21.10.1952
Efri deild: 12. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í B-deild Alþingistíðinda. (311)

9. mál, tollskrá o. fl.

Frsm. minni hl. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er fremur yfirlætislítið að ytri búningi. Það er prentað hér á eina siðu, og því fylgir engin grg. Þó hefur þetta frv. að geyma verulegan hluta af tekjum ríkissjóðs, eða 1. gr. þess réttara sagt. Hún fjallar um vörumagnstoll og verðtoll, og í henni er gert ráð fyrir, að vörumagnstollur af benzíni tvítugfaldist frá því, sem var hér fyrir nokkrum árum, og af öðrum vörum verði tekið 250% álag og enn fremur, að verðtollur verði innheimtur með 45% álagi. Þessir tveir liðir, vörumagnstollur og verðtollur, eru á fjárlagafrv. þessa árs áætlaðir 127.5 millj. kr., þannig að þarna er um mjög verulega upphæð að ræða og næsta stórt mál. Og enda þótt ástæðan til þess, að þetta frv. er borið fram greinargerðarlaust, sé auðvitað sú, að það er lagt hér fram árlega, þá fyndist mér þó ástæða til þess, að hæstv. ríkisstj. gerði hverju sinni nokkra grein fyrir því, sem hún telur nauðsyn þess, að þessar álögur verði framlengdar ár frá ári.

Það hefur orðið þróunin hér undanfarin ár, að tekjur ríkissjóðs hafa meir og meir verið teknar með óbeinum tollum og sköttum, óbeinum nefsköttum á almenning, þannig að á fjárlagafrv. þessa árs t.d. eru beinir skattar aðeins rúmlega 1/7 hluti af heildarupphæð skatta og tolla. Hitt er tekið með nefsköttum allt saman. Þessi þróun hefur farið vaxandi ár frá ári. Árið 1947 t.d., þegar þessi stefna var þó hafin fyrir alvöru og lagðir höfðu verið á mjög miklir nýir tollar, voru þó beinu skattarnir enn þá rúmur 1/4 af þessum tekjum. Og þessir óbeinu skattar hafa verið lagðir þannig á í mjög mörgum tilfellum, að þar hefur átt að vera um bráðabirgðaráðstafanir að ræða til þess að leysa ákveðin vandamál, margsinnis t.d. í sambandi við verðuppbætur á fiski, og þá hefur ævinlega verið sagt, að þar sem tekjurnar væru eingöngu við þessi atriði miðaðar og ef þær aðstæður breyttust, að ekki þyrfti að verja fé til þeirra þarfa, þá mundi tekjuöflunin einnig falla niður. Hins vegar hefur reynslan ævinlega orðið sú, að enda þótt hætt hafi verið við slíkar ráðstafanir, þá hafa hinir óbeinu tollar og skattar ævinlega haldið áfram. Ég geri ráð fyrir, að það sé orðið þannig ástatt, að óvíða í heimi sé eins mikill hluti af tekjum ríkissjóðs tekinn á þennan hátt, og stefna okkar sósíalista er sú, að þessi tekjuöflunaraðferð sé ekki réttlát.

Þegar teknar eru tekjur með óbeinum tollum og sköttum, hlýtur það að leggjast hlutfallslega þyngst á þá, sem erfiðast eiga með að greiða, en meira réttlæti er auðvitað í hinu, að það verði lagt á menn eftir getu þeirra til að bera byrðarnar. Ég skal t.d. benda á, að þessi tvö atriði, sem felast í þessu frv., vörumagnstollur og verðtollur, eru, eins og ég sagði áðan, áætluð 127.5 millj. á fjárlagafrv. Maður þekkir hæstv. fjmrh. það vel, að hann hefur eflaust farið varlega í sínar áætlanir, þannig að ekki mun vera fjarri sanni, að þessir liðir tveir nemi allt að því þúsund krónum á hvert mannsbarn í landinu, allt frá vöggu til grafar, á ári, eða upp undir 5 þús. kr. á 5 manna fjölskyldu á ári. Það er enginn smáræðis biti, sem hæstv. ríkisstj. heggur þannig af tekjum almennings.

Ég skal ekki orðlengja frekar um þetta, þetta hefur oft verið rætt hér á þingi, en ítreka það sem sagt, að ég er andvigur 1. gr. frv. Verði hún hins vegar samþ., mun ég að sjálfsögðu fylgja undanþágum þeim, sem gert er ráð fyrir í 2. gr., og einnig ákvæðum 3. gr.