30.01.1953
Efri deild: 59. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1315 í B-deild Alþingistíðinda. (1875)

151. mál, málflytjendur

Guðmundur Í. Guðmundsson:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða, fyrst ég vakti þessar umr. um skrifstofur hæstaréttarmálafærslumannanna, að andmæla tveim atriðum, sem komu fram í ræðu hæstv. dómsmrh. hér áðan. Hann vildi halda því fram, að það væri skylda félags málfærslumannanna að hafa eftirlit með því, að málfærslumenn við hæstarétt hefðu raunverulega opna skrifstofu. Frá mínu sjónarmiði er þetta alger misskilningur. Ég get ekki á þessa skoðun fallizt. Það er berum orðum fram tekið í hæstaréttarlögunum, að héraðsdóms- og hæstaréttarlögmenn eigi að hafa með sér félag, og það er hlutverk þessa félags að koma fram fyrir hönd félagsmannanna og hafa eftirlit með því, að félagsmenn fari að lögum í starfi sínu og ræki skyldur sínar af trúmennsku og samvizkusemi. Þetta ákvæði í hæstaréttarlögunum eða málfærslumannalögunum verður aldrei skilið á þann veg, að það feli málfærslumannafélögunum að hafa eftirlit með því, að hæstaréttarmálaflutningsmennirnir hafi raunverulega opna skrifstofu. Það, sem hér er verið að leggja í hendur félaganna, er eingöngu að fylgjast með því og taka í taumana, ef félagarnir rækja ekki störf sín af trúmennsku. En meðan þeir rækja störf sín, þá er eingöngu átt við starf þeirra sem málfærslumanna og lögfræðilegra ráðunauta. Það er alveg rétt, að það eru málfærslumennirnir sjálfir, sem öllum öðrum betur fylgjast með því og geta fylgzt með því, hvernig hver einstakur leysir störf sín af hendi. Og það er mjög eðlileg ráðstöfun, að einmitt þeim og þeirra félagssamtökum sé falið að hafa eftirlit með því, að hver einstakur geri skyldu sína og vinni af trúmennsku og samvizkusemi.

Það kann að vísu að hljóma dálítið undarlega, að málfærslumennirnir séu svona settir sem eftirlitsmenn hver á annan og hver öðrum til höfuðs, en þegar nánar er að gáð, þá er það einmitt mjög eðlilegt og sjálfsagt, að þetta sé þannig upp byggt. Málfærslumennirnir sem slíkir og þeirra stétt á óendanlega mikið undir því, að í stéttinni séu hæfir menn og menn, sem vinni störf sín af trúmennsku og samvizkusemi. Það þarf ekki nema einn eða fáa og lítið út af að bera til þess, að allir séu undir þá sök seldir, að þeim sé ekki treystandi til málfærslustarfa, og það er einmitt út frá þessu sjónarmiði, það er einmitt sjálfsvörn stéttarinnar fyrir það traust og það álit, sem hún þarf á að halda hjá almenningi, sem er grundvöllurinn undir þessu ákvæði í málfærslumannalögunum, en alls ekki það, að félaginu hafi með því verið falið að lita eftir því, að hinum almennu málfærsluskilyrðum væri fullnægt hjá hverjum einstökum félagsmanni.

