31.10.1952
Efri deild: 19. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í C-deild Alþingistíðinda. (3550)

105. mál, verkmannabústaðir

Flm. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Á þinginu 1949 fluttu þm. Alþfl. frv. um útvegun fjár til byggingar verkamannabústaða. Þeir fluttu þetta frv. aftur á þinginu 1951, en í hvorugt skiptið fann frv. náð fyrir augum hv. þm. og hlaut því ekki afgreiðslu. Nú er þetta frv. flutt hér í þriðja sinnið, að mestu samhljóða hinum fyrri frv., þó að á því hafi verið gerðar tölulegar breyt. vegna breyttra aðstæðna.

Eins og hv. þdm. er kunnugt, byggja byggingarfélög verkamanna alla sína tilveru og starfsemi á því fé, sem þau fá að láni frá byggingarsjóði verkamanna, fyrir utan það framlag, sem meðlimir félaganna sjálfra leggja af mörkum til bygginganna. Framlag félagsmanna til bygginganna hefur á undanförnum árum verið nokkuð breytilegt og hækkandi, en núna hin alseinustu árin hefur það yfirleitt um land allt verið komið upp í 30% af þyggingarkostnaði, þannig að þau lán, sem byggingarfélögin þurfa að fá frá byggingarsjóðnum, nema 70% af kostnaðarverði bygginganna. Þessa fjár hefur byggingarsjóðurinn aðallega aflað með þrennu mótí. Hann fær fast framlag frá ríkissjóði og sveitarfélögum, og er mér sagt, að þetta framlag nemi á árinu 1952 um 3,3 millj. kr. En við þetta er þó að athuga, að byggingarsjóðurinn mun ekki hafa getað ráðstafað allri þeirri uþphæð til útlána, því að eitthvað af henni fer til að borga vaxtamismun vegna lána, sem sjóðurinn hefur orðið að taka með óhagstæðari kjörum en hann lánar peningana út aftur fyrir til byggingarfélaganna, þannig að það mun vera innan við 3 millj. kr. af þessari upphæð, sem byggingarsjóðurinn hefur til ráðstöfunar. Auk þess fær byggingarsjóðurinn lágt fast framlag frá ríkissjóði, en aðalmöguleika sína til hjálpar byggingarfélögunum hefur sjóðurinn þó í því ákvæði í lögunum um byggingarsjóð, sem heimilar honum að taka innlend lán með ríkisábyrgð til starfsemi sinnar. Á undanförnum árum hefur byggingarsjóðurinn mjög þurft á þessari lánsheimild að halda, og þó að starfsemi hans hafi hvarvetna átt miklum skilningi og velvild að mæta og allir þeir, sem hann hefur þurft að skipta við, hafi tekið vel á hans málum og greitt fyrir þeim eins og frekast hefur verið hægt, þá fer því mjög fjarri, að byggingarsjóðurinn hafi fengið lán til starfsemi sinnar eins og nauðsynlegt hefði verið, miðað við þá eftirspurn, sem er eftir lánum úr sjóðnum.

