02.12.1952
Neðri deild: 33. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í B-deild Alþingistíðinda. (514)

13. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Hér er nú komið fram einu sinni enn frv. um það að framlengja söluskattinn. Nú fyrir nokkrum dögum var verið að ganga hér frá á Alþ. áætlun um þennan söluskatt á næsta ári. Í þeirri áætlun er gert ráð fyrir, að söluskatturinn muni nema 83 millj. kr. Það er því alveg augljóst mál, að hér er um slíkan skattstofn að ræða, að það er ekki nema eðlilegt, að nokkrar umr. séu um till. um að framlengja þennan skatt og að það verði nokkuð rifjað upp, hvernig þessi skattur er til kominn og hvaða áhrif þessi skattur hefur á afkomu fólks í landinu og þá ekki siður afkomu atvinnuveganna.

Ég minnist þess í þessu samhandi, að það mun hafa verið árið 1946, eða á tímum nýsköpunarstjórnarinnar, að gripið var til þess ráðs eitt árið að leggja á svo nefndan veltuskatt. Það var gert ráð fyrir því, að með þeirri skattálagningu yrði hægt að innheimta í kringum 10 millj. kr., því að skatturinn var ekki sérlega hár, og þá var því lýst hér yfir á Alþ., að þessi skattinnheimta yrði aðeins fyrir það eina ár. Þá var það einnig bundið í lögum, að þessi svo nefndi veltuskattur átti að vera skattur eingöngu á verzlunina í landinu, á alla þá, sem hafa með verzlun að gera, kaupmenn og einnig samvinnufélög. Þessir aðilar áttu að greiða skattinn, en þeim var stranglega bannað að leggja þennan skatt á vöruverðið, að hækka álagningu sína eða hækka útsöluverð á vörum að nokkru leyti þrátt fyrir skattinn. Ég man líka eftir því, að sá ræðumaður, sem hér var uppi í ræðustólnum nú næst á undan mér, hæstv. fjmrh., var um þetta leyti í stjórnarandstöðu. Hann talaði þá hér æði oft, eins og hann gerir reyndar oft hér á Alþ., og hann hélt margar ræður um þennan svo nefnda veltuskatt. Þá sagði hann hér á Alþ., sem viða má finna í alþingistíðindum, að þetta væri óréttlátasti skatturinn, sem nokkurn tíma hefði verið lagður á, á Íslandi, hann væri svo ósanngjarn, að furðu sætti, að nokkur leyfði sér að bera fram till. um að leggja hann á þjóðina. Blað hæstv. fjmrh., Tíminn, skrifaði hverja greinina á fætur annarri um þennan óréttláta söluskatt eða veltuskatt og þá ósvífni, sem í því fælist að leggja hann á. —Það liðu nú ekki nema ég held tæplega tvö ár eða svo. Þá var þessi sami maður, núverandi hæstv. fjmrh., kominn í ríkisstj., og þá stóð hann að því, að söluskatturinn núverandi var lagður á. Hann hét að vísu í þetta skipti ekki veltuskattur eins og áður. Það var búið að skipta um nafnið, og nú hét hann söluskattur. En öll ákvæði þessarar skattaálagningar, allar greinar þessa nýja frv. voru orðréttar frá stafi til stafs, frá greinarmerki til greinarmerkis eins og var í hinum eldri lögum, sem mest hafði verið skammazt út af, nema það eina ákvæði var nú í þessum nýju l., að nú mátti hækka vöruverðið sem skattinum nam. Nú gátu sem sagt kaupmenn og kaupfélög og allir þeir, sem með verzlun fóru, hækkað vöruverðið sem skattinum nam. Það var hægt að auka dýrtíðina á þennan hátt. Þetta var eini munurinn á skattinum: Nú var hann líka góður. Nú gat líka hæstv. fjmrh. m.a. staðið að því að leggja þennan skatt á. Þegar söluskatturinn var lagður á með sínu núverandi nafni, þá var svo komið, að hann var réttlættur með því, að hann ætti að standa undir þeim greiðslum, sem ríkið yrði að taka á sig vegna fiskábyrgðarinnar. Hvað sem hæstv. fjmrh. segir nú um þennan skatt og með hvaða peningum ríkisábyrgðin á útfluttum fiski hafi á sínum tíma verið greidd, þá var það svo, að hér á Alþ. var því lýst yfir, þegar söluskatturinn var lagður á, að hann væri lagður á til þess að standa undir þessum ákveðnu greiðslum ríkissjóðs, hann væri lagður á vegna afkomuvandræða bátaútvegsins. Og í sjálfum l., í sjálfum kaflanum, sem nú er verið að óska eftir með þessu frv. að framlengja, þar segir orðrétt á þessa leið:

„Stofna skal sérstakan sjóð, er nefnist dýrtíðarsjóður ríkisins. Skal honum varið til þess að standa straum af greiðslum vegna ábyrgðar ríkisins á verði útfluttrar vöru.“

Þetta er upphaf þessa kafla, sem hér er lagt til að framlengja. Síðan kemur skilgreiningin á skattinum sjálfum, sem átti að renna í þennan dýrtíðarsjóð til þess að standa undir fiskábyrgðinni. Engar afsakanir um það, að afkoma ríkissjóðs hafi að öðru leyti verið orðin svo slæm, að ríkissjóður hafi þurft á þessum skatti að halda til annarra þarfa, koma því máli við, að þessi skattur var á sínum tíma lagður á og afsakaður með því, að hann ætti að standa undir þessum ákveðnu greiðslum. Ríkissjóður hafði sannarlega bundið sér skyldur í sambandi við fiskábyrgðina og þurfti sannarlega að greiða ákveðnar upphæðir vegna fiskábyrgðarinnar, hvort svo sem það voru þessir peningar eða einhverjir aðrir, sem gengu til þess. En svo var fiskábyrgðin afnumin með l. Fyrsti kafli þessara l., dýrtíðarlaganna, sem var um fiskábyrgðina, skyldur ríkissjóðs í sambandi við fiskverð, hann var afnuminn. En þriðja kaflann, um það, hvernig ríkissjóður ætlaði að fá sér tekjur til þess að standa við þessa ábyrgð, hann á nú að framlengja einu sinni enn. Fiskábyrgðin var afnumin, en í staðinn fyrir fiskábyrgðina kom gengisbreytingin. En þrátt fyrir það varð það hlutskipti núverandi hæstv. fjmrh. að leggja til, að þessum stóra skattstofni yrði haldið áfram. En það var ekki nóg með það, að söluskatturinn ætti að framlengjast. Hann hefur smám saman, jafnt og þétt verið hækkaður. Hann hefur verið hækkaður stórkostlega frá því, sem hann var á sínum tíma, þegar hann var lagður á. Rétt áður, en ég gekk hér upp í ræðustólinn, þá leit ég á tölur fjárlaga fyrir árið 1948. Þar var gert ráð fyrir, að söluskatturinn mundi nema 19 millj. kr. En nú er gert ráð fyrir, að hann muni nema 83 millj. kr. Og sannanir liggja fyrir um það, að söluskatturinn hefur ekki aðeins reynzt 83 millj., heldur mun hann hafa farið nokkru hærra, sum árin.

Söluskatturinn kemur