16.12.1952
Neðri deild: 41. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í C-deild Alþingistíðinda. (2904)

54. mál, sala og útflutningur á vörum

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur klofnað um þetta mál eins og raunar á tveimur þingum áður, og það hefur gerzt með sama hætti og þá, að hv. meiri hluti fjhn. hefur ekki almennilega treyst sér til þess að taka afstöðu í þessu máli, og nál. er ekki komið frá honum enn þá.

Ég þarf ekki að gera ýtarlega grein fyrir þessu máli frá minni hálfu, ég hef gert það bæði í því nál., sem er prentað á þskj. 450, enn fremur í framsögu um þetta mál. Innihald frv. er í stuttu máli það, að íslenzkum þegnum sé heimilt að selja íslenzkar afurðir erlendis með þeim takmörkunum, sem segir í 2., 3. og 4. gr. laganna, þ. á m., að hæstv. ríkisstj. geti á hverjum tíma auglýst lágmarksverð á þeim íslenzkum afurðum, sem út eru fluttar, og hámarksverð á þeim vörum, sem inn eru fluttar, og leiðir þá af sjálfu sér, að hún mundi gera þetta hvort tveggja með hliðsjón af þeim markaðsmöguleikum hvað verð snertir, sem hún álitur vera fyrir hendi á hverjum tíma, eftir að hafa rannsakað það.

Því er oft haldið fram hvað snertir þau lönd, sem við sérstaklega seljum vörur á grundvelli jafnvirðiskaupa, að það sé um dýrari vörur að ræða frá þeim löndum. En þetta er ekki nema í sumum tilfellum rétt. Þjóðhagslega séð er í flestum tilfellum um ódýrari og betri vörukaup að ræða í slíkum löndum. M. ö. o., þau lönd. sem greiða okkur nokkurn veginn framleiðsluverð fyrir fiskinn, láta okkur hafa vörur á móti, og jafnvel þótt þær væru í sumum tilfellum dýrari, en þær vörur, sem kæmu t. d. frá Bretlandi, þar sem við seljum fiskinn 30% undir verði, þá væri það þjóðhagslega séð heppilegra, á meðan þessi 30% eru ekki numin burt, að kaupa í jafnvirðisviðskiptalöndunum. Hins vegar er það svo í ákaflega mörgum tilfellum, að vörurnar, sem við kaupum frá þessum jafnvirðislöndum, eru á heimsmarkaðsverði, þó að við hefðum fengið hærra verð fyrir fiskinn í þeim en við fáum t. d. í Bretlandi. Þegar ástandið er eins og það er nú, að ríkisstj. og hennar málgögn lýsa því yfir, að við liggjum með 2/3 af freðfisksframleiðslunni óselt, séum búnir að yfirfylla saltfisksmarkaðinn á Ítalíu fyrir næsta ár, þannig að þar liggi birgðir, sem nægi fyrir 4/5 hlutum af saltfisksneyzlu á Ítalíu, þá virðist það satt að segja undarlegt, að það skuli ekki geta fengizt leyfi til þess, að Íslendingar megi sjálfir, án afskipta ríkisstj. að öðru leyti, en þetta verðkontrol snertir, sjá um sölu á sínum afurðum og kaup á þeim vörum, sem leyft er að flytja inn í landið. Ég sá nú nýlega t. d., að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hefur uppgötvað það, að það mundi vera markaður fyrir íslenzkan fisk í Afríku og Asíu og víðar. Hann er búinn að vera í mörg ár bæði fyrir harðfisk, saltfisk og freðfisk, og það er talað um það núna eins og einhverja uppgötvun, að það eigi að fara í markaðsleit til þessara landa, en á sama tíma liggur allt við hruni hérna heima út af því, að mönnum er talin trú um, að það sé ekki hægt að selja okkar framleiðslu. Á sama tíma er algerlega neitað þeim till., sem hér liggja fyrir í þinginu, eins og þessu frv. um, að Íslendingar fái sjálfir að annast þessa sölu, þar sem ríkisstj. þó væri gefið þetta veigamikla vald, að hún setur lágmarksverð á íslenzku vöruna, sem hún miðar við einhvern ákveðinn markað, og hámarksverð á þá vöru, sem inn er flutt. Ef ríkisstj. gerir slíkt, þá hlyti hún að miða í báðum tilfellum við verðlag ákveðins gjaldeyrissvæðis. Við skulum segja. að hún miðaði við t. d. sterlingspundasvæðið eða við dollarasvæðið. Þá setur hún sitt lágmarksverð þannig, ef hún miðaði t. d. við sterlingspundasvæðið. að lágmarksverðið fyrir freðfiskinn er það verð, sem hann er seldur á til Bretlands, og það þýðir, að þeir menn, sem selja sinn fisk til Bretlands, verða þá sjálfir að sjá um að kaupa vörur frá því landi í staðinn og selja þær samkeppnisfæru verði hér heima, þannig að það um leið borgi sig fyrir þá. Þeir, sem selja til annarra landa fyrir hærra verð, njóta þess þá í vöruinnkaupum frá þeim löndum og jafna þannig skiptin, og þegar þessar vörur síðan koma hingað heim, miðað við hámarksverðið á því, sem gildir á brezka verðlagssvæðinu, þá jafnar þetta sig út sjálft.

