24.11.1952
Efri deild: 30. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1123 í B-deild Alþingistíðinda. (1315)

116. mál, matsveina-og veitingaþjónusta skóla

Frsm. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Í lögum um Matsveina- og veitingaþjónaskóla er svo ákveðið, að ráðherra skuli skipa skólanefnd þrem mönnum án tilnefningar. Samband matreiðslu- og framreiðslumanna og Samband veitinga- og gistihúsaeigenda hafa óskað eftir því við samgmrn., að á skipun þessarar skólanefndar yrði gerð sú breyting, að fulltrúar frá þessum stéttasamböndum ættu þar sæti. Samgmrn. hefur fallizt á þessi tilmæli og látið semja og bera fram frv. það, er hér liggur fyrir til umræðu. Frv. gerir ráð fyrir því, að í stað þriggja manna skólanefndar komi fimm manna skólanefnd, og eigi í henni sæti einn matreiðslumaður, einn framreiðslumaður, einn veitingamaður og einn fiskimatsveinn auk fimmta mannsins, sem ráðherra skipar óbundið.

Allshn. hefur athugað þetta frv. og telur það til nokkurra bóta, að fulltrúar frá þeim stéttasamtökum, sem eiga mest við þennan skóla að búa, sem á að kenna og ala upp fólk í þessar stéttir, eigi fulltrúa í skólanefndinni. Allshn. hefur því fyrir sitt leyti fallizt á að mæla með því, að frv. verði samþykkt eins og það liggur fyrir.