02.12.1952
Efri deild: 33. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í C-deild Alþingistíðinda. (3015)

80. mál, útsvör

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það, sem hv. flm. þessa frv. hefur sagt hér, að það sé algerlega rangt að vísa þessu frv. frá með rökst. dagskrá. Það er rangt af tveim ástæðum.

Það er í fyrsta lagi algerlega rangt að hafa ákvæði í l. eins og þau nú eru um það að skipta útsvörum á þann hátt, sem gert er. Ég var á móti því, þegar þetta var sett inn í l. á sínum tíma, eins og ég hef ávallt verið á móti því, að útsvörum verði skipt, og fyrir harða baráttu fékkst það lagað hér á Alþ. á sínum tíma. Ástæðurnar fyrir því að skipta útsvari nú eru allt aðrar heldur en þær voru, þegar það var sett inn fyrir 10 árum, og enginn samanburður á því á nokkurn handa máta. En þess utan er ég á móti þessu vegna þess, að það er algerlega rangt að hafa það fyrir meginástæðu, að einhver lög séu í endurskoðun, og það sérstaklega þegar búið er að lýsa því yfir, að það sé ekkert að vita um, hvenær endurskoðun þeirra verði fulllokið, eins og á sér stað um þau lög, sem hér um ræðir. Það var miklu frekar upplýsing fyrir mþn., sem er nú að endurskoða útsvarsl., að fá að vita efnislega, hvaða afstöðu þessi hv. d. hefur til þessa sérstaka atriðis, því að ef greidd verða um þetta atkv. hér efnislega, þá fær hún að sjá og heyra um það, hvort þessi hv. d. er með því, að þetta ákvæði sé framvegis í l. eða ekki. Þannig hefur hv. allshn. algerlega brugðizt sínu hlutverki í þessu máli. Þess vegna mun ég greiða atkv. gegn dagskránni.