10.11.1952
Neðri deild: 23. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í C-deild Alþingistíðinda. (3277)

124. mál, jarðræktarlög

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Í sjálfu sér væri hægt að færa margar og mikilvægar ástæður til stuðnings þessu máli, því að svo gagnlegt og nauðsynlegt er það, að greitt sé fyrir því, að ræktun landsins aukist. En ég ætla, að flestir hv. þdm. séu það kunnugir þessum málum, að þess gerist ekki þörf að fjölyrða svo mjög um það. Ég get líka skírskotað til þeirrar grg., sem fylgir frv., því að þar er drepið á nokkur þau höfuðatriði, sem máli skipta. Ég hygg, að það sé ekki hægt að mæla móti því, að eitthvert mikilvægasta verkefnið, sem fram undan er, er að rækta jörðina og gera hana færa til þess að gefa þeim, sem hana erja, mikinn arð. En eitthvert þýðingarmesta atriðið í þeim efnum er einmitt framræsla.

Víðs vegar um landið er sérstök aðstaða til þessara verka. Á stórum svæðum þessa lands er ekki hægt að auka túnrækt að neinu ráði, nema landþurrkun fari fyrst fram. Slíkt kostar afar mikið fé, og það skilar engu verðmæti fyrr en eftir nokkur ár. Framræsla lands til túnræktar er ekki í góðu lagi, nema því aðeins að eftir að landið er þurrkað standi það brotið í tvö til þrjú ár í minnsta lagi. Allir geta því séð, hvort það er ekki nokkuð þungt í vöfum hjá efnalitlum mönnum að annast þessar framkvæmdir.

Ég er þeirrar trúar, að hv. alþm. hafi gert sér grein fyrir því, að eftir því sem högum okkar þjóðar er háttað nú, þá er þetta eitthvert nauðsynlegasta og gagnlegasta verkið, sem þarf að sinna. Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um málið nú, í trausti þess, að hv. landbn. og alþm. geri sitt til þess að greiða fyrir framgangi þess.