17.12.1952
Sameinað þing: 25. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í D-deild Alþingistíðinda. (2710)

185. mál, sala þjóð- og kirkjugarða

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Það voru eiginlega aðeins nokkrar spurningar til flm., sem ég vildi bera fram, — hvort þeir hafi gert sér gr ein fyrir, hvaða þýðingu það hefði, ef farið væri inn á þær leiðir sem hér er lagt til, að gefa mönnum kost á að fá ábýlisjarðir sínar, sem eru eign ríkisins, keyptar fyrir fasteignamatsverð. Ég vildi gjarnan vita hjá hv. flm., hvort þeir hafa gert sér grein fyrir því, hversu mikill raunverulegur verðmunur er á fasteignamati á jarðeignum yfirleitt og því venjulega söluverði, sem er á slíkum jörðum. Ég hef sjálfur ekki kynnt mér það, gæti ímyndað mér, eftir því sem ég þekki til um mismun á milli fasteignamats annars vegar og söluverðs hins vegar, að hér væri um verulega stóran mismun að ræða og þannig væri ætlazt til, að þessar jarðir yrðu seldar ábúendunum fyrir verulega lægra verð en væri söluverð þeirra á frjálsum markaði. Með því móti væri væntanlega verið að gefa þessum ekki allfáu ábúendum á þjóðjörðum myndarlegan pening úr ríkissjóði, og held ég, að þm. ættu að gera sér það ljóst, hvað mörgum milljónum eða milljónatugum það kynni að geta numið. Í annan stað væri ekkert óeðlilegt, að þetta gæti dregið einhvern dilk á eftir sér. Ég sé nú t. d. ekki neinn verulegan eðlismun á því, að þeir embættismenn, sem búa í bústöðum, sem ríkið á, ættu kannske að fá þá bústaði keypta með fasteignamati, t. d. biskupinn yfir Íslandi þá eign, sem hann býr í hér í Reykjavík, og ég hygg, að söluverð á þeirri eign væri æði miklu meira en fasteignamatið, og kannske eitthvað af sýslumönnunum og læknunum, sem búa í slíkum bústöðum, sem ríkið á. Það er að mínu viti ekki langur vegur þar á milli, og ef á að fara að láta ábúendur þjóðjarða, sem ríkið á, njóta þessara — að ég tel — verulegu hlunninda, þá er ekki óeðlilegt, að þeir starfsmenn, sem byggju í húsum, sem ríkið á, gerðu kröfur til þess að fá þær keyptar með fasteignamatsverði.

Ég sé nú ekki ástæðu til þess að fara um þessa till. mörgum orðum, þar sem hún fer til n., en ég hygg, að hv. n. væri rétt að kynna sér þetta allt og upplýsa nú fyrir þingheimi, áður en gengið verður til atkvgr., það fyrsta sem ég nefndi: Hvað eru þessar þjóðjarðir margar? Hvað má gera ráð fyrir miklum mismun í verðlagi á milli fasteignamatsins annars vegar og hins vegar söluverðs, og má ekki búast við því, að þetta gæti leitt til þess, að þeim mönnum öðrum, sem búa á fasteignum, sem ríkið á, þótt ekki séu jarðir, fyndist, að þeir ættu að njóta sömu fríðindanna? Ég skal ekki dylja þá persónulegu skoðun mína, að ég álít, að hér sé farið inn á mjög háskalegar brautir og það eigi að gefa úr ríkissjóði með þessu móti, ef framkvæmt yrði, stórar upphæðir til takmarkaðs hóps manna í landinu, ekki allra bænda, heldur til þeirra bænda einna, sem hafa ábúðarrétt á þjóðjörðum, og það er að mínu viti háskaleg braut að fara inn á fyrir löggjafarvaldið að gefa ákveðnum hópum manna þannig verðmæti úr ríkissjóði og það hlýtur að draga dilk á eftir sér.