05.11.1952
Sameinað þing: 10. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í D-deild Alþingistíðinda. (2805)

221. mál, innflutningur fólksbifreiða

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Um er spurt í fyrsta lagi, hversu margar fólksbifreiðar 6–7 manna hafa verið fluttar inn á árinu 1952. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, er talan 31 til septemberloka, flutt inn með gjaldeyris- og innflutningsleyfum.

Um er spurt í öðru lagi, hverjir hafi fengið innflutningsleyfi fyrir slíkum bifreiðum. Innflutnings- og gjaldeyrisleyfi hafa verið gefin á þessu ári fyrir 6–7 manna fólksbifreiðum sem hér segir: Til lækna 10, til fatlaðra manna 12, til opinberra aðila 6, til annarra 3. Auk þess hafa verið fluttir inn á árinu án gjaldeyrisleyfis, aðeins með innflutningsleyfi, 40 bílar 6–7 manna. Hinar, sem ég gat um fyrr, eru fluttar inn bæði með gjaldeyris- og innflutningsleyfi. Út af þessum 40 bifreiðum, sem eru fluttar inn án gjaldeyrisleyfis, gefur fjárhagsráð svo hljóðandi skýringar:

„Í sambandi við leyfisveitingu þessa (þ. e. a. s. gjaldeyrislausu leyfin) má nefna sem ástæðu eftirfarandi atriði.:

1) Búferlaflutningur manna, sem búið hafa erlendis og átt bifreiðar þar.

2) Ráðstöfun á gjaldeyri, sem menn hafa eignazt á löglegan hátt, t. d. fyrir vinnu eða að erfðum.

3) Sala á bifreiðum erlendra sendiráða hér og starfsmanna þeirra, sem fer fram eftir meðmælum utanrrn.

4) Tollafgreiðsla á bifreiðum, sem af ýmsum ástæðum hafa verið lengi í landinu með erlendum númerum.

5) Framlenging leyfa fyrir bifreiðum, sem biðu í erlendum höfnum vegna flutningsbanns, sem sett var á bifreiðar með tilkynningu 16. ágúst 1950.“

Þetta eru þær skýringar, sem fjárhagsráð gefur á innflutningi bifreiða án gjaldeyrisleyfis. Bifreiðar þær, sem fluttar eru inn með gjaldeyris- og innflutningsleyfi, eru áætlaðar að verðmæti 883 þús., en hinar, sem fluttar eru inn án gjaldeyrisleyfis, eru áætlaðar að verðmæti 960 þús. Að sjálfsögðu, í samræmi við þær skýringar sem fjárhagsráð hefur gefið, er hér ekki um útlagðan gjaldeyri að ræða í öllum tilfellum, en hversu mikið það er, hef ég ekki upplýsingar um.

Ég tel ekki viðeigandi né ástæðu til að lesa upp skrá yfir nöfn þeirra manna, sem hafa fengið þessi leyfi, enda mun það ekki hafa tíðkazt á Alþ., að lesin væru nöfn manna, sem leyfi fá hjá fjárhagsráði. Ég get frætt hv. þm. á því, að ég hef persónulega ekkert leyfi fengið fyrir bifreið og sú bifreið, sem ég hef til afnota, er eign ríkisins á sama hátt og bifreiðar, sem aðrir ráðherrar nota.