31.01.1953
Efri deild: 61. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í C-deild Alþingistíðinda. (3718)

145. mál, skipun læknishéraða

Haraldur Guðmundsson:

Mér þykir skylt að svara fyrirspurnum hæstv. ráðherra. Fyrri fyrirspurninni ber að svara á þá leið, að sjúkrasamlög yfirleitt hafa héraðslæknana fyrir sína samlagslækna, og þá vinna héraðslæknarnir eftir taxta héraðslækna, sem er mun lægri að sjálfsögðu, heldur en taxti embættislausra lækna. Um það, hve mikill hluti af Kópavogsbúum mundi kjósa að skipta við héraðslækninn og hafa hann fyrir sinn samlagslækni, þori ég ekki að fullyrða. Ég tel engar líkur til þess, að samlagið mundi banna sínum meðlimum að leita til lækna í Reykjavík, en þá er náttúrlega á valdi þess að ákveða, hve mikinn hluta af þeim kostnaði það greiði. Að því er snertir búsetu einhvers embættislauss læknis í Kópavogshéraði nú, þá get ég ekki upplýst um það. Samningurinn er við Læknafélag Reykjavíkur um greiðslur fyrir læknisvitjanir og bíla í því sambandi, og ég hygg, að sama taxtaákvæði gildi, hvort sem læknirinn er búsettur nálægt Kópavogslæknishéraði, í því eða í hinum endanum á Reykjavík, sem fjærst liggur. Ég held, að það sé einn allsherjartaxti, sem gildi án tillits til þeirrar vegarlengdar, sem hver einstakur læknir kann að fara í hvert skipti. — Ég ætla, að ég hafi nú svarað spurningum hæstv. ráðherra.