28.01.1953
Neðri deild: 58. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í C-deild Alþingistíðinda. (3722)

192. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið. Ég vil aðeins benda á það, að útflutningsgjaldið, sem frv. gerir ráð fyrir að verði á ný lagt á útfluttan saltfisk, var tekið af saltfiski í mörg ár, eða fram til ársins 1948, að það var fellt niður, eða sá hluti þess, sem runnið hafði til Fiskveiðasjóðs Íslands. Hefur fiskveiðasjóður því verið sviptur þessu útflutningsgjaldi nú í 4 ár.

Það má e. t. v. segja, að það sé rangt að fylgja þeirri stefnu, sem fylgt hefur verið um langt tímabil, að taka útflutningsgjöld af þeim afurðum, sem við seljum til annarra landa. Það væri í sjálfu sér miklu eðlilegra, að það væru gefin verðlaun fyrir það að geta flutt sem mest af afurðum úr landi, en í stað þess hefur verið tekin sú venja hér á hæstv. Alþ., að þeir, sem framleiða íslenzkar afurðir til sölu á erlendum markaði, skuli greiða ýmiss konar útflutningsgjöld af þeim.

Aðrar þjóðir — og vil ég þá sérstaklega benda á Norðmenn, frændþjóð okkar — hafa í fjöldamörg ár borgað útflutningspremíu af útfluttum vörum, og hefur hún numið allháum upphæðum. Ég minnist þess, að á árunum frá 1930 til 1938 borguðu Norðmenn útflutningspremíu, sem nam 30 norskum kr. á hvert verkað skippund saltfisks, sem selt var úr landi. Á sama tíma var fiskútflytjendum gert að skyldu að greiða rúm 2% í útflutningsgjöld.

Ég er einn þeirra manna úr sjútvn., sem að þessu sinni mæla með því, að umrætt útflutningsgjald verði lagt á saltfisk á ný, sökum þess að þetta 1½% útflutningsgjald, sem renna á til fiskveiðasjóðs, er tekið af öllum öðrum afurðum sjávarútvegsins.

Það er rétt að benda á það, að þessu gjaldi var létt af 1948 sökum þess, að þá var óvenjulega erfitt árferði í sambandi við sölu saltfisks. Nú er allt annað fyrir hendi. S. l. ár var mjög hagstætt í sambandi við saltfisksöluna og því í sjálfu sér alveg eðlilegt og sanngjarnt, þar sem við á annað borð fylgjum þeirri reglu að taka útflutningsgjöld af íslenzkum afurðum, að það sé einnig tekið af saltfiski.

Hv. þm. N-Þ. hefur réttilega bent á það, hversu mikil þörf er á því fyrir sjávarútveginn að fá meira fé til rekstrar síns. Eins og málin horfa nú við, virðist fiskveiðasjóður vera eina stofnunin, sem að einhverju leyti getur leyst þann vanda, en þó á mjög takmarkaðan hátt. Er þess vegna mjög nauðsynlegt að efla fiskveiðasjóð, bæði á þann hátt, sem hér um ræðir, og á öðrum sviðum, svo að hann geti aðstaðið í sambandi við lánaþörf sjávarútvegsins og þær ýmsu iðjugreinar, sem vinna úr afurðum hans.

Ég tel eftir atvikum rétt, að það frv., sem hér liggur fyrir frá meiri hl. sjútvn., verði samþ. að þessu sinni, og vona, að hv. dm. geti fallizt á að samþ. það. En í framtíðinni vona ég, að uppi verði aðrar stefnur um útflutningsgjöld á afurðir landsmanna.