16.01.1952
Sameinað þing: 33. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í D-deild Alþingistíðinda. (3264)

173. mál, ríkisaðstoð vegna atvinnuörðugleika

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Út af því, sem hv. þm. Siglf. sagði hér áðan, skal ég aðeins taka fram, að ég mun á engan hátt verða til þess að spilla fyrir því, að Siglufjörður fái bætt úr sínu báglega atvinnuástandi. En þar sem till. hæstv. ríkisstj. kemur fram rétt undir þinglokin, átti ég ekki kost á að taka málið upp sem sérstakt mál, ef því átti að verða framgangs auðið, og verð því að flytja það sem brtt. við þessa fram komnu till. og vona, að ríkisstj. hafi svo góðan vilja til að leysa vandamál Ísafjarðarkaupstaðar og hafi svo opin augun fyrir því, að mál Ísafjarðarkaupstaðar stendur með sama hætti, að hún geti á það fallizt, að málið verði leyst í heild fyrir báða kaupstaðina, því að það stendur eins á að því er báða þessa bæi snertir. Og það er áreiðanlega af ókunnugleika sprottið, þegar þessi hv. þm. segir, að sá munur sé á þessu, að sendinefnd hafi túlkað mál Siglufjarðar fyrir ríkisstj. á s. l. hausti, en ekki sé slíku máli að gegna um Ísafjarðarkaupstað. Það er víst og satt, að send var til þess opinbera sendinefnd frá bæjarstjórn Ísafjarðarkaupstaðar á s. l. hausti til þess að túlka fiskiðjuversmálið við ríkisstj. Þessi sendinefnd gekk á fund atvmrh. og því næst á fund fjmrh. og í þriðja lagi á fund forsrh., og síðan afhenti þessi sendinefnd bæjarstjórnar Ísafjarðarkaupstaðar hæstv. atvmrh. skriflega grg. um málið í heild, og hafði atvmrh. góð orð um að beita sér fyrir lausn málsins í einhverri mynd. Þetta erindi liggur því skjallega í fórum hæstv. ríkisstj., og öllum ráðh. hlýtur að vera málið mjög vel kunnugt og hver nauðsyn talin er á því af stjórn bæjarins, að fiskiðjuversmálið komist í það horf, að togararnir nýtist sem atvinnutæki fyrir bæjarbúið. Það hafa verið lagðar milljónafúlgur í að byggja hafnarbakka úr stáli og stóra uppfyllingu á bak við hann, útvegaðir hafa verið togarar til kaupstaðarins, og verð ég þá að segja, að nauðsynlegt er að byggja fiskiðjuver í bænum, þannig að fólkið fái atvinnu við þau atvinnutæki, sem útveguð hafa verið.

Ég vil svo vænta þess, að þetta mál verði rætt af fullri sanngirni, og tel ég ekki koma til mála, að hlutur Siglufjarðarkaupstaðar verði verri, þó að hliðstætt málefni Ísafjarðarkaupstaðar, sprottið af jafnrétthárri nauðsyn, sé tengt málinu og lausnin færð fram í einu lagi fyrir báða bæina. Ef ég að minnsta kosti sé fram á, að málefni Siglufjarðar verði verr borgið fyrir þetta, mun ég baka afstöðu til þess viðhorfs á sínum tíma, því að það vakir ekki fyrir mér að spilla fyrir öðru bæjarfélagi, sem er jafnilla ástatt fyrir.