17.01.1952
Efri deild: 60. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 703 í B-deild Alþingistíðinda. (918)

166. mál, samkomulag reglulegs Alþingis 1952

Frsm. minni hl. (Finnbogi R. Valdimarsson):

Herra forseti. Í grg. ríkisstj. fyrir þessu frv. segir á þá leið, að það virðist ekki ástæða til þinghalds á ný eftir 15. febr. n.k., og get og einnig sagt það, að það mætti virðast svo, að það væri ekki, ef sá tími, sem eftir er af þessu þingi, sem nú stendur, væri vel notaður. Þetta þing hefur nú staðið í nærri 4 mánuði, og það er undir flestum kringumstæðum nægur tími til þinghalds, og það, að ég hef ekki að svo stöddu viljað greiða atkv. með þessu frv., sem þó er ekkert nýmæli, stafar ekki af því, að ég telji, að sú skipun að fresta samkomudegi reglulegs Alþ. til hausts sé óhagkvæm, heldur er það af sérstökum aðstæðum, sem ég tel að nú hafi skapazt þessar síðustu vikur, sem þingið hefur setið, að ég treysti mér ekki til að greiða atkv. með frv. að svo stöddu.

Það hefur komið í ljós á þessum síðustu mánuðum, einkum í þessum mánuði, að skapazt hefur alveg sérstakt ástand í atvinnulífi þjóðarinnar, sem menn hafa ekki gert sér ljóst að væri að verða svo alvarlegt sem nú er orðið. Það er upplýst óvefengjanlega, að nú sé slíkt atvinnuleysi orðið hér í Reykjavík, að af félagsbundnum verkamönnum séu 1500 atvinnulausir, og þó er vitað, að miklu fleiri þeirra eru atvinnulausir hér en þetta. Í umr. hér á Alþ. í gær komst einn þm. Reykjavíkur svo að orði, að það mundi láta nærri, að 3000 manns væru atvinnulausir. Það er einnig kunnugt, að þetta er ekki bundið við Reykjavík eina. Það er svo í nærri öllum kaupstöðum og kauptúnum, að um verulegt atvinnuleysi er að ræða. Ég veit, að fram að þessu hefur verið talið af ríkisstj., að atvinnuleysið væri annaðhvort staðbundið eða tímabundið við árstíðir, en væri ekki um alvarlegt krónískt atvinnuleysi að ræða. En eftir þ ær upplýsingar, sem nú hafa komið fram um afvinnuleysið í landinu í þessum mánuði, þá verður að minni hyggju ekki um það deilt, að það sé þegar komið á alvarlegt, almennt og stórkostlegt atvinnuleysi. Það er að vísu rétt, að atvinnulíf þjóðarinnar er yfirleitt mjög bundið við árstíðir, og um þetta leyti árs fellur niður ýmis vinna af eðlilegum ástæðum, og það er ekki alltaf í mínum augum um alvarlegt ástand að ræða, þótt ekki hafi allar hendur vinnu rétt í svartasta skammdeginu. En síðustu árin hefur þetta atvinnuleysistímabil um þetta leyti árs verið að lengjast, vegna þess að atvinnuvegirnir vegna vertíðarinnar hafa ekki komizt í gang, og það hefur verið með hverju ári þungbærara fyrir verkalýðinn að búa við þetta atvinnuleysistímabil, vegna þess að árstekjur verkamanna hafa farið lækkandi og þó sérstaklega að kaupmáttur launanna hefur stórkostlega rýrnað. En þegar komið er í þjóðfélaginu krónískt atvinnuleysi, þá er það ekki bundið við stað eða árstíð, og það er alveg ljóst, að það er svo komið nú, að hér er komið á stórfellt krónískt atvinnuleysi og slíkt ástand er hið alvarlegasta verkefni, sem þing og stjórn getur fengið til meðferðar. Ég efast um, að hæstv. ríkisstj. hafi gert sér ljóst nú undanfarið, að hverju stefnir, en að mínu áliti er það atvinnuleysi, sem nú er komið á, aðeins byrjun á enn alvarlegra ástandi. Það er byggt á reynslu, að stórfellt atvinnuleysi verður að enn meira atvinnuleysi, ef það er komið á. Þess vegna er það, að ef ráðamenn þjóðfélagsins telja það höfuðverkefni sitt að koma í veg fyrir slíkt ástand, þá riður á, að gerðar séu ráðstafanir strax, áður en kemur að því að slíkt atvinnuleysi verður almennt, festist sem þjóðfélagslegt fyrirbrigði.