Á það hefur verið bent og það skal viðurkennt, að það var sjóðnum talsvert mikll hjálp, úr því sem komið var, þegar hann á árinu 1950 eða 1951 fékk greitt frá bönkunum eða ríkissjóði nokkurn hluta af þeim hagnaði, sem varð af gengisbreytingunni, og mun sú upþhæð hafa numið um 7 millj. kr. Það var sjóðnum líka mikil hjálp, úr því sem komið var, þegar hann á þessu ári fékk 4 millj. kr. af tekjuafgangi ársins 1951. Þetta hjálpaði sjóðnum að sjálfsögðu mikið og varð til þess, að starfsemi sjóðsins gat orðið með nokkuð öðrum hætti en ella hefði orðið. Hinu má hins vegar ekki gleyma, þegar um þetta er rætt, að þær tekjur, sem sjóðnum þarna bættust af gengisbreyt., áttu sér þann aðdraganda, sem varð sjóðnum alldýr og byggingarstarfseminni yfirleitt til hinnar mestu ógæfu. Það hefur verið athugað af fróðum mönnum, hversu mikið byggingar Byggingarfélags verkamanna í Reykjavík hafi hækkað í verði vegna gengisbreytingarinnar á sínum tíma. Þegar gengisbreyt. kom til framkvæmda, hafði félagið í smíðum 40 íbúðir, og hver þeirra hækkaði við gengisbreyt. um 20 þús. kr., þannig að áfall þessa flokks vegna gengisbreyt. varð 800 þús. kr. Nú hefur félagið í smíðum 20 íbúðir, og er hver þeirra 88 þús. kr. dýrari í byggingu en hefði orðið, ef genginu hefði ekki verið breytt, og allur flokkurinn, 20 íbúðir, um 1 millj. 760 þús. kr. dýrari. Þannig hefur kostnaðarverð þeirra íbúða, sem byggðar hafa verið í Reykjavík síðan genginu var breytt, hækkað um rösklega hálfa þriðju milljón. Þetta er eingöngu í Reykjavík, og er þá landið að öðru leyti eftir, og munu framkvæmdirnar ekki vera minni þar, þannig að á þeim tíma, sem nú er liðinn og er að liða síðan gengisbreyt. varð, er það lán, sem sjóðurinn fékk vegna gengisbreyt., eiginlega að mestu leyti þorrið og eingöngu í hækkaðan byggingarkostnað.

Eins og sakir standa hjá sjóðnum nú, á hann í fjárhagserfiðleikum miklum og engar líkur til þess, að hann geti mætt nema að mjög takmörkuðu leyti þeirri óhjákvæmilegu þörf, sem á hann leitar vegna byggingarstarfsemi byggingarfélaganna. Þetta frv., sem hér liggur fyrir. er því flutt í þeim tilgangi að reyna að skapa byggingarsjóðnum þær tekjur á næstu fjórum árum, sem nægja til þess, að sjóðurinn geti haldið áfram nokkurn veginn með sæmilegum hætti.

Í 1. gr. frv. er lagt til, að á árunum 1953–56 skuli ríkisstj. tryggja sölu á skuldabréfum, sem sjóðurinn gefur út með ríkisábyrgð, þannig að sjóðurinn hafi til umráða allt að 30 millj. kr. á hverju af þessum fjórum árum. Í frv. þeim, sem Alþfl.-menn fluttu á fyrri þingum um mjög svipað efni, var farið fram á lægri upphæð en hér er farið fram á nú. Í frv. 1949 var farið fram á það að sjóðnum yrðu tryggðar 14 millj. á ári til útlána. Þessi upphæð var miðuð við það, að sjóðurinn gæti hjálpað til að koma upp 200 íbúðum. Verð hverrar íbúðar á árinn 1949 var um 108 þús. kr., og hefðu því 14 millj. til útlána á ári nægt sjóðnum til að mæta því. En eins og ég gat um áður, þá var þetta frv. því miður ekki samþ. Þegar frv. var flutt aftur á árinu 1951, þurfti að hækka upphæðina upp í um 25 millj. kr., því að þá var íbúðarverðið komið upp í 160 þús., og hefði því þurft um þá upphæð til þess að geta byggt 200 íbúðir. Nú, þegar þetta frv. er flutt í þriðja sinnið, kostar 80 fermetra íbúð í byggingu um 220 þús. kr., og kosta því 200 íbúðir um 44 millj., og miðað við 30% framlag frá kaupendum íbúðanna þarf sjóðurinn að hafa til ráðstöfunar á ári um 30 millj. kr. til að koma upp 200 íbúðum.

Eins og ég gat um áðan, þá eru fastar tekjur sjóðsins, sem hann hefur til ráðstöfunar, eitthvað innan við 3 millj., og er það því á milli 27 og 28 millj. kr., sem þarf að tryggja sjóðnum árlega, til þess að hægt sé að ná þeim 30 millj., sem frv. fer fram á.

