30.01.1953
Efri deild: 60. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í C-deild Alþingistíðinda. (2941)

145. mál, skipun læknishéraða

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Ég flyt ásamt hv. 6. landsk. þm. brtt. við þetta frv., sem er að efni til á þá leið, að nýtt læknishérað verði stofnað í Kópavogshreppi. Það hefur orðið allmikill dráttur á því, að þetta frv. væri afgr. í Nd., en mér þótti ekki rétt að flytja sérstakt frv. um þetta efni, þar sem von var á því, að þetta frv. kæmi til þessarar d.

Í Kópavogshreppi er nú búsett um 2.300 manns og fjölgar stórlega með hverju ári. Á þessu ári má búast við, að fjölgi um 500 manns eða þar yfir, svo að í lok þessa árs verði þar um 3.000 manns. Hreppurinn er mjög víðlendur. Honum tilheyra bæir upp með Suðurlandsbrautinni, leiðinni austur yfir fjall, og þar og jafnvel í byggðinni, sem þéttust er, kemur oft fyrir, að það er mjög kvartað yfir því, að fólk eigi erfitt með að fá lækna héðan frá Reykjavík til læknisvitjana.

Fyrir nokkrum árum var stofnað nýtt læknishérað, Álafosslæknishérað, og er hluti af Kópavogshreppi tilheyrandi því. Með brtt. okkar er gert ráð fyrir því, að þessi hluti Álafosshéraðs verði sameinaður hinu nýja Kópavogshéraði, en það eru m. a. sveitabæirnir uppi í hreppnum, sem eru þar og það er ekki sízt þaðan, sem óskir eru uppi um það, að skipun þessara læknamála þarna í hreppnum verði breytt. Það er af þeim ástæðum, að það þarf formlega að gera breyt. á þeim tvennum l., sem þetta frv. er um að breyta, og l. um stofnun Álafosslæknishéraðs að auki. En það er aðeins að forminu til, sem þessi brtt. er nokkuð flókin; efni hennar er, eins og ég hef getið um, mjög einfalt, að stofna þarna nýtt læknishérað. Það mál hefur verið rætt við landlækni og borgarlækninn í Reykjavík, en þessi byggð tilheyrir nú Reykjavíkurlæknishéraði, en í stað héraðslæknis í Reykjavík er nú borgarlæknir, sem hefur mjög miklum störfum að gegna, sérstaklega við heilbrigðiseftirlit, svo að full ástæða virðist vera til þess og er til þess frá hans sjónarmiði meira að segja — að stofna þarna nýtt læknishérað. Þó að þessi till. hafi ekki verið send til umsagnar landlækni né borgarlækninum í Reykjavík, þá má ég segja, að þessir embættismenn eru henni báðir samþykkir í aðalatriðum, þó að vera kynni, að landlæknir t. d. hefði einhverja till. aðra að gera um nákvæmari mörk þessa fyrirhugaða læknishéraðs. En með því að með þessu frv. er verið að stofna ný læknishéruð, þá hefur okkur flm. þessarar brtt. þótt rétt að koma nú þegar á framfæri þessu máli, sem áreiðanlega verður ekki kveðið niður, því að eftir því sem fjölgar í Reykjavík og í Kópavogshreppi og hér í nærliggjandi sveitum, þá er víst, að það verður mjög örðugt fyrir borgarlækninn í Reykjavík að gegna svo feiknalega mannmörgu héraði, því að störf hans eru orðin mjög yfirgripsmikil vegna heilbrigðiseftirlitsins, og það er af þeim sökum, að hann mun vera þessu máli meðmæltur.

Ég vænti, að ef þessi hv. d. vill gera þær breyt. á skipun læknishéraða, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, þá muni hún einnig vilja fallast á að taka þessa brtt. til greina og samþ. hana.