Hæstv. ríkisstj. lýsti því yfir, þegar hún settist að völdum, að það væri eitt aðalstefnuskrármál hennar að koma í veg fyrir atvinnuleysi, og þetta hafa ríkisstjórnir yfirleitt gert, þegar þær hafa setzt að völdum nú síðustu 15 árin. Við höfum ekki búið við króniskt atvinnuleysi að segja má um 20 ára skeið, en það atvinnuleysi, sem við þekktum þá, var svo alvarlegt fyrir þjóðfélagið, að allir, sem fengizt hafa við stjórnmál, hafa gert sér það ljóst og heitið því að koma í veg fyrir slíkt ástand, ef þeir kæmust til valda. Það atvinnuleysi stafaði af utanaðkomandi orsökum að nokkru leyti. Við höfðum einhæfa framleiðslu og einhæfa markaði, og markaðir okkar fyrir saltfisk brugðust, vegna þess að kaupgeta almennings í markaðslöndunum minnkaði, og þá gerðum við okkur ljóst, að ef við ættum að koma í veg fyrir lömun alls þjóðfélagsins vegna þess, að sjávarútvegurinn gæti ekki starfað, þá þyrfti að umskipuleggja sjávarútvegsframleiðsluna sjálfa að miklu leyti, og þetta var gert. Eftir árin 1930–33, þegar þetta alvarlega ástand skapaðist, gerðu menn sér ljóst, að til þess að koma í veg fyrir, að atvinnulíf Íslendinga lamaðist allt til frambúðar, varð að gera viðtækar ráðstafanir. Nú er ekki slíkt ástand, sem veldur því, að atvinnuleysi er nú komið, það er ekki utanaðkomandi kreppa eða markaðsleysi eða að atvinnuvegirnir séu ekki búnir þeim tækjum, sem þeir þurfa, til þess að vera reknir af fullum krafti. Ástæðan til þess atvinnuleysis, sem skapazt hefur, er fyrst og fremst stefnan í fjárhagsmálum, stefna, sem hæstv. ríkisstj. hefur haldið fast við og virðist ekki hafa gert sér ljóst, að hlýtur að leiða til atvinnuleysis. Það er sérstaklega ein atvinnugrein, iðnaðurinn, sem nú er lamaður, svo að samdráttur hans veldur stórkostlegu atvinnuleysi, og formælendur þeirrar atvinnugreinar hafa slegið því föstu, að það sé fyrst og fremst vegna lánsfjárleysis, að sú atvinnugrein geti ekki starfað, þó að aðrar orsakir komi þar einnig til. Hið sama má segja um aðrar atvinnugreinar, að lánsfjárleysið veldur því, að þær geta ekki gengið af fullum krafti. Það er að vísu til ástand bundið við einstaka staði á landinu, sem er annars eðlis, einstakir staðir búa við atvinnuleysi vegna aflaleysis eða vegna þess, að þeir staðir eru ekki búnir atvinnutækjum til að halda fullri atvinnu, og um einn stað er það kunnugt, Siglufjarðarkaupstað, að það ástand hefur verið í nokkur ár vegna síldarleysis. Það hefur hæstv. ríkisstj. gert sér ljóst og hefur síðast í dag sýnt vilja sinn til þess að bæta úr þar, en þær till., sem hún leggur til þar, sýna, að það þarf ráðstafanir, sem taka nokkurn tíma og kosta fé, til þess að koma í veg fyrir, að slíkt staðbundið ástand verði til þess, að neyðarástand skapist á þeim stað.

Atvinnuleysinu í Reykjavík er svo varið, að það þarf ekki að skapa ný atvinnutæki til þess, að atvinna geti verið með eðlilegum hætti, það þarf aðeins að veita iðnaðinum lánsfé, til þess að hann geti starfað, að því er formælendur þeirrar iðngreinar segja. Það má að vísu vera, að það þurfi allvíðtækar ráðstafanir og breytta stefnu til þess að koma í veg fyrir, að það atvinnuleysi, sem orðið er, verði krónískt, og til þess þyrfti ef til vill nokkurn tíma, vegna þess að hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokkunum hefur ekki verið ljóst, að hverju stefnir. En ég tel, að það þyrfti ekki svo langan tíma, að það mætti ekki takast á þeim tíma, sem er fram til 15. febr., að gera slíkar ráðstafanir í samráði við Alþ., ef hæstv. ríkisstj. gerði sér ljóst, hve alvarlegt ástand er um að ræða. En andstaða mín gegn samþykkt þessa frv. kæmi ekki til greina, ef hér yrðu gerðar á Alþ. ráðstafanir, sem viðunandi gætu talizt, gegn þessu alvarlega ástandi á þeim dögum, sem eftir eru af þessu þingi.

Ég held ég þurfi svo ekki að gera frekari grein fyrir minni afstöðu til þessa frv. Það er aðeins þetta, að ég vil gera ljóst, að ég tel, að alvarlegasta viðfangsetni, sem þetta þing geti haft, sé enn óleyst, og það er ekki sæmandi, að þinginu verði slitið og frestað til 1. okt. n.k., án þess að það snúi sér að alvarlegasta verkefninu, sem Alþ. getur haft, þ.e. að sjá þjóðinni fyrir nægri atvinnu.