23.01.1953
Efri deild: 55. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1017 í B-deild Alþingistíðinda. (1100)

199. mál, almannatryggingar

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og nál. meiri hl. á þskj. 584 ber með sér, þá er ég samþykkur þessu frv., en vil gera á því þær breytingar, sem greinir á sama þskj., þ.e.a.s. þær breytingar á 3. gr., sem teknar eru þar upp í brtt.

Um þær brtt., sem hér eru fram komnar frá tveimur minni hl., hef ég óbundið atkv. og jafnframt til þess að bera fram nýjar brtt., ef ég tel ástæðu til.

Ég tók það fram við 1. umr. um þetta mál, að ef tryggingaráð hefði verið spurt, hvern veg það vildi verja þeim tekjuauka, sem gert er ráð fyrir að tryggingunum verði séð fyrir, 14–15 millj. kr., þá hefðu án efa till. tryggingaráðs orðið með nokkuð öðrum hætti en ákveðið er í yfirlýsingu þeirri, sem samkomulag aðila að vinnudeilunni byggist á. Og ég er því alveg sammála, sem hér hefur komið fram, að það sé meira aðkallandi að auka við bætur til elli- og örorkulífeyrisþega heldur en að bæta við þær fjölskyldubætur, sem nú eru greiddar, þeim upphæðum, sem í frv. greinir, alveg án tillits til tekna og efnahags þeirra, sem bæturnar eiga að greiðast til. Ég er því þeirri meginhugsun sammála, sem fram kemur í þessum till., að einhverjum hluta af því fé, sem nú er ætlað til aukningar fjölskyldubóta og mæðralauna, væri betur varið með því að bæta við ellilífeyrinn og örorkulifeyrinn.

Ég er þó ekki sammála rökstuðningi hv. 7. landsk. nema að nokkru leyti. Hann sagði hér í ræðu sinni áðan, að það væri fráleitt og ekki til annars en hlæja að, að hátekjumenn, t.d. með 100 þús. kr., ættu að fá styrk til uppeldis öðru og þriðja barni. Ég er honum alls ekki sammála um þetta út af fyrir sig. Það er í raun og veru ekkert hlægilegra, að þeir fái uppeldisstyrk með öðru og þriðja barni, heldur en þeir fái fæðingarstyrk, eins og þeir núna fá, og ekkjur þeirra fái dánarbætur, þegar þeir falla frá. Það er þess vegna ekki í sjálfu sér í neinu ósamræmi við tryggingalögin. Og tryggingalögin hafa aldrei verið hugsuð og eru ekki hugsuð sem hreint og beint fátækraframfæri, heldur trygging, sem að uppfylltum vissum skilyrðum greiðir þær bætur, sem þar er greint, eins og hv. þm. er vel kunnugt. Ég sé engan eðlismun á því, þó að hann gerði það, hvort maður með 100 þús. kr. tekjur fái fjölskyldubætur eða njóti sjúkratrygginga, þannig að hann fái ókeypis læknishjálp og sjúkrahússvist, en það fá menn eftir tryggingalögunum nú. Það var ekki svo upphaflega, en reynslan sýndi, að það var ekki eðlilegt eða skynsamlegt að útiloka þá frá fríðindum trygginganna, af því að þeir greiða eins og aðrir menn, fyrst og fremst sín iðgjöld og svo gegnum sína skatta. Hitt er annað mál, og það er ég honum alveg sammála um, að á meðan greiðslur á ellilífeyri og örorkulífeyri eru takmarkaðar og bundnar við ákveðnar tekjur svo stranglega sem nú er gert í lögunum, þá er hið mesta ósamræmi í því að greiða án nokkurra takmarkana slíkar fjölskyldubætur til manna, sem komnir eru yfir visst tekjumark. En ég er honum ekki sammála um það, sem mér fannst liggja í ræðu hans, að í raun og veru væri æskilegt, að tryggingalöggjöfin væri með þeim hætti, að þar væri aðeins metin þörf hvers einstaklings og greitt eftir svipuðu mati eins og hjá framfærslu- eða fátækrafulltrúa, — ég vil taka það alveg greinilega fram.

