24.10.1951
Sameinað þing: 6. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í D-deild Alþingistíðinda. (3105)

31. mál, rannsókn á slysum á togurum og öðrum veiðiskipum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Till. á þskj. 33 hefur, eins og þar er tekið fram, verið borin hér fram áður, en ekki fengið afgreiðslu á Alþingi. Áður en till. fer í n., vildi ég segja nokkur orð um málið og einnig leiðrétta ýmislegt, sem kom fram í framsöguræðu hv. flm. Einnig vil ég leyfa mér að benda á, að till. getur tæplega orðið samþ. eins og hún er orðuð: „að láta fara fram réttarrannsókn á slysum þeim, sem orðið hafa á íslenzkum togurum frá ársbyrjun 1948 til þessa dags,“ vegna þess að það hefur farið fram réttarrannsókn á öllum þessum slysum.

Hv. flm. minntist einkum á eitt slys, slysið, sem varð í sambandi við togarann Vörð. Fór hann þar mjög ranglega með málið. Vegna þess að ég hygg, að þessi þáltill. sé sérstaklega borin hér fram út af þessu máli, þykir mér rétt að leiðrétta ýmislegt af því, sem hann sagði um þennan atburð. Hann sagði, að till. væri borin fram til þess að koma í veg fyrir alls konar kæruleysi í þessum málum og einnig til þess að ýta við því sinnuleysi og skilningsleysi, sem ríkir hjá þeim mönnum, sem með þessi mál fara. Síðan sagði hann, að grein Gísla Jónssonar í Morgunblaðinu hafi verið skrifuð til þess að afsaka framferði skipstjórans á Verði. Vil ég benda á, að í gildandi lögum eru ákvæði, sem mæla svo fyrir, að rannsökuð séu öll slys, sem fram koma á sjó. Samkvæmt þessum gildandi lögum hygg ég að hvert einasta slys sé rannsakað af þeim dómi, sem til þess er kvaddur, þ. e. sjóréttinum á Íslandi. Það, sem skeði í þessu máli hér, var það, að ég fór og hitti þá skipverja, sem komust af á Verði, og tók af þeim sjóferðarskýrslu, eins og lög mæltu fyrir. Skipstjóri var þá of veikur til þess að geta sjálfur gefið skýrslu fyrir rétti. Þessi sjóferðarskýrsla er tekin í áheyrn allra skipverja, sem af komust. Var ekki farið með neitt með leynd. Var hún gefin af þeim yfirmönnum, sem undirrituðu skýrsluna, eins og þeir sannast vissu. Ég hef ekki skrifað annað í Morgunblaðið en skýrsluna eins og hún var. Þessi skýrsla var svo staðfest í sjórétti Reykjavíkur. Ummæli hv. þm. um, að ég hafi skrifað grein í Morgunblaðið til þess að verja skipstjórann, eru því röng — og líklega því miður vísvitandi röng.

Ég skal benda á, að haldnar voru fleiri réttarrannsóknir yfir skipstjóranum á þessu skipi heldur en flestum öðrum skipstjórum. Það er eðlilegt vegna þess, hve þetta slys var víðtækt. Viðstaddir voru fulltrúar skipaskoðunarstjóra, umboðsmenn ríkisvaldsins og vátryggingarfélaga og frá öðrum slíkum stofnunum, sem áttu hagsmuna að gæta við þessa rannsókn. Síðan voru skjölin send til skipaskoðunarstjóra til athugunar, eins og lög mæla fyrir um. En lög frá 1947, sem ég hygg, að hv. flm. hafi verið með í að samþ., segja svo í 49. gr., með leyfi forseta:

„Hlutverk siglingadóms er:“ — en hann var settur til að dæma alveg sérstaklega um þessi mál til öryggis.

„1. Að annast yfirskoðunargerðir samkvæmt lögum þessum og kveðja yfirskoðunarmenn.

2. Að skera úr um gildi farbanns.

3. Að dæma og eftir atvikum rannsaka refsimál, sem höfðuð eru að tilhlutan skipaskoðunarstjóra út af sjóslysum eða brotum á lögum þessum.“

