stórfé og vopnabirgðir í því stríði, sem síðan hefur geisað í Indókína. Frakkar sjálfir hafa nú eytt yfir 2000 millj. dollara (600 þús. millj. franskra franka) í stríðið í Indókína, en það er hærri upphæð en franska þjóðin hefur enn varið samanlagt til uppbyggingar í sínu eigin landi eftir eyðileggingu síðasta stríðs. 25 þús. Frakkar hafa fallið og margfalt fleiri hafa særzt og horfið í þessu stríði. 300 þús. franskir þegnar berjast þarna enn í dag. Meginhluti frönsku þjóðarinnar er á móti þessu stríði, en landið er þýðingarmikil herstöð, og amerískir hershöfðingjar telja það í flokki með Formósu, Filippseyjum, Japan og Kóreu og Tyrklandi og Grikklandi.

Douglas hæstaréttardómari Bandaríkjanna sagði í þeirri grein, sem ég vitnaði til í upphafi máls míns, að herstöðvastefnan hefði leitt öryggisleysi yfir borgara Bandaríkjanna. Hann rakti þetta öryggisleysi til þeirra áhrifa, sem þessi stefna hefði haft á þjóðir Asíu, sem hann er nákunnugur. Í stað þess að hindra framgang kommúnismans, væri hún að leiða til þess að gera alla Asíu kommúnistíska. Það eru fleiri en hann á þeirri sömu skoðun, að þessi stefna hafi haft þveröfug áhrif við það, sem til var ætlazt. Í riti þeirra þriggja ráðherra Verkamannaflokksstjórnarinnar brezku, sem sögðu af sér í sumar, er því haldið fram, að uppreisn Asíuþjóðanna nú á 20. öldinni sé jafneðlileg og uppreisn Englendinga gegn Karli I. á 17. öldinni, uppreisn Frakka í frönsku byltingunni gegn Loðvík XVI. og uppreisn Ameríkumanna sjálfra gegn yfirráðum og kúgun Breta á 18. öldinni.

Þessir uppreisnarmenn brezku Verkamannaflokksstjórnarinnar vilja verja a. m. k. hluta af þeim ofboðslegu upphæðum, sem varið er til herliðs og vopnaframleiðslu, til þess að lina neyðina og koma á umbótum í Asíu og vilja fá Rússa til samvinnu um það.

En amerísku hershöfðingjarnir kunna eitt ráð og aðeins eitt til að hindra framgang kommúnismans í heiminum. Gegn þeirri heimspekilegu og pólitísku kenningu og pólitísku hreyfingu vilja þeir tefla flugvöllum, flugvélum og atómsprengjum, herskipum og fallbyssum. Þeir hafa gert bandalag við afturhaldsöflin í hverju landinu á fætur öðru til þess að fá stöðvar fyrir þessi baráttutæki sín gegn kommúnismanum. Næst vilja þeir fá Spán í Atlantshafsbandalagið, og nú er það ráðið að vopna Japani og Þjóðverja á ný. Þýzku og japönsku hershöfðingjarnir og allir nýnazistarnir og fasistarnir í þeim löndum bíða óþolinmóðir eftir því, að stórkostlegum þýzkum og japönskum herjum verði komið upp á ný.

Stríðið 1914–18 var háð til þess að tryggja lýðræðið í heiminum. Stríðið 1939–45 var háð til þess að gera út af við fasisma og nazisma. Nú er þeim, sem fyrir aðeins 6 árum komu heim úr stríðinu gegn nazistum og fasistum, sagt, að næsta stríð fyrir framtíð lýðræðisins verði ekki unnið nema með hjálp þýzkra nazista og japanskra og spánskra fasista.

Í dag er Alþingi Íslendinga spurt, hvort það vilji taka Tyrki og Grikki í bandalag frjálsra lýðræðisþjóða við Norður-Atlantshaf. Næst verður spurt, hvort við viljum ekki viðurkenna spönsku fasistana og þýzku nazistana sem hermenn lýðræðisins. Ég veit, að það er sagt, að þetta sé nauðsynlegt vegna hins ægilega herveldis Rússa, sem vofi yfir Evrópuþjóðunum og öllum frjálsum þjóðum tilbúið til árásar.