Ég lít því svo á, að ekki sé heppileg, eins og ég hef látið fram koma áður, sú skipting á fénu, sem hér er gert ráð fyrir, með tilliti til þess, að ellilífeyris- og örorkulífeyrisþegarnir búa nú við tiltölulega strangar takmarkanir að því er snertir greiðslur á lífeyri til þeirra. Ég hefði því kosið, að unnt hefði verið að breyta þessu frv. í þá átt, sem ég hef nú bent á í þessum fáu orðum mínum hér og gerði fyllri grein fyrir við 1. umr.

Í nál. segir: „Haraldur Guðmundsson hefur óskað þess, að ríkisstj. leitaði álits sáttanefndar og samninganefnda í vinnudeilunni um það, hvort þessar n. gætu fyrir sitt leyti fallizt á, að breytingar þess efnis, að dregið væri úr fjölskyldubótum og mæðralaunum eftir tekjum og fé því, sem þannig sparaðist, varið til aukningar á elli- og örorkubótum, raski ekki því samkomulagi, sem gert var.“

Ég hef mælzt til þess við hæstv. ráðh., sem mætti á fundi hjá heilbr.- og félmn., að hann sneri sér til sáttanefndarinnar og léti hana leita eftir áliti aðila um þetta, en hef ekki fengið ákveðin svör við því frá hæstv. ráðh.

Ég vil leyfa mér að mælast til þess við hv. minni hluta báða, að þeir athuguðu, hvort þeir sæju sér ekki fært að taka sínar brtt. aftur til 3. umr., það af efni þeirra, sem ekki er bundið í till. meiri hl., þ.e. fyrri hlutinn af till. hv. 7. landsk., ef hæstv. ráðh. sæi sér fært að nota tímann á milli umræðnanna til þess að fá álit frá sáttanefndinni svipað því, sem ég hér gerði grein fyrir.

Ég vil ekki eiga þátt í því að gera neitt í sambandi við þessa lagasetningu, sem hægt sé að segja með sanni að sé rask, brigð eða riftun á því samkomulagi, sem gert hefur verið. En ég álít fénu betur varið og skynsamlegra frá sjónarmiði trygginganna að ráðstafa fénu eitthvað líkt því, sem ég hef bent hér á með þessum orðum mínum og að nokkru leyti felst í þeim till., sem fram hafa komið.

Um till. vildi ég þó segja það, að mér virðist, að í till. hv. 7. landsk. sé ekki alls kostar eðlilegt að miða við sömu tekjur hvar sem er á landinu, 44 þús. kr. Mér finnst eðlilegt, að það sé mismunandi eftir verðlagssvæðum, — það sama er víst í till. hv. þm. Barð. líka, — að eins og lífeyrisupphæðirnar eru breytilegar eða mismunandi eftir verðlagssvæðum, þá verði viðmiðunin eins. Það yrði tíföld grunnlífeyrisupphæðin í báðum tilfellum.

Þá vildi ég leyfa mér að benda hv. þm. Barð. á það, að í hans till. er á engan hátt ætlazt til þess, að Tryggingastofnuninni sé séð fyrir því fé, sem kann að vera að hún þurfi að greiða af hendi umfram tekjuauka vegna þeirra breytinga, sem till. gera ráð fyrir. Það er aftur á móti gert í till. hv. 7. landsk., og álít ég óhjákvæmilegt, að það fylgi með, ef till. eru samþykktar.

Eins og ég gerði grein fyrir hér við 1. umr., þá eru þær áætlanir, sem fram hafa verið lagðar um kostnaðinn við aukningu fjölskyldubótanna, byggðar á mjög veikum rökum, vegna þess að engar skýrslur eru fyrir hendi til að byggja á, og það hefur komið í ljós síðan, að barnafjöldinn er nokkru meiri í heild á landinu heldur en þá lágu fyrir upplýsingar um. Hversu mikið sparast af fjölskyldubótum með því að fella niður greiðslur við 44 þús. kr. mark, eins og greinir í till. þarna, er ekki heldur unnt að gera sér neina hugmynd um. Það er ekki hægt að gera nema á einn hátt, að fara gegnum skattaframtöl eða mikinn hluta af skattaframtölum síðasta árs og bera tekjuflokkana saman við barnafjöldann. En slíkt kostar margra vikna vinnu og ómögulegt að gera það meðan þetta frv. er hér til meðferðar. Því rennum við þarna að sjálfsögðu mjög blint í sjóinn, bæði hvað þetta kostar og enn fremur hvað mundi sparast með því að breyta ákvæðum um fjölskyldubæturnar eins og í brtt. segir. En sú hækkun á lífeyri, sem felst í till. beggja minni hl., mun kosta nálægt 5 millj. kr. á ári, miðað við núverandi vísitölu.

