10.12.1952
Sameinað þing: 24. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í C-deild Alþingistíðinda. (3353)

180. mál, tollskrá o. fl.

Frsm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þetta frv. á þskj. 412 er flutt af iðnn. þessarar d. að tilmælum Félags íslenzkra iðnrekenda. Málavextir eru þeir, að hraðfrystihúsin hafa þurft að flytja mikið af fiskumbúðum frá Ameríku, og nemur andvirði þeirra á s. l. ári 9,6 millj. kr. Þessar fiskumbúðir er hins vegar hægt að framleiða hér á landi, og hafa verið gerðar ráðstafanir til þess, að svo megi verða.

Tollur eða innflutningsgjöld af þessum erlendu umbúðum er aðeins 2,8%. Í núgildandi tollskrá er að vísu heimild til þess að endurgreiða aðflutningsgjöld af hráefni eða efni í þessar fiskumbúðir, en hins vegar er mjög hár tollur á þeim vélum, sem flytja þarf inn til þess að framleiða þær hér á landi. Sá tollur eða þau innflutningsgjöld nema hvorki meira né minna en 25–33% af vélunum, en tollurinn af þessum tilbúnu fiskumbúðum er aðeins 2,8%, eins og ég gat um.

Af þessum ástæðum er þetta frv. flutt og fer fram á viðbót við j-lið í 3. gr. tollskrár. Þessi j-liður hljóðar svo nú, að fjmrn. er heimilt „að endurgreiða aðflutningsgjöld eða hluta af þeim af umbúðum um innlendar framleiðsluvörur, sem sendar eru til útlanda til sölu þar, og af vörum, sem notaðar eru í vörur þessar til þess að gera þær söluhæfari eða til þess að þær geymist betur.“ Frv. fer fram á að bæta við þessa endurgreiðsluheimild heimild til að endurgreiða aðflutningsgjöld eða hluta af þeim af vélum, sem notaðar eru til framleiðslu á þessum umræddu umbúðum. Hér er um að ræða galla á tollskránni, þar sem tilbúnar vörur eru tollaðar tiltölulega lágt, en hins vegar nauðsynlegar vélar til að framleiða þær hér heima tollaðar mjög hátt. Virðist sjálfsagt að lagfæra þetta, og vinnst þá tvennt; annars vegar má með þessu spara verulegan erlendan gjaldeyri og í öðru lagi skapa hér aukna atvinnu í iðnaði.

Vænti ég þess, að hv. d. ljái frv. þessu fylgi.