06.11.1952
Neðri deild: 21. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í B-deild Alþingistíðinda. (176)

2. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Hannibal Valdimarsson:

Herra forsetl. Í 2. málsgr. þessa frv. er tekið fram, að það verði heimilt ráðh. að veita vélbátum undanþágu frá banni til þess að stunda kampalampaveiðar og leturhumarveiðar á tilteknum svæðum með venjulegri kampalampavörpu og leturhumarvörpu. Það hefur verið framkvæmt þannig fram að þessu, að þeir, sem hafa viljað stunda þennan veiðiskap, hafa orðið að sækja til atvmrn. um leyfi til að mega stunda þessa veiði. En þannig hefur nú til tekizt á liðnu sumri; að þeir menn, sem hafa sótt um þetta leyfi, hafa þurft að láta sumarið líða án þess að fá þetta leyfi. Það stundaði einn bátur á Ísafirði kampalampaveiði eða rækjuveiði í sumar, og aflinn var óvenjulega góður. Til þess að vinna úr afla þessa eina báts þurfti milli 30 og 40 manns, mest konur og unglinga, og var þetta ágæt vinnubót í atvinnulitlum bæ. Þá var það, að tveir aðrir sjómenn, eigendur litilla báta, sem eru hentugir til þessara veiða, sóttu til atvmrn. um að mega stunda rækjuveiði, sendu símskeyti til atvmrn. og biðu svo svars. Og sumarið leið fram í septembermánuð, síðari hluta septembermánaðar, án þess að þeir fengju svar við því, hvort þeir mættu bjarga sér á þennan hátt. Þá var rekizt í því við atvmrn., að svör fengjust við þessum umsóknum þessara sjómanna. Og það var leitað í atvmrn., og önnur umsóknin fannst og var þá enn óafgreidd og mun þá hafa verið nýlega komin úr ferðalagi frá Fiskifélagi Íslands, því að leitað hafði verið umsagnar Fiskifélagsins um þessa um- sókn. En hin fannst ekki, og var þess getið til af skrifstofustjóranum, að hún mundi vera til umsagnar hjá Fiskifélagi Íslands.

Nokkru eftir að rekistefna hafði verið gerð út af þessari afgreiðslu, kom tilkynning til annars sjómannsins um, að honum væri veitt leyfi til þess að veiða rækjur í einn mánuð. Hann var búinn að bíða, hann var búinn að endurnýja umsókn sína og láta rekast í því persónulega í ráðuneytinu að fá þetta leyfi. Það hafði gengið í það meginhluti sumarsins, og svo fékk hann leyfi til eins mánaðar. Í októbermánuði mátti hann svo veiða rækjur. Þá á aftur að byrja umsóknarherferð, og ég veit ekki, hvort búið er að framlengja heimild þessa sjómanns til þess að bjarga sér á þennan hátt. Nú, það er bezt að segja söguna til enda. Hinn sjómaðurinn fékk svo að vísu leyfi, þegar svar hafði komið frá Fiskifélaginu, og hann fékk líka að síðustu leyfi í einn mánuð, eftir að það hafði staðið miklu lengri tíma að fá þetta leyfi.

Nú sýnist eiga að lögfesta þessa mjög svo þunglamalegu og seinvirku aðferð, til þess að menn megi bjarga sér að því er þetta snertir, og þykir mér það miður. Ég tel því miklu ráðlegra, að 2. mgr. frv. væri á þá leið, að heimilt væri að stunda kampalampaveiðar og leturhumarveiðar á tilteknum svæðum með venjulegri kampalampavörpu og leturhumarvörpu og það þyrfti engar slíkar herferðir eins og þurft hefur til þessa til þess að fá leyfi til að stunda þessa veiði. Ég get ekki séð; að það þurfi neina varfærni gagnvart hagsmunum Englendinga, að því er þetta snertir, þeir stunda ekki þennan veiðiskap hér við okkar land, og það er ekkert stigið á þeirra strá fyrir það, þó að Íslendingum sé að lögum heimilað óskorað frelsi til að stunda þennan veiðiskap, og þykir það allt of þunglamalegt, einkanlega þegar menn hafa brennt sig á þessari reynslu, að það gangi svona þunglega að fá slík leyfi: Ég vildi því helzt ekki, að það yrði neinum leyfum háð frá hæstv. stjórnarráði, að menn megi stunda þennan veiðiskap, þar sem þeir hafa hafið hann.

Ég hygg, að það hafi ekki orðið neitt árekstramál milli Norðmanna og Breta, að þeir stundi kampalampaveiðar innan fjögurra mílna landhelginnar þar. Kampalampaveiðar eru geysimikill atvinnuvegur í Noregi, og þær hafa átt sér stað þar áratugum saman árekstralaust, að því er ég bezt veit, bæði innan þriggja mílna landhelginnar og eins innan fjögurra mílna landhelginnar. Kampalampaveiðar voru hafnar hér við land, meðan samningurinn við Breta frá 1901 gilti og landhelgin var miðuð við 3 sjómílur, og þá held ég, að það hafi ekki þurft að sækja um neitt leyfi til þessa veiðiskapar. Ég tel alveg sjálfsagt, að það sé frjálst öllum mönnum, sem vilja stunda þennan veiðiskap innan íslenzkrar landhelgi, að stunda hann, án þess að þurfi neina baráttu um það að fá leyfi til þess, og mun leggja til, að 2. mgr. þessa frv. verði breytt á þann veg, að heimilt sé að stunda kampalampaveiðar og að ákvæðið um, að undanþágu skuli leitað til ráðh., verði fellt niður. Það eru undir öllum kringumstæðum, þó að afgreiðsla slíkra leyfa gangi normalt fyrir sig og ekki með slíkum undandrætti eins og á síðast- liðnu sumri, tafir að því og ófrelsi að þurfa að vera að biðja um leyfi til þess að bjarga sér.