10.10.1951
Neðri deild: 8. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í B-deild Alþingistíðinda. (32)

40. mál, lántaka vegna áburðarverksmiðjunnar

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það hefur verið gerð grein fyrir þessu frv. með skýrslu í sambandi við 1. umr. fjárl. og þeim orðum, sem ég hafði fyrir næsta máli á undan á dagskránni. Þó vil ég geta þess, að lántökuheimildin fyrir áburðarverksmiðjuna er í áburðarverksmiðjulögunum mjög almennt orðuð, fjárhæðir ótilteknar. Segir þar, að stj. sé heimilt að taka þau lán, sem þarf til verksmiðjunnar. Er því þetta frv. innan þess ramma, sem áður var sniðinn. En þetta þarf að vera í sérstökum lögum.

Nú stendur eins á um þetta mál og málið á undan (lántökuheimild til landbúnaðarins), að þessi lánssamningur er í smíðum. Er búið að ganga að nokkru frá honum, en þó liggur ekki eins mikið á að afgr. þetta mál eins og hitt, enda hefur komið fram ósk frá einum hv. þm., sem ég átti tal við, um það, að málið færi til n. Þess vegna geri ég að till. minni, að það fari til fjhn. En ég vonast eftir, að n. vildi gera þann greiða að afgr. málið þannig, að það gæti komið til umr. á morgun.