Ég hef minnzt á það í sambandi við þetta frv., að það sé raunverulega undarlegt, að hæstv. ríkisstj. skuli þó a. m. k. ekki geta séð af einokun sinni hvað snertir þau lönd, sem ekkert er selt til.

Í 3. gr. frv. stendur:

„Nú gerir ríkisstj. samning við önnur ríki um sölu ákveðinna vörutegunda þangað, og er henni þá heimilt að ákveða, að eigi megi bjóða til þess ríkis, selja þangað eða flytja það magn af vörutegundum, sem hún hefur samið um sölu á, nema að fengnu leyfi hennar og með þeim skilyrðum, er hún setur.“

Við skulum segja, að ríkisstj. sjái um eða láti annast um sölu á saltfiski til Ítalíu, til Grikklands eða Spánar. Hún gerir ákveðinn viðskiptasamning við þessi lönd, og hún fær eftir þessari grein heimild til þess að banna öðrum að selja til þessara landa, — og má ég nú spyrja: Er það þá ekki nóg fyrir þær einokunarklíkur, sem nú sem stendur sitja að saltfiskinum og skipta honum á milli sín, í þessu tilfelli S. Í. F. og S. Í. S., — er ekki nóg fyrir þær að hafa öll þessi lönd, sem Íslendingar nú hafa selt til? Hvers vegna mættu þá ekki öll önnur lönd vera frjáls? Eða hvað snertir freðfiskinn, — eða hvað snertir þorskalýsið, sem ég veit ekki betur en menn liggi með og þykist ekki geta selt, þó að það sé vel hægt að selja það? Ég verð að segja það, að það eru ákaflega undarlegir hlutir að halda þessu svona í harðvítugum einokunargreipum eins og gert er, og ég fæ ekki séð, hvaða afsökun yfirleitt hæstv. ríkisstj. getur talið fram í þessu sambandi. Það er ekki verið að fara fram á í þessu frv. neinar uppbætur til sjávarútvegsins. Það er ekki verið að fara fram á neinn bátagjaldeyri eða neitt slíkt. Það er hægt að selja allar íslenzkar afurðir án bátagjaldeyris. Það er enginn annar aðili en ríkisstj., sem ákveður það, að það er selt núna til landa, sem við verðum að selja 30% undir framleiðsluverði, og tekur svo ólöglega af þjóðinni 60 millj. kr. á ári til þess að bæta upp tapið á því að selja til þessara aðila. Það er ákaflega hart, að það skuli hér þing eftir þing vera fellt frv., þar sem farið er fram á að gefa fiskútflytjendum rétt til þess að selja án bátaútvegsgjaldeyrisálags og kaupa vörur inn í landið án bátaútvegsgjaldeyrisálags. Og svo er þjóðinni talin trú um, að það sé ekki hægt að hækka kaupið hérna á Íslandi, sem er ekkert nema ósannindi. Það er hægt að verða við því, og það tafarlaust, að hækka kaupið um þau 15% í grunnkaup, sem verkalýðurinn fer fram á, og borga á það dýrtíðaruppbót. Og hvernig í ósköpunum stendur á því, að ein ríkisstj. dirfist að neita útvegsmönnum þessa lands um frelsi til þess að mega selja sínar vörur án bátaútvegsgjaldeyris, borga það kaup, sem þeir semja um við verkalýðsfélögin, og flytja inn vörur hingað til þessa lands aftur og selja þær hér í samkeppni við hvaða vörur aðrar sem er? Ég vil bara vekja athygli á því, að sú ríkisstj., sem heldur svona einokunargreipum um atvinnulíf landsins, tekur á sig alla ábyrgð á því, að vörurnar skuli ekki vera seldar út úr landinu. Það er hún, sem ákveður það, að þær skuli seldar út úr landinu um 30% undir framleiðsluverði. Það er þessi sama ríkisstj., sem síðan stöðvar allt atvinnulíf hérna með því að neita verkalýðnum um eðlilegar kauphækkanir og neita útvegsmönnum um frelsi til þess að selja þessar vörur og kaupa inn í landið aftur — og það þó að henni sé gefin heimild til að setja lágmarksverð á vöruna, þegar út er flutt, til þess að koma í veg fyrir óeðlilega samkeppni og svindl með gjaldeyri, og réttur til þess að setja hámarksverð á vöru, þegar inn er flutt, til þess að koma í veg fyrir óeðlilega hækkun á vöruverði. Ég veit hins vegar, að hv. meiri hluti stjórnarfiokkanna mun vafalaust ekki frekar en venjulega kinoka sér neitt við að fella þetta frv. Það hefur verið drepið þing eftir þing. Það eina, sem ekki má snerta við í þessu landi, eru einokunarfjötrarnir á útflutningnum.

