08.12.1952
Neðri deild: 36. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1242 í B-deild Alþingistíðinda. (1706)

127. mál, menntaskóli

Frsm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Á nokkrum þingum undanförnum hefur verið flutt frv. um heimild til þess fyrir menntaskóla að halda uppi miðskólakennslu. Stundum hefur það mál verið miðað við Menntaskólann á Akureyri einan. Nú er málið flutt í því formi, að fræðslumálastjórn sé heimilt að halda uppi miðskólakennslu við menntaskólana. Menntmn. þessarar deildar, sem fengið hefur málið til meðferðar, hefur rætt það á nokkrum fundum og m.a. fengið á fund sinn fræðslumálastjóra, skólameistara Menntaskólans á Akureyri og skólastjóra Gagnfræðaskóla Akureyrar. En milli hinna tveggja síðar nefndu hafði verið allmikill ágreiningur um þetta mál, að því er Akureyri varðar. Nú er hins vegar milli skólameistara og skólastjóra komið fullt samkomulag um það, hvernig haga skuli kennslu og skiptingu nemenda á Akureyri, ef þessi heimild verður notuð fyrir Menntaskólann á Akureyri. Samkomulag þeirra er prentað sem fylgiskjal með nál. Eftir þessar viðræður og athugun nm. sjálfra hefur n. orðið á einu máli um að mæla með samþykkt þessa frv., þá með þeirri breyt., að heimildin sé bundin við óskiptar bekkjardeildir. Ætla ég, að um það þurfi ekki að verða ágreiningur, og leyfi mér að mæla með því fyrir n. hönd, að frv. verði samþ. með þessari breytingu.