Ég get ekki heldur látið hjá líða að andmæla því, sem kom fram frá hæstv. dómsmrh. áðan, að málfærslumannsskilyrðin og takmarkanirnar, sem eru á því, að menn geti öðlazt rétt til málfærslu fyrir hæstarétti, hafi verið sett í lögin til hagsbóta fyrir málfærslumennina. Þetta er frá mínu sjónarmiði og að mínum dómi alger misskilningur. Ég veit að vísu, eins og ég tók fram í minni fyrstu ræðu hér í dag, að það hafa verið mjög hörð átök um það innan málfærslumannastéttarinnar, hvaða ákvæði skyldu gilda og hvaða skilyrði skyldu sett fyrir því, að menn öðluðust rétt til málfærslu við hæstarétt. Um þetta hafa verið hörð átök, og þeir, sem hafa öðlazt réttinn, hafa alltaf haft tilhneigingu til að hafa þessi skilyrði sem allra ströngust og þrengst til þess að geta lokað stéttinni sem mest til hagsbóta fyrir þá, sem inn væru komnir, en hinir, sem ekki hafa öðlazt réttinn, hafa sótt á um, að skilyrðin yrðu rýmkuð. Þetta er sjónarmið málfærslumannanna, og þetta er það sjónarmið, sem átökunum hefur valdið hjá þeim. En þetta er alls ekki sjónarmið, sem Alþ. getur haft, má hafa eða hefur haft, þegar það setur lög um málfærslumennina og hvaða skilyrðum þeir þurfi að fullnægja til þess að hafa rétt til málfærslu. Þá eru allt önnur sjónarmið, sem til greina koma, og allt aðrar viðmiðanir, sem á að hafa í huga og eru hafðar í huga. Þar er það eingöngu tillitið til alls almennings og þeirra, sem við málfærslumennina þurfa að skipta, sem á að ráða, hvaða skilyrði eru sett. Og það er fyrir almenning, sem við málfærslumennina þarf að skipta og að þeirra störfum á að búa, sem þessi skilyrði hafa verið sett inn í lögin. Að halda því fram, að þessi skilyrði um málfærsluréttindin séu sett til verndar málfærslumönnunum, er nákvæmlega eins og því væri haldið fram, að það væri gert fyrir læknastéttina að hafa það að skilyrði, að læknar þurfi að hafa vissa menntun, vissa þekkingu, víssan starfsferil til að geta öðlazt réttindi til að mega stunda lækningar. Það væri nákvæmlega sama og því væri haldið fram, að það væri gert fyrir ákveðinn hóp manna, iðnaðarmennina t.d., þegar sagt er og ákveðið, að þeir þurfi að hafa viss próf, vissan starfsferil, starfstíma og annað slíkt, til þess að þeir megi stunda sína iðn sem fullgildir menn. Slíkt á sér alls ekki stað, og slíkt er alger misskilningur. Öll þessi skilyrði eru sett ekki til verndar þeim, sem skilyrðunum þurfa að fullnægja, heldur til öryggis og verndar þeim fyrst og fremst, sem við starf þessara manna eiga að búa, og það er einmitt þetta, sem á við um málfærslumennina ekki síður en aðra. Að halda því fram, að þetta sé sett málfærslumönnunum til fjárhagslegs framdráttar, er því alger fjarstæða að mínum dómi, sem missir gersamlega marks.

Ég vil leyfa mér að lokum að vekja alveg sérstaklega athygli hæstv. dómsmrh. á því, að það er vitað, að þó nokkrir menn eru hér, sem hafa réttindi til málfærslu við hæstarétt og öðru hvoru koma þangað til þess að flytja mál, en þó mjög sjaldan. Það er vitað, að það er ekki hægt að segja, að þessir menn hafi opna skrifstofu í þeim skilningi, sem lögin um málfærslumenn gera ráð fyrir. Þetta er mjög óheppilegt og óhagkvæmt ástand. (Forseti: Þetta átti að vera athugasemd.) Ég er rétt að ljúka mínu máli. Ég skal ekki þreyta forseta nema rétt nokkur augnablik. — Þetta er mjög óheppilegt og skaðlegt ástand, og ég vildi mælast til þess við hæstv. dómsmrh., að þessar umr. mættu verða til þess, að því yrði komið á algerlega hreinan grundvöll, hver á að hafa eftirlit með þessu, og síðan, þegar það hefur verið fengið, þá verði í það gengið, að um raunverulegt og raunhæft eftirlit sé að ræða, þannig að almenningur sé ekki blekktur með því, að menn hafi réttindi til málfærslu, kalli sig málfærslumenn, enda þótt þeir raunverulega fullnægi ekki þeim skilyrðum, sem lögin setja fram, og geti því ekki verið þeim starfa vaxnir sem þeir auglýsa sig hæfa til að taka að sér. — Ég bið svo forseta að afsaka.