Hér á Íslandi hefur verið vandlega þagað yfir því, að í Ameríku sjálfri og öllum löndum Evrópu hefur verið uppi sterk hreyfing gegn hinni trylltu herstöðva- og hervæðingarstefnu Bandaríkjanna, þ. e. a. s. þeim hluta þessarar hreyfingar, sem er fyrir utan alla kommúnistaflokka og á ekkert skylt við kommúnisma. Hér hefur verið reynt að breiða yfir það, að sú uppreisn, sem varð í brezka Verkamannaflokknum í sumar undir forustu þriggja áhrifamikilla ráðherra, Bevans, Wilsons og Freemans, var fyrst og fremst uppreisn gegn þessari stefnu. Það sýndi sig fyrir kosningarnar, á flokksþingi Verkamannaflokksins og í kosningunum, að þessi armur Verkamannaflokksins átti stórkostlegu fylgi að fagna meðal brezku þjóðarinnar. Þessir ráðherrar sögðu af sér í mótmælaskyni gegn hinum fyrirhugaða, ofsalega vígbúnaði í Bretlandi og öðrum löndum Vestur-Evrópu. Þeir leyfðu sér að ráðast gegn kenningunni um yfirvofandi árás Rússa. Þeir bentu á það, að ein af stofnunum Sameinuðu þjóðanna, efnahagsnefndin, hefði í skýrslum sínum sýnt fram á, að Rússar verðu aðeins 13% af þjóðartekjum sínum til herbúnaðar, og næmi það aðeins 2500 millj. £, en Bandaríkin og Bretar hefðu, áður en sjálft heljarstökkið var tekið út í vígbúnaðinn í ár — og áframhaldið er fyrirhugað um það bil tvöfalt við það næsta ár, 1952, varið 10% af þjóðartekjum hvorrar þjóðar um sig í sama skyni, eða samtals 9000 millj. £ eða nærri fjórfalt meira fé en Rússar. Þeir leyfðu sér að efast um, að Rússar hefðu á fáum árum bæði náð sér svo vel eftir blóðtöku og eyðileggingu síðasta stríðs og komið sér upp svo voldugum her, að hann yfirgnæfði að hernaðarmætti alla heri Bandaríkjanna og bandamanna þeirra með atómsprengjum og öllu saman. Þeir Bevan og félagar hans, sem eru engir vinir Sovét-Rússlands, leyfðu sér að halda því fram, að Rússar vissu það vel, að þeir hefðu ekki með öllum sínum mannafla framleiðslugetu og hernaðarmátt til þess að heyja stríð við Bandaríkin, og þess vegna mundu Rússar ekki hyggja á neitt árásarstríð. Þeir vitnuðu þessu til sönnunar í orð Eisenhowers hershöfðingja, sem sagði samkv. frásögn Times 14. ágúst í sumar:

„Hinir efnalegu, andlegu, tæknilegu og herfræðilegu kraftar, sem hinn frjálsi heimur hefur á að skipa, eru svo yfirgnæfandi í sambandi við það, sem löndin handan við járntjaldið og bandamenn þeirra hafa, að það er næstum því hlægilegt af okkur að vera að tala um þessi mál með hræðslu og móðursýki, eins og við gerum oft.“

Það hefur enn fremur verið vitnað í orð annars frægasta hershöfðingja Bandaríkjanna, Mac Arthurs, í yfirheyrslunum yfir honum frammi fyrir þingnefnd Bandaríkjaþings í sumar. Hann lýsti þar yfir því, að um herveldi Rússa hefði verið stórýkt, að flestar ráðstafanir Rússa hefðu verið varúðarráðstafanir og að kafbátafloti Rússa væri ætlaður fyrst og fremst til varnar við þeirra eigin strandlengju. Hann kvaðst ekki álíta, að hættan fyrir Bandaríkin stafaði af heimsveldisstefnu Rússa eða vopnaðri árás þeirra. Hættan væri kommúnisminn um allan heim og Rússland væri ekki nema einn hluti hans.

Þetta segja tveir æðstu hershöfðingjar Bandaríkjanna. Samt er talið nauðsynlegt að verja 68 þús. millj. dollara á næsta ári til hervæðingar í Bandaríkjunum einum og knýja þjóðirnar í Vestur-Evrópu til vígbúnaðar, sem hlýtur að leiða til stórkostlegrar verðbólgu og stórum versnandi lífskjara þjóðanna.

Hvað á að gera við öll þessi vopn? Þó að menn vilji ekki trúa því, að Truman forseti vilji stríð, þá verður mörgum að spyrja: Hverju má búast við af hershöfðingjunum, sem ráða utanríkisstefnu Bandaríkjanna, þegar þeir hafa fengið öll þessi vopn í hendur? Vinstri armur brezka Verkamannaflokksins, sem menn eiga áreiðanlega eftir að heyra meira frá, og frjálslyndir menn og flokkar í öðrum löndum Atlantshafsbandalagsins hafa nú lýst yfir fullri andúð sinni og uppreisn gegn þessari stefnu. Það eru nú fleiri þingmenn á þingum Vestur-Evrópuríkjanna, sem greiða atkvæði gegn inntöku Grikkja og Tyrkja í Atlantshafsbandalagið, en greiddu atkvæði gegn þátttöku landa sinna í því á sínum tíma.

Ég veit, að hér á landi er frjálslyndum og frjálst hugsandi mönnum gert sem erfiðast fyrir að fylgjast með því, sem hugsað er og ritað um þessi mál í öðrum löndum. Hér halda menn, að það séu engir úti um heim á móti herstöðvum og hernaðaræðinu aðrir en kommúnistar. Hér heyrast varla aðrar raddir en hinar „hlægilegu“ raddir „hræðslu og móðursýki“, svo að notuð séu orð Eisenhowers hershöfðingja. Hræðslan og móðursýkin hafa þegar orðið okkur dýr. Í engu landi Atlantshafsbandalagsins er það fjarstæðara en hér að gera hernaðarbandalag við Tyrki. Hér er það beinlínis hlægilegt. Menn geta vitanlega lokað augunum fyrir þeirri hlið málsins, en fáir held ég að þeir séu, sem trúa því í alvöru, að öryggi okkar hér úti á Íslandi verði meira, eftir að Tyrkland verður tekið í tölu Norður-Atlantshafsríkja en áður. En hitt getur verið, að þeir verði nógu margir, sem segja eins og í sálminum stendur: „Því skilið getur enginn í, en oss er skylt að trúa því.“ Það verða þá þægðin og hlýðnin, sem sýna sig í atkvæðagreiðslunni um þetta mál.