02.02.1953
Efri deild: 63. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1393 í B-deild Alþingistíðinda. (2040)

209. mál, veð

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins fá nokkrar frekari skýringar í sambandi við þessa till. hér, vegna þess að það eru nú tveir lögfræðingar í n., og mér skilst, eftir því sem ég hef fengið upplýst hér hjá hv. form. n., að þetta sé byggt nokkuð á misskilningi. Hér er sagt í till., að þrátt fyrir ákvæði 4. gr. laganna sé bændum rétt og heimilt að veðsetja bönkum og sparisjóðum sem sjálfsvörzluveð einu nafni tiltekna flokka búfjár sins og hæfilegan fóðurforða handa því. Og svo er síðar sagt hér: „svo og tilteknar búsafurðir sínar til tryggingar rekstrarlánum, sem veitt eru til lengri tíma, en eins árs í senn, og gengur það veð fyrir öllum síðari veðsetningum búfjár eða einstakra gripa svo og afurða þeirra.“

Nú vil ég í sambandi við þetta leyfa mér að spyrja, hvort þegar búið er að veðsetja samkvæmt þessari grein afurðir bús — tilteknar búsafurðir — svo sem mjólk, þá sé skylt fyrir eiganda að láta andvirði mjólkurinnar ganga til þess að greiða af láninu. Ég vildi gjarnan fá þetta upplýst, áður en málið gengur til atkvæða. Ég get skilið, að honum sé skylt að láta andvirði þess fjár, sem slátrað er, hvort heldur það eru nautgripir eða sauðfé, ganga til þess að greiða af láninu. En er ætlazt til þess, að hann á sama tíma láti hvern mjólkurdropa, sem fæst úr kú, eftir að hún hefur verið veðsett, og afurðirnar frá henni ganga til greiðslu á láninu og að honum sé ekki heimilt að selja þær og nota féð í búrekstur sinn? Sama gildir um fóðurforðann. Ef t.d. 600 hestar af heyi eru veðsettir, er honum þá leyfilegt eftir þá veðsetningu að nota þetta hey til þess að fóðra aðrar en hinar veðsettu skepnur með? Þetta vildi ég gjarnan fá upplýst.

Hv. form. n. sagði mér, að þetta væri byggt á sömu lagafyrirmælum eins og þegar útgerðinni væri heimilt að veðsetja ófenginn afla, en það er ákaflega mikill eðlismunur hér á. Hér stendur í l. frá 1887: „svo er og útgerðarmönnum heimilt að setja banka og sparisjóði að sjálfsvörzluveði afla af skipi sínu á einu útgerðartímabili í senn.“ Hvenær sem viðkomandi útgerðarmaður selur þennan afla, er honum skylt að láta söluandvirðið ganga beint til þess að greiða skuldina, og hann getur ekki undir neinum kringumstæðum selt í soðið af þessum afla, sem veðsettur er, nema með leyfi veðhafa, og ef það er hugsunin hér með þessu, að bónda sé ekki heimilt að selja mjólkurafurðir, mjólk, rjóma og ost úr þeim skepnum, sem hafa verið veðsettar samkvæmt lagagreininni, og honum sé ekki heldur heimilt að nota fóðurforðann, sem hann veðsetur, nema setja nýja tryggingu fyrir hverjum töðumeis, sem hann gefur, eða greiða það af skuldinni, sem samsvarar andvirði gjafar á hverjum tíma, þá sé ég ekki, að það sé verið að gera bændum neinn greiða með þessu, sem hér er á ferðinni. Ég held, að þetta mál þurfi nú nokkru frekarí athugunar við, áður en það er samþ., og vildi gjarnan heyra álit hv. n. um þessi atriði.