18.11.1952
Neðri deild: 28. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í C-deild Alþingistíðinda. (3301)

147. mál, skipaútgerð ríkisins

Flm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Við höfum 4 þm. þessarar hv. deildar, þ. e. hv. þm. A-Sk., hv. þm. N-Þ., hv. þm. V-Húnv. og ég. leyft okkur að bera fram á þskj. 230 frv. til l. um Skipaútgerð ríkisins, þar sem lagt er til, að Skipaútgerðinni sé með l. markað starfssvið, ákveðin í stórum dráttum helztu verkefni hennar og sett ákvæði um réttindi og skyldur stofnunarinnar.

Það er öllum ljóst. að fátt er okkur Íslendingum eins nauðsynlegt og góðar og öruggar samgöngur á sjó, jafnt landa á milli sem með ströndum fram. Á síðustu áratugum hefur í þessu efni orðið mikil og farsæl þróun. Íslenzkt framtak og félagssamtök eru nú á góðum vegi með að taka í sínar hendur allar millilandasiglingar okkar og virðast fullfær um að leysa það verkefni. Hins vegar mun það ekki vera á færi annarra, en ríkisins, að annast þær strandferðir, sem fullnægja bæði vöru- og fólksflutningum hér við land. Það er erfitt og kostnaðarsamt að halda uppi siglingum alla tíma ársins með viðkomu á hverri höfn við okkar miklu strandlengju og það jafnt í dimmu og illviðrasömu skammdegi sem á nóttlausum vordögum. En þetta verður að gerast. Á þessari siglingaleið hafa röskir skipstjórnarmenn siglt skipum til mikilla nytja fyrir dreifbýlið, en ekki skipseigendum til fjár. Reynslan virðist því fyrir löngu hafa sýnt, að þessa sjálfsögðu og óhjákvæmilegu þjónustu verði ríkið að hafa með höndum, og þess vegna var Skipaútgerð ríkisins stofnuð fyrir meira en 20 árum. Á þessum tíma hefur Skipaútgerðin vaxið undir öruggri stjórn þess manns, sem frá upphafi hefur veitt henni forstöðu, og er hún orðin mikið fyrirtæki með allgóðum skipakosti og veltir nú árlega í krónum mörgum milljónatugum. Samkv. skýrslum og reikningum Skipaútgerðarinnar fyrir árið 1951 hafa skip hennar það ár komið við á milli 70 og 80 höfnum víðs vegar í kringum land, og samanlagðar viðkomur skipanna á þessum höfnum námu nokkuð á 4. þúsund. Þungavöruflutningarnir voru samtals yfir 40 þús. smálestir, og farþegaflutningur var yfir 24 þús. menn. Auk rekstrar strandferðaskipanna hefur Skipaútgerðinni verið á ýmsum tímum falin útgerðarstjórn annarra skipa, sem ríkið þarf að annast starfrækslu á, og ber þar fyrst og fremst að nefna varðskip ríkisins, og ef dæma má af eðli málsins og þeirri reynslu, sem fengizt hefur af starfsemi varðskipanna undir stjórn Skipaútgerðarinnar með yfirstjórn hlutaðeigandi ráðherra, þá verður tæplega um það deilt, að þeim málum er bezt fyrir komið á þann hátt, sem þetta frv. gerir ráð fyrir.

Það má segja, að frv. til l. um Skipaútgerð ríkisins sé vonum seinna fram komið, þar sem um svo stóra og umfangsmikla ríkisstofnun er að ræða, sem engu minni nauðsyn hefði verið að kveða á um í l. heldur en fjöldamargar aðrar ríkisstofnanir, sem sett hafa verið lög um. Má þar m. a. nefna vegamál, vita- og hafnamál, póst- og símamál, flugmál, raforkumál o. fl. Þetta frv. um Skipaútgerðina. sem nú kemur fram eftir meira en 20 ára starfsemi hennar, er stutt og einfalt í sniðum og inniheldur aðeins nauðsynlegustu ákvæði um starfssvið, skyldur og réttindi stofnunarinnar, sem í raun og veru má segja að í sumum tilfellum sé búin þegar að vinna sér hefð eða dómur reynslunnar hefur sýnt, að rétt hefur verið þar að unnið, og má þ. á m. nefna ákvæðin um, að útgerðarstjórn varðskipanna heyri undir Skipaútgerð ríkisins undir yfirstjórn þess ráðherra, sem slík mál eru á hverjum tíma falin til meðferðar. — Ég vil svo óska að, að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og samgmn.