18.11.1952
Efri deild: 28. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í C-deild Alþingistíðinda. (3584)

150. mál, skógrækt

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Ég þarf ekki miklu við þetta að bæta. Þetta frv. er flutt eftir að gerðar hafa verið um það á fundum Skógræktarfélagsins margar samþykktir að koma þessu málefni fram, sem hér um ræðir. Er það um nokkru ríkari rétt skógareiganda til þess að lóga sauðfé, sem sækir í skóga, heldur en verið hefur í l. Það er vitanlega mikil ástæða til þess að athuga þetta mál í n., vegna þess að þetta er viðkvæmt mál. Málið hefur að vísu verið borið undir búnaðarþing, sem hefur gert ákveðnar till. í málinu. En því er ekki að leyna, að í þessu frv. er gengið nokkru lengra um rétt skógareiganda heldur en búnaðarþingið hefur fallizt á í sínum till.. og er ástæða fyrir landbn., sem fær þetta mál til meðferðar, til að bera þetta ýtarlega saman. — Ég ætla svo ekki að orðlengja frekar um þetta. Það er eitt aðalatriðið að n. athugi þetta mál mjög gaumgæfilega, því að þetta er að verða eitt af viðkvæmari málum hér í þessu landi, — réttur skógareiganda annars vegar og réttur þeirra, sem lifa af sauðfjárrækt, hins vegar. Og skal ég svo ekki á þessu stigi fjölyrða meira um þetta mál.