Þær leiðir, sem frv. leggur til að farnar verði í þessum efnum, eru fyrst og fremst þær, að í 4. gr. þess er ákveðið, að ríkissjóður skuli sjálfur kaupa skuldabréf sjóðsins fyrir 4,5 millj. á ári. En það, sem þá vantar á til þess að ná 30 millj. kr., er gert ráð fyrir að ríkisstj. ýmist semji við banka og peningastofnanir um að lána, en að svo miklu leyti sem samningar ekki takast, þá sé ríkisstj. fyrirlagt að setja reglur um lánveitingar þeirra stofnana og tryggingarfélaga, sem ávaxta fé í verðbréfum eða útlánum á annan hátt, og er ríkisstj. heimilað að ákveða svo í reglum þessum, að þessum aðilum skuli skylt að ráðstafa ákveðnum hluta þess fjár, sem þeir verja til verðbréfakaupa á árunum 1953–56, til kaupa á skuldabréfum þeim, sem sjóðurinn gefur út samkv. heimild í lögum þeim, sem um hann gilda.

Það var athugað fyrir fáum árum, hversu mikið fjármagn þær stofnanir, sem hér um ræðir, lánuðu út á ári. Sú athugun benti til þess, að það væri um 36 millj. kr. á ári. Ég veit ekki nákvæmlega, hvaða breyt. hafa orðið á þessari upphæð síðan sú athugun var gerð. En ég hef fulla ástæðu til að ætla, að þar sé um nokkra og ekki óverulega hækkun að ræða, þannig að þessum sjóðum, sem hér er átt við, ætti ekki að vera um megn að ráða fram úr þessu.

Ég þykist ekki þurfa að gera neina sérstaklega ýtarlega grein fyrir því hér, hversu brýn þörf er á því, að byggingarsjóður verkamanna sé efldur, svo að hann geti haldið áfram og aukið sína starfsemi. Það er öllum kunnugt, að í kaupstöðum landsins og ekki sízt hér í sjálfri höfuðborginni býr mikill fjöldi fólks við algerlega óviðunandi húsakost. Hér eru ótal kjallaraíbúðir, sem ekki geta talizt hæfar til íbúðar og margar barnafjölskyldur verða að hrúgast niður í, að ógleymdum þeim bröggum, sem eru hér víðs vegar um bæinn og margir hverjir eru í slíku ástandi, að enginn, sem ekki hefur séð það með eigin augum, mundi trúa. Þörfin á því að létta undir með byggingarfélögunum og hjálpa þeim til að halda áfram sinni starfsemi er því alveg ótvíræð. Í félögunum bíða nú um land allt fjölmargar fjölskyldur eftir íbúðum, og í Byggingarfélagi verkamanna í Reykjavík, svo að dæmi sé nefnt, bíða nú a. m. k. ekki færri en 600 fjölskyldur eftir að fá þar íbúð. Síðan félagið var stofnað, rétt í stríðsbyrjun, hefur það því miður ekki getað byggt yfir meira en 220 fjölskyldur, og hefur félagið þó alla tið haldið áfram að byggja eins og það hefur frekast getað fengið peninga til. Þörfin á aðstoð hins opinbera til þessarar starfsemi er því ótvíræð, og verður ekki um hana deilt.

Ég hef heyrt menn halda því fram, að hugmyndin um smáíbúðarhúsin, sem mjög hefur verið haldið á lofti nú að undanförnu, kynni að verða þess megnug að leysa byggingarfélög verkamanna af hólmi, þannig að styrkur til smáíbúðarhúsanna ætti að vera fullnægjandi og ekki væri þörf á starfsemi byggingarfélaganna í framtíðinni. Ég skal fúslega viðurkenna, að það, sem gert hefur verið til þess að létta undir með smáíbúðarhúsabyggingunum, hefur orðið að miklu gagni. Og það er hið þarfasta verk, sem sjálfsagt er að halda áfram og reyna að greiða fyrir eins og hægt er. En hitt er jafnvíst, að sú starfsemi er þess ekki umkomin að taka við því hlutverki, sem byggingarfélög verkamanna hafa haft með höndum til þessa og hljóta að hafa með höndum í framtíðinni. Veldur því margt. Fyrst og fremst er það staðreynd, að sú opinbera aðstoð, sem menn fá til byggingar þessara smáhúsa, er það lítil og það takmörkuð, að það er ekki á færi annarra en þeirra, sem eru nokkuð vel fjárhagslega stæðir fyrir, að ráðast í slíkar byggingar. Er það margathugað mál, að það er ekki nema að mjög takmörkuðu leyti á færi þess fólks, sem í verkamannabústaðafélögunum er og bíður eftir að fá þar íbúðir, að ráðast í og ráða við þessar smáhúsabyggingar, þannig að sú lausn kemur, eins og málið horfir núna við, ekki til með að leysa vanda þeirra, sem verst eru staddir. Svo er einnig annað, sem ekki má gleyma í þessu sambandi, og það er, að þessar smáhúsabygging.ar hafa reynzt til muna dýrari en íbúðir þær, sem byggðar eru í verkamannabústöðunum.