Þegar ég lagði þetta frv. upprunalega fyrir 1950, þá fylgdi grg. frá mér, þar sem ég m. a. lagði fyrir tilboð um verzlunarviðskipti við Austur-Þýzkaland upp á 32 millj. kr. Því var ekki sinnt frekar en öðru. Núna er byrjað að afskipa, — Brúarfoss mun afskipa nú freðfiski til Austur-Þýzkalands. Þau verzlunarviðskipti eru byrjuð. Ríkisstj. er bara búin að hindra þau í tvö ár - líkast til þrjú ár. Ég veit ekki fyrir víst, hvað verðið er á freðfiskinum til Austur-Þýzkalands núna. Ég býst við, að það sé einhvers staðar milli 130 og 140 sterlingspund, á sama tíma sem við seljum á 80 sterlingspund til Bretlands. Það er 50 sterlingspunda munur á tonninu. Ég vil vekja athygli á, að munurinn, sem þarna er á, gerir náttúrlega margfalt meira, en að bæta upp allar þær kröfur, sem verkalýðurinn gerir til kaupgjalds nú sem stendur. Ég verð að segja það, að það er undarleg tilhneiging hjá einni ríkisstj., ef fulltrúar verkamanna og fulltrúar atvinnurekenda fara fram á að fá að vera lausir við, að ríkisstj. hafi nokkur afskipti af atvinnulífinu og sölu á íslenzkum afurðum út úr landinu og kaupum inn í landið, önnur en að setja hámarksverð og lágmarksverð, að hún skuli þing eftir þing fella slíka till., á sama tíma sem hún treystir sér ekki til þess að gera þetta sjálf. Ég mundi verða manna fyrstur til að vera með því, að ríkisstj. annaðist þessa hluti, ef hún sæi um þá eða tryggði með fiskábyrgð fiskimönnunum sitt ákveðna verð, sæi um að selja allar okkar fiskafurðir og sæi um nægar vörur inn í landið í staðinn. En fyrst því er ekki að fagna og hæstv. ríkisstj. hefur ekki treyst sér til þess að gera þetta, þá á hún ekki heldur lengur að halda í þetta einokunarvald, sem hún hafði. Sá siðferðislegi réttur til þessa einokunarvalds féll burt, þegar fiskábyrgðin var afnumin. Það var eðlilegt, að þessi ríkisstj. tæki við af öllum fiskframleiðendum þeirra fiski og ráðstafaði honum sjálf og seldi hann, meðan hún tók sjálf að sér að standa í ábyrgð fyrir verðinu til útvegsmanna og sjómanna á fiskiskipum. Það var alveg sjálfsagður hlutur. Það var ómögulegt að hafa það öðruvísi. En það er ekki hægt fyrir eina ríkisstj. að neita því að taka ábyrgð á fiskverðinu, en segja samt: Ja, þú mátt ekki framleiða, þú mátt ekki flytja út, þú mátt ekki selja, þú mátt ekki kaupa vörur inn í landið til að selja þær í frjálsri samkeppni. — Það brýtur í bága við öll lögmál, viðskiptaleg og siðferðisleg, sem eiga að gilda í okkar þjóðfélagi, og það gengur ekkert þjóðfélag með einokun, sem byggist á einkavaldi ríkisstj. og réttleysi almennings og allra, sem eiga sína afkomu undir sjálfum sér.

Ég ætla ekki að orðlengja um þetta frv. Ég mæli eindregið með því, að það sé samþykkt. Það er nú í þriðja skipti, sem það liggur hérna fyrir, og ástandið í landinu er þannig, að það hefði verið hægt að forða því ástandi, svo framarlega sem þetta frv. hefði verið samþykkt fyrr.