03.02.1953
Neðri deild: 63. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 962 í B-deild Alþingistíðinda. (1036)

42. mál, verðlag

Jón Pálmason:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls hér í hv. d. flutti ég nokkrar brtt. við frv., sem komu til atkv. við 3. umr., og fór atkvgr. á þann einkennilega hátt, að 1. till., sem var að vísu aðalatriði, var samþ., en hinar 2, sem voru afleiðing af henni, voru báðar felldar.

Nú hefur þetta frv. farið aftur í gegnum hv. Ed. og tekið þar nokkrum breyt., sem eru yfirleitt ekki til bóta að öðru leyti en því, að sú grein, sem var hér 3. gr. og náttúrlega átti að falla niður við samþykkt minnar till., hefur verið felld út, en inn í hina greinina er tekið að því leyti til efni hennar, að það er gert ráð fyrir samkvæmt núverandi 3. gr., að verðgæzlustjóri birti mánaðarlega skýrslur um hæsta og lægsta verð, í stað þess að gert er ráð fyrir því, eins og samþ. var hér í d., að þessar skýrslur yrðu birtar á 3 mánaða fresti, og verð ég að segja, að ég efast ákaflega um, að það sé þægilegt verk fyrir þá menn, sem stjórna verðgæzlunni, að gefa þessar skýrslur út um hver mánaðamót. Þykir mér mjög undarlegt, að á þessa breyt. skuli vera lögð svo mikil áherzla hjá hv. Ed., því að þetta ákvæði var sett inn við fyrri meðferð málsins þar.

Þá er enn fremur haldið fast við þá ákvörðun, sem er mikið atriði og nú er í 2. gr., að birta nöfn þeirra manna, sem verði uppvísir að óhóflegri álagningu. Ég lagði til, að þessu væri breytt í það horf að birta nöfn þeirra manna, sem yrðu uppvísir að óhóflegu útsöluverði, því að ég fyrir mitt leyti lít þannig á, eins og ég tók skýrt fram hér við umr. áður um þetta mál, að aðalatriðið um verzlunarmálin er að halda sig við útsöluverð og það án tillits til þess, hvort álagningin er lægri eða hærri, því að innkaupsverðið er sannarlega ekki minna atriði. Nú þykist ég sjá, að það sé ætlunin, að þetta verði samþ. á þessa leið, og verð ég að segja, að ég öfunda ekki hæstv. viðskmrh. af því að framkvæma þetta ákvæði, því að það getur komið mjög undarlega niður. Það byggist á því, að það getur komið mjög undarlega niður, að frá því fyrsta að þessi verzlunarhöft og verðlagseftirlit var stofnað hefur það verið byggt á því að hanga aftan í álagningarprósentu án þess að sinna því, hvernig innkaupsverðið er, og þess vegna gengið fram hjá því meginatriði, sem snýr auðvitað fyrst og fremst að almenningi, hvað verðið er í útsölu.

Ég skal segja ykkur lítið dæmi, sem mér var sagt hér á fyrstu árum verðlagseftirlitsins. Þá var það svo, að eitt verzlunarfyrirtæki hér flutti inn meginhlutann af allri leirvöru. Þá var þetta flutt austan úr Asíu, og m.a. var það þannig með bollapör, að hlutaðeigandi viðskiptafyrirtæki keypti þau inn á 30 aura. Þá var ákveðið, að heildsöluálagning mætti ekki vera meiri en 15%, eða 41/2 eyrir á hvert bollapar; en þessi heildverzlun seldi bollapörin á 50 aura, og það þótti náttúrlega óhófleg álagning eftir þessari kenningu. Nú var það auðséð, að það var ekki hægt að verzla á þennan hátt, og hætti þess vegna þessi verzlun að verzla með þessa vöru. Þá tóku aðrir menn við og keyptu þetta inn frá allt öðrum löndum, frá Norðurlöndum eða Englandi, og keyptu bollapörin á kr. 1.20. Þeir máttu leggja á 18 aura, og þá var verðið á bollapörunum komið upp í kr. 1.38. Samkvæmt þessari reglu, sem alltaf hefur verið til síðan, hefði verzlunin, sem seldi bollapörin í heildsölu á 50 aura, verið sektuð fyrir óhóflega álagningu, en kaupmaðurinn, sem seldi á kr. 1.38, hefði sloppið sem heiðarlegur verzlunarrekandi. Þetta litla dæmi, þó að það sé út af fyrir sig gamalt, er í raun og veru dæmi, sem sýnir sögu þessara mála allar götur síðan. Sú saga er þannig, að allt þetta haftafargan hefur miðað að því að eggja þá, sem hafa keypt inn vörur, til þess að kaupa þær á sem hæstu verði til að fá sem mestan gróða í sinn vasa. Þess vegna er það, að ef það á að fara að birta skýrslu um þetta og birta nöfn manna, þá á að vera miðað við það, að birt séu nöfn þeirra manna, sem selja vöruna á hæstu útsöluverði og eru þess vegna verst færir um að stunda verzlun, en ekki að hegna þeim, sem selja hana kannske á lægra verði, þó að þeir leggi prósentvís hærra á.

Nú sé ég að vísu ekki til neins að fara að flytja hér brtt. um þetta, sem væri samhljóða því, er fellt var hér við 3. umr. áður. En í þessari mynd er mér ekki hægt að greiða atkv. með þessu frv. og vildi helzt óska eftir því, að í þeirri mynd, sem það er nú, verði það fellt hér í hv. d., því að ég held, að það væri ekki neinn skaði skeður, þó að það færi allt saman í einu lagi.