Þá er annað atriði í þessu sambandi, sem ég tel rétt að benda á, þótt það skipti kannske ekki ákaflega miklu máli peningalega, og það eru ákvæðin um mæðralaun, að greiða þau jöfn fyrir hvert barn upp úr eða hækkandi að neðan án tillits til barnafjölda. Ef þetta frv. yrði samþ. óbreytt, eins og það liggur fyrir núna, sem kannske eru líkur til, þá getur svo farið, að einstæðar mæður með börn fái meiri tekjur í beinum barnalífeyri og mæðralaunum með börnum sínum heldur en Dagsbrúnarmaður á fullu kaupi, sem hefur fyrir konu og jafnmörgum börnum að sjá, fær, þótt hann njóti fyllstu fjölskyldubóta.

Ég skal aðeins taka eitt dæmi — það er að vísu nokkuð fátitt dæmi — til að sýna þetta. Einstæð móðir, sem á 10 börn undir 16 ára aldri, á að fá með þeim í mæðralaun og barnalífeyri samtals nokkuð yfir 53 þús. kr. á ári, þótt hún sé heil og hraust, en meira að sjálfsögðu, ef hún er öryrki. Dagsbrúnarmaður, sem hefur fyrir að sjá konu og 10 börnum á sama aldri, ætti að fá í fjölskyldubætur samkv. þessu sama frv. nokkuð yfir 14 þús. kr., milli 14 og 15 þús. kr. Setjum svo, að hann vinni sér inn 33 þús. kr. á ári. Þá eru tekjur hans milli 47 og 48 þús. kr., eða fullum 5 þús. kr. lægri samtals, atvinnutekjurnar og fjölskyldubæturnar, heldur en aðeins er greitt með börnunum til einstæðrar móður með sama barnafjölda.

Það verður að segja það eins og er, að þetta er ekki eðlilegt. Það geta komið fyrir þau tilfelli, að það borgi sig betur fyrir hjónin að skilja, heldur en að búa saman, fá barnalífeyri og fjölskyldubætur til fráskilinnar konu heldur en að maðurinn haldi saman heimilinu og þau búi saman og njóti þeirra fjölskyldubóta, sem lögin gera ráð fyrir. Það eru ekki mörg svona tilfelli, sem um er að ræða. Það þarf að minnsta kosti 7 börn í fjölskyldunni, til þess að það mundi borga sig, en það er ekki heppilegt, að svona lagað sé hægt samkv. lögunum. Það liggur í augum uppi. Ég geri ráð fyrir, að lögin eigi að endurskoða fljótlega, en með þeim ákvæðum, sem nú standa, geta svona tilfeili átt sér stað.

Ég skal nú ekki lengja þessar umr., hef sagt það, sem ég vildi um þetta segja, en ég vildi mjög mælast til þess, að hæstv. ráðh. sæi sér fært milli umr. að fá umsögn frá n., sem um þetta hefur fjallað. Ef hún teldi, að þetta færi á engan hátt í bága við það samkomulag, sem gert hefur verið, þá mundi ég hiklaust greiða þessum till. atkvæði. Ef hún legði þar á móti, að þetta fengist, þá er hæpið eða ótrúlegt, að ég geti greitt þeim atkvæði, ef það yrði lagt út sem röskun. En ég mun engan veginn greiða atkvæði á móti þeim.

Ég vildi mega leiðrétta mismæli hjá hv. þm. Barð. Hann sagði, að nú væri svo komið, að framlag til trygginganna næmi — tók ég eftir — fjórða partinum af útgjöldum ríkissjóðs; mér heyrðist hv. þm. segja það. (Gripið fram í.) Ekki framlag ríkissjóðs. Nú, heildarútgjöld, það getur látið nærri. Það mun láta nærri, að eftir þessar breytingar verði ríkisframlagið um 1/10 hluti af heildarútgjöldum ríkissjóðs. Ég hef þá tekið skakkt eftir.

Ég sem sagt vænti þess, að hæstv. ráðh. vildi segja til um það, hvort hann vill athuga þetta milli umr., og eins að minni hlutar n. vildu þá taka aftur sínar brtt. til 3. umr.