Ég hef fengið mjög vel færan mann til þess að kynna sér það fyrir mig, hvaða kostnaður sé við byggingu þeirra smáhúsa, sem verið hafa að rísa upp hér í bænum og kringum bæinn nú að undanförnu. Hann hefur átt aðgang að reikningum og uppgjörum frá mörgum mönnum, sem byggt hafa slík hús, og niðurstaða þeirrar athugunar er sú, að rúmmetrinn í þessum smáhúsum kostar í byggingu ekki undir 735 krónum. Í þeirri upphæð er tekið tillit til þeirrar vinnu, sem eigendur íbúðanna leggja fram sjálfir. Í verkamannabústöðunum hins vegar kostar rúmmetrinn í 80 fermetra íbúðum, sem félögin hafa verið að byggja og eru mjög sambærilegar við smáhúsin, um 586 kr. Það er því alveg ljóst, að byggingarnar eru ódýrari hjá byggingarfélögum verkamanna en smáhúsin, þó að það skuli hins vegar fúslega viðurkennt, að það er mikill kostur. að eigendur emáhúsanna sjálfir geta lagt fram vinnu sína og sinna nánustu. En tölurnar sýna hins vegar greinilega, að íbúðirnar í verkamannabústöðunum eru ódýrari í byggingu en í smáhúsunum, enda hefur reynslan, t. d. hér í Reykjavík, ætíð verið sú, að verkamannabústaðirnir eru ódýrustu byggingarnar, sem hér hafa nokkru sinni verið byggðar, og byggingarfélögin hafa ætið getað skilað byggingarkostnaði, sem hefur verið mjög verulega undir vísitölu hagstofunnar um byggingarkostnað í Reykjavík. Það má líka á það benda, að þessi smáhús eru náttúrlega miklu dýrari fyrir bæjarfélögin en byggingar eins og þær, sem byggingarfélög verkamanna hafa verið með. Veldur því miklu meiri gatnagerð, vatnsleiðslur, rafmagnsleiðslur og annað, sem því fylgir að byggja hús á dreifðu svæði í stað þess að hafa þau fleiri saman.

Reynslan hefur þannig sýnt, þegar litið er á samanburðinn á verkamannabústöðunum og smáhúsunum, að þó að smáhúsin hafi þann kost, að fólkið getur sjálft við þau unnið, þá eru hinar ibúðirnar ódýrari fyrir þá, sem byggja, og sveitarfélögin. Og byggingarfélögin gefa fjölda fólks færi á að eignast íbúð, sem ekki gæti eignazt smáhús og mundi, ef verkamannabústaðirnir hjálpuðu ekki til, verða að halda áfram að búa í óviðunandi kjallaraíbúðúm og bröggum.

Ég vænti þess, að ég hafi gert nokkuð ýtarlega grein fyrir þessu frv. Ég þykist vita, að mönnum þyki vera farið hér fram á nokkuð stórar fjárhæðir, en það er eingöngu gert vegna þess, að þörfin fyrir þessa aðstoð er svo brýn og byggingarfélög verkamanna hafa sýnt það með allri sinni starfsemi frá fyrstu tíð og fram á þennan dag, að þau eru þess makleg, að þau séu styrkt og að þeim sé hjálpað til að halda áfram sinni starfsemi. Ég vil því mega vænta þess. að þetta frv. fái nú betri móttökur hér en það hefur áður fengið, og leyfi ég mér að leggja til, að því verði vísað til 2. umr. og nefndar. Það kann að vera nokkur vafi á um, í hvaða n. frv. eigi að fara. Ég leyfi mér að leggja til, að það fari í allshn., þó að ég leggi ekki á það neina sérstaka áherzlu, hvaða n. tekur við því.