Ég viðurkenni, að þessari grein, sem ég hygg að sé samþ. af hv. flm. þessarar þáltill., sem hér liggur fyrir, væri mjög æskilegt að væri breytt í lögum, þannig að þessi ábyrgð og þetta vald hvíli ekki á skipaskoðunarstjóra, heldur væri falið formanni sjóréttar, sem er lögfræðingur undir öllum kringumstæðum. Ég hef átt tal um þetta við dómsmálaráðuneytið mörgum sinnum, að mér þætti eðlilegt, að þessari grein laganna væri breytt, til þess að þetta hvíldi ekki á skipaskoðunarstjóra, sem er ólögfróður maður. Það er ekki útilokað að höfða mál í slíkum tilfellum, þótt skipaskoðunarstjóri leggi það ekki til. Hann lagði það ekki til, heldur að haldið væri áfram rannsókn þessa máls og að fleiri menn væru kallaðir fyrir rétt til þess að fá heildaryfirlit. Þetta var gert. En vegna þess, að þessir menn voru víðs vegar um landið, hefur farið meiri tími í rannsókn málsins en orðið hefði, ef allt hefði verið gert á fyrstu stundu. Rannsókn þessa máls var frestað að dómi sjóréttarins hér í Reykjavík og skjöl send til skipaskoðunarstjóra, en í þeim dómi er forsetinn lögfræðingur. Var málið síðan sent áfram til sýslumanns Barðastrandarsýslu, sem hélt rannsókninni áfram, síðan til Akraness til lögreglustjórans þar. Málið hefur því verið allan tímann í réttarrannsókn. Finnst mér því einkennilegt atferli að ætla að fara að fyrirskipa nú réttarrannsókn í þessu máli og öðrum, sem hafa verið í rannsókn. Ég get enn fremur upplýst í sambandi við þetta mál, að það hefur annaðhvort nú þegar verið flutt fyrir rétti, vegna þess að ákveðið var, að höfða skyldi mál, eða það er í þann veginn verið að flytja það fyrir rétti hér í Reykjavík. Er væntanlegt, að dómur falli fyrir lok þessa mánaðar. — Það er önnur ástæða fyrir því, að málið hefur dregizt um of, og hún er sú, að lögin um siglingar., þ. e. farmannalögin, kveða svo á í 279. gr., með leyfi forseta, að öll slík mál „skuli lögð fyrir atvinnu- og samgöngumálaráðuneytið til umsagnar, áður en málshöfðun er ákveðin.“ Þetta er gamalt og úrelt ákvæði, sem ekki gerir annað en torvelda dómsniðurstöður í málunum. Það væri mjög æskilegt, að þessari grein yrði breytt. Það er að sjálfsögðu opin leið fyrir hv. flm. að athuga þessi lög og gera till. um breytingu á öllum þeim ákvæðum laganna, sem torvelda eða tefja rannsókn slíkra mála, það væri miklu eðlilegra en að bera fram slíka till. og hér er, — eða breyta till. og láta hana koma á rannsókn á öllum lögum um þessi mál og gera þau einfaldari, svo að þau flýti meir fyrir rannsókn og dómsniðurstöðum í þessum málum. Ég vil enn fremur í sambandi við málið út af slysinu á Verði og þær ádeilur, sem hafa komið á sjálfan skipstjórann, leyfa mér að benda á í sambandi við þessar umr. hér og að gefnu tilefni frá flm., að farmannalögin ákveða stórkostleg viðurlög fyrir skipstjóra, ef hann yfirgefur sitt skip, áður en útséð er um, hvort hann geti bjargað því eða ekki. — Vil ég ekki, að þetta sé tekið sem nein vörn fyrir skipstjórann, nema síður sé, því að honum hefur verið skipaður verjandi í málinu. — Hann hefur því þær skyldur gagnvart skipverjum og vátryggjendum og það látið í hans vald að úrskurða, hvenær hann telur, að það augnablik sé komið, að hann geti yfirgefið skipið með sinni skipshöfn og hætt björgunartilraunum. En skipstjóri heldur ekki aðeins skipverjum um borð, heldur einnig sjálfum sér og líður þannig það sama vegna slyssins: Fer í sjóinn eins og þeir, slasast og liggur vikum saman eins og þeir. — Þetta hefði hann ekki gert nema hann hafi verið í þeirri sælu trú, að hér væri ekki eins mikil hætta á ferð og raun bar vitni. Þetta þykir mér rétt að láta koma fram.

Hv. flm. sagði, að allar íbúðir skipverja hafi verið aftur í, en tveir menn hafi drukknað frammi í. Hann spyr, af hverju þetta hafi skeð. Ég vil upplýsa þetta mál, og hv. flm. hefði getað fengið þær upplýsingar, ef hann hefði viljað kynna sér opinber gögn, sem liggja fyrir í málinu. Það er vitað, að enginn skipverja bjó frammi í, þegar skipið fór frá Hafnarfirði. Það er einmitt þess vegna, sem slysið vill til, að það er ekki athugað nægilega snemma, að leki er kominn að skipinu. Það er fyrst um kl. 4 um nótt, að sá maður, sem var á verði, verður var við, að skipið fer einkennilega í sjó. Það er ekki fyrr en bjart er orðið af degi, að það sést, að skipið er orðið hálffullt af sjó. Ef skipverjar hefðu búið frammi í skipinu, hefði lekinn sézt fyrr, en það var meira öryggi fyrir skipshöfnina að búa ekki frammi í. Þegar austurinn aftur á bar ekki árangur, voru menn sendir fram á til þess að reyna að dæla og þurrka skipið. Því næst var horfið til máltíða, því að engum datt annað í hug en að það væri óhætt, en þá sekkur skipið svo skyndilega, að tveir menn, sem staðið höfðu í austrinum fram á, gátu ekki bjargað sér. Þetta verður ekki skýrt á annan hátt en þann, að vatnsþétt skilrúm frammi í, sem á að þola allan þunga af sjó, hafi brostið. Fyrir þetta verður skipstjórinn ekki ásakaður.

