17.10.1952
Neðri deild: 10. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í C-deild Alþingistíðinda. (3210)

74. mál, Búnaðarbanki Íslands

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Ég hef ekki hugsað mér að láta þessu máli fylgja nema örfá orð að þessu sinni. Það var flutt á síðasta þingi og var afgr. í þessari hv. deild til hv. Ed., en hlaut þar ekki afgreiðslu. Ég vil vænta þess, að hv. landbn., sem ég geri ráð fyrir að fái þetta mál til meðferðar, hraði afgreiðslu þess svo, að unnt verði að afgr. málið til fulls frá þinginu.

Ég ætla nú, að ekki sé síður ástæða til þess að sinna slíku máli sem þessu heldur en var í fyrra. Enn berlegar er það komið í ljós, að alvarlegt atvinnuástand kann að verða í þessu landi, ef þær höfuðatvinnugreinar, sem þjóðin hefur til þessa byggt tilveru sína á, eiga að búa við enn erfiðari aðstöðu en hefur verið nú um skeið.

Ég minnist þess ekki, að ég hafi lesið, hvað áhrærir þetta atriði, öllu ömurlegri fregn en þá, sem stóð í blöðunum nýlega, þar sem sagt var frá því, að síðustu íbúar eins hreppsfélags hefðu nú verið fluttir í burtu. En fyrir ekki mörgum árum voru íbúar í þessu hreppsfélagi rúm 400, að ég ætla. Þó að þetta kunni að vera nokkuð sérstakt, hvað áhrærir þetta sveitarfélag, að hver einasti íbúi þess er fluttur í burtu, þá ber þess þó að gæta og verður jafnframt að hafa í huga, að í allmörgum sveitarfélögum annars staðar hefur fólki fækkað. Og það er ekki nema á heldur fáum stöðum úti um byggðir landsins, sem ég veit um, að fólksfækkunin haldi ekki að einhverju leyti áfram. Það virðast að vísu í nokkrum sveitum, sem ég veit um, vera straumhvörf í þessu efni, en í tiltölulega fáum. Ég ætla, að eins og komið er, þá stafi það, að fólk festir ekki rætur nú til sveitanna, einkum af því, hversu erfitt og torvelt það er þeim, sem ekki njóta einhvers sérstaks stuðnings, eiga efnaða venzlamenn að eða taka við ábýli feðra sinna. Hvað fáir verða til þess að hefja búskap í sveitunum, stafar af þeim feikna erfiðleikum, sem á því eru fyrir efnalítið og ungt fólk. Eðlilegast er, að unga fólkið, þegar það stofnar sitt heimili, geti þá um leið hafið sjálfstæðan atvinnurekstur. En eins og nú er ástatt í þessu efni, þá er ekki hægt að búast við því, að ungu og efnalitlu fólki reynist þetta mögulegt. Svo fjárfrekt er allt, sem til búrekstrar þarf, að það er engin leið til þess, að fólk geti af eigin rammleik lagt fjármunina fram. Það er nógu erfitt samt, þó að fjármunirnir séu einhvers staðar fáanlegir til þess, en eins og nú hagar til með lánsstofnanir okkar í þessu landi, þá hafa þær ekki nema að mjög litlu leyti — svo litlu leyti, að það getur tæpast talizt — getu til að geta sinnt því að lána fólki, sem er að byrja að hefja búrekstur.

