23.01.1953
Efri deild: 55. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1023 í B-deild Alþingistíðinda. (1102)

199. mál, almannatryggingar

Frsm. 2. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki tefja umr. um málið á þessu stigi. Ég hafði hugsað mér að bera fram brtt. í sambandi við hámarkið, setja inn 33 þús. á 2. verðlagssvæði og 44 þús. á 1. verðlagssvæði, en með því að það hefur verið minnzt á það, hvort við vildum ekki taka aftur okkar till. til 3. umr., í því trausti, að unnt sé að koma hér á einhverjum breytingum, þá vil ég fyrir mitt leyti verða við þeim tilmælum. Ég vil þá biðja bæði hv. meiri hluta n. og hæstv. ríkisstj. að rannsaka ekki einasta þetta, hvort sáttanefndin fengist til þess að mæla með því, — það er alveg rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, hún hefur ekkert vald til að segja neitt um það og náttúrlega alveg vafasamt, eins og hann tók fram, hvort hún vildi skipta sér nokkuð af því, en leita þó umsagnar þeirra um það, — og þá ekki síður hitt, hvort ríkisstj. sér sér ekki mögulegt að gera þessar breytingar og mæta þeim kröfum, sem kynnu að koma frá þeim aðilum, sem samið hefur verið um og yrðu fyrir utan þau takmörk, sem hér eru sett. Það er mín skoðun, að það séu alls ekki margir aðilar, sem væru á 1. verðlagssvæði með yfir 44 þús. kr. og hefðu þá ekki fengið annaðhvort bæturnar á annan hátt, eins og við förum fram á, t.d. sömu fjölskyldurnar og fengju ellilífeyri, einhver hluti fjölskyldunnar, svo að hér sé ekki um mikla áhættu að ræða fyrir ríkissjóð. Ég vildi gjarnan, að það væri einnig athugað, og ekki hvað sízt þegar um er að ræða, að það eru tveir ágætir lögfræðingar í n., því að það er alveg ljóst mál, að þeir aðilar, sem ekki stóðu að undirritun samningsins eða samningnum, eiga engar kröfur á ríkissjóð, þó að þetta sé gert, m.a. allir embættismennirnir; þeir geta engan veginn átt þær kröfur á ríkissjóðinn né aðrir aðilar, sem ekki voru þátttakendur í þessum samningi.

Ég vil svo aðeins út af orðum hæstv. ráðh., þar sem hann sagði, að hann vildi engan veginn fara inn á þá braut að raska tryggingagrundvellinum, segja það, að ég er honum alveg sammála um það, að það sé mjög óheppilegt, og ég hefði engan veginn borið fram þessa till., sem ég hef borið hér fram um það að skerða tryggingagrundvöllinn í sambandi við fjölskyldubæturnar, ef það gerði ekki sú þörf að verða að bæta upp öðrum aðilum, sem verr eru settir, þegar ríkissjóður treystir sér ekki til þess að gera það með öðrum leiðum. En ég verð þá einnig í sambandi við þessi ummæli að benda hæstv. ráðh. á, að það fer engan veginn saman að ætla okkur að trúa því, — sem ég vil ekki rengja, — að hann vilji ekki fara inn á skerðingarákvæðið í sambandi við fjölskyldubæturnar, vegna þess, að hann vilji ekki brjóta niður þann meginkjarna trygginganna að vera tryggingar, en ekki framfærsla, en halda þó ár eftir ár fast við skerðingarákvæðið í sambandi við ellilaunin. Því vil ég vænta þess að nú verði samþ. mín till. um það, að skerðingarákvæðið til ellilífeyrisþeganna verði fellt niður, því að það er vitanlegt, að ef það á að gilda um einn flokk trygginganna, að það sé ekki sett skerðingarákvæði, þá má það engu síður gilda um annan flokk og þá fyrst og fremst þann flokkinn, sem mest þarf á því að halda. Ég er hins vegar alveg ósammála hæstv. ráðh. um það, að fjölskyldubæturnar eigi að ganga fyrir, eins og hann vildi vera láta, því að það er alveg víst, að langflest af þeim gamalmennum, sem njóta nú tryggingabóta, hafa einmitt orðið á sínum starfsárum að ala upp stórar fjölskyldur, án þess að hafa nokkrar fjölskyldubætur á þeim tímum, og berjast yfir alla þá erfiðleika, sem nú er verið að taka í burtu eða milda hjá hinni yngri kynslóð, svo að það er tvöföld ástæða til að svíkja ekki þessa þegna þjóðfélagsins um elliuppbætur, sem fyrst og fremst geta ekki sjálfir séð fyrir sér vegna ellilasleika og fátæktar og allt sitt líf hafa látið sína vinnu ganga í það að ala upp góða og duglega þegna fyrir þjóðfélagið, sem hæstv. ráðh. vill nú að sé fyrst og fremst verðlaunað. — Þetta vildi ég aðeins láta koma fram hér.

Ég lýsi því svo yfir, hæstv. forseti, að ég tek mína till. aftur til 3. umr. í fullu trausti þess, að um þetta fáist samkomulag, því að mér er alveg ljóst af þeim umr., sem fram hafa farið í n., að á bak við það liggur raunverulega sterkur vilji hjá n. allri og ég hygg nokkur vilji hjá hæstv. ríkisstj., þegar þeir eru búnir að átta sig á málunum.