24.01.1952
Sameinað þing: 37. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1436 í B-deild Alþingistíðinda. (3707)

Þinglausnir

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Eins og þingheimi er kunnugt, er forseti Íslands, herra Sveinn Björnsson, nú að ná sér eftir uppskurð. Hann getur því miður ekki slitið Alþingi sjálfur að þessu sinni, en hefur veitt mér sem forsætisráðherra umboð til þess í bréfi, er hann gaf út í Reykjavík í gær. Jafnframt fól forseti mér að bera yður, háttvirtir alþingismenn, kveðju sína og árnaðaróskir.

Fyrr greint forsetabréf um þinglausnir hljóðar þannig:

„Forseti Íslands gerir kunnugt:

Að ég veiti hér með forsætisráðherra, Steingrími Steinþórssyni, umboð til þess að slíta Alþingi, 71. löggjafarþingi, er það hefur lokið störfum.

Gert í Reykjavík, 23. janúar 1952.

Sveinn Björnsson.

Steingrímur Steinþórsson.“

Störfum Alþingis er lokið að sinni. Samkvæmt umboði því, er ég hef lesið, segi ég Alþingi slitið.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast forseta Íslands og fósturjarðarinnar með því að rísa úr sætum.

Þingheimur stóð upp, og forsætisráðherra mælti: „Heill forseta vorum og fósturjörð.“ Tók þingheimur undir þau orð með ferföldu húrrahrópi.

Var síðan af þingi gengið.