Hv. flm. sagði, að óhæfilegur dráttur hefði orðið á því að víkja málinu til dóms. Ég hef áður skýrt frá því, hvernig á þessum drætti stóð, en eitt er það, sem ég hef ekki tekið fram, að skipaður verjandi skipstjórans var ekki hér á landi, svo að það dróst nokkurn tíma, þangað til hann kom heim og gat tekið við málinu. Meginorsökin til þess, að rannsóknin hefur dregizt, er hins vegar sú, að löggjöfin um þessi mál er of þung í vöfum — og tel ég að henni þurfi sumpart að breyta og að áframhaldandi og ýtarleg rannsókn þótti nauðsynleg.

Svo sagði hv. flm., að togarinn Bjarni Ólafsson hefði komið að skipinu kl. 2.30, en skipstjórinn á Verði hefði þrjózkazt við og ekkert aðhafzt til þess að bjarga skipshöfninni. Ég veit ekki, hvaða heimildir hv. flm. hefur fyrir þessari fullyrðingu. Hvaðan hefur hann þær upplýsingar, að skipstjórinn hafi þrjózkazt við að bjarga mönnunum? Kom fram nokkur rödd frá skipverjum um það, að þeir væru fluttir yfir í Bjarna Ólafsson? Ég hef fylgzt með réttarskjölunum í málinu, og það verður ekki séð í neinu þeirra, að slíkar óskir hafi komið fram. Þeir töldu það skyldu sína að bjarga skipinu og voru öruggari vegna þess, að annað skip var í nánd. Þetta eru því ómakleg og rakalaus ummæli hjá hv. flm., sem ég vil leyfa mér að mótmæla. Og þetta vill hann taka sem almennan vitnisburð um kæruleysi í þessum efnum og nægilega ástæðu til þess, að löggjöfinni sé breytt. En þessi ummæli eru hreinn uppspuni hv. flm. eða einhverra verri manna og geta því ekki verið nein röksemd fyrir því, að löggjöfinni verði breytt. Eins er það með öllu tilhæfulaust að taka þetta mál sem dæmi um sinnuleysi stjórnarvaldanna í þessum efnum, en það gerði hv. flm. einnig.

Þetta hef ég talið rétt að kæmi fram í sambandi við þetta mál.

Ég vil svo að síðustu segja það, að ég álít, að Alþ. eigi að taka þessa þáltill. til athugunar, en ekki að svæfa hana, og ég álit það rangt, að svo hefur verið gert undanfarin ár. En ég álít, að breyta eigi till. í þá átt, að skorað sé á hæstv. ríkisstj. að láta fara fram rannsókn á slysum og athugun á löggjöfinni um slys, bæði á sjó og landi, og gera till. um breyt., er stefni að því að fyrirbyggja, að menn farist af slysförum. Hitt er ekki rétt, að nota þessi mál sem árásarefni á vissa aðila, og það er sérstaklega rangt að tala um það, að réttarrannsókn skuli fara fram, því að hún hefur þegar farið fram. Hitt er svo annað mál, að rétt væri, að sjódómur ákvæði, hvaða mál bæri að rannsaka, en ekki ófróðir aðilar.

Ég vil einnig benda á það, að sá dráttur, sem orðið hefur á málinu, fyrirbyggir ekki það, að einstakir aðilar höfði mál út af þessu slysi, og mér er kunnugt um, að sumir hafa ákveðið að gera það.

Það þarf að fyrirbyggja slys, bæði á sjó og landi, og það væri full ástæða til að ræða þessi mál frekar, m. a. í sambandi við frv. það, sem liggur fyrir um slysavarnir á landi. Ég ætla þó ekki að ræða það nú, þó að það væri freistandi, enda gefst væntanlega tækifæri til þess síðar.

Ég vil svo að lokum endurtaka ummæli mín um það, að þáltill. verði breytt á þann veg, að skorað verði á ríkisstj. að láta fara fram rannsókn á slysum yfirleitt og að endurskoða lögin, svo að komizt verði hjá óþarfa töfum, t. d. eins og að senda málin til samgmrh., sem ekki er réttur aðili í þessum efnum og bara tefur málin.