Þetta finnst mér alvarlegt. Ég ætla, að þetta málefni sé þannig vaxið, að það snerti þjóðina alla og afkomu hennar. Nú er mikið um það talað, að nokkurt atvinnuleysi sé í kaupstöðum og kauptúnum, og það blasir þó enn meira við, að það kunni að aukast og verða meira, það þurfi að gera sérstakar ráðstafanir, og það hefur borið við á undanförnum árum, að dálítið hefur verið gert að því af fullri nauðsyn, vil ég meina. Og eftir ýmsu, sem fram kemur nú á þessu þingi og í ræðum manna, þá er svo að sjá sem menn búist við, að afvinna verði mjög af skornum skammti við sjávarsíðuna. En er það ekki meira en tímabært orðið að reisa rönd við því, að fólkið haldi áfram að streyma til sjávar, og gera því mögulegt að hefja búskap og sjálfsbjörg úti um byggðir landsins? Ég ætla, að það sé. Ég hygg, að þessari þjóð verði það notadrýgst að reyna að efla þá atvinnuvegi, sem fyrir eru, og þá fyrst og fremst — eftir minni meiningu — landbúnaðinn. Eins og verkaskiptingu eða atvinnuháttum okkar er varið, þá tel ég, að það muni vera hyggilegast. Þetta er á engan hátt sagt til þess, að maður vantreysti eða kasti rýrð á hinar atvinnugreinarnar, svo sem sjávarútveg og iðnað. Iðnaðurinn er nauðsynlegur og gagnlegur okkur, en því aðeins, að minnsta kosti eins og enn er ástatt hjá okkur, mun hann taka þrifnaði, að sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn gangi allvel í þessu landi.

Landbúnaðurinn hefur það í sér fólgið — sú starfsemi eða sá atvinnurekstur — að það er sjaldnast skjóttekinn mikill gróði, en ef forsjálega er að farið, þá er það nokkuð öruggur atvinnuvegur og má teljast öruggur til bjargræðis fyrir þjóðfélagið. Hitt er vitanlegt, að þegar starfsemi, sérstaklega hvað sjóinn áhrærir, gengur vel, þá er þar skjótfenginn gróði og oft mikill. En svipull er sjávarafli. Það hefur jafnan verið svo, og má búast við því, að það kunni að verða þannig áfram. Þess vegna er ekki hyggilegt fyrir okkur að ætla að byggja afkomu þjóðarinnar um of á þeirri atvinnugrein. Og hvað áhrærir aukningu iðnaðar til þess að taka á móti fólki langt umfram það, sem er, og umfram það, sem þjóðin kann að þurfa sjálf með, þá er enn of snemmt að spá nokkru um það, hvernig það kann að ganga. Ég verð að segja fyrir mitt leyti, að stóriðja, þótt henni sé komið á, er því aðeins æskileg og eftirsóknarverð af okkar hálfu, að við getum sjálfir verið nokkurn veginn herrar yfir því kapítali, sem slík stóriðja byggist á. Ég fyrir mitt leyti er ekki fíkinn í það, að erlendir menn með mikið kapítal fari að starfrækja það hér á þann hátt, að við Íslendingar getum ekki ráðið nokkurn veginn óhindrað, hvernig sú starfsemi fer fram. Okkur ber að hafa í huga, að við erum fámenn þjóð á mælikvarða erlendra þjóða. Við erum ekki heldur rík þjóð. Þess vegna álít ég hyggilegast fyrir þjóðina að haga sinni starfsemi þannig í landinu, að hún þurfi ekki að vera svo mjög upp á slíkan atvinnurekstur komin, nema henni þyki gagnlegt og gott að slíku að vinna og hafi örugg yfirráð þeirrar vinnu. En slíkt getur ekki talizt öruggt, nema því aðeins að við höfum ráð á höfuðfjármunum, sem til slíkrar starfsemi eru settir. Þess vegna finnst mér, að allra hluta vegna eigum við að gera eitthvað verulegt, eitthvað mikið til þess að mæta nú óskum hins unga fólks í sveitunum með því að rétta því hjálparhönd, svo að það geti hafizt handa um myndun nýrra heimila og búið sig undir lífsstarfið úti um byggðir landsins. Það mun verða þessari þjóð notadrýgst og öruggast fyrir framtíðina að halda þannig á atvinnumálum sínum.

Ég vil svo leyfa mér að þessari umr. lokinni að leggja til, að málinu verði vísað til hv. landbn., og ég treysti hv. nefnd til þess að hraða afgreiðslu málsins, eftir því sem hún sér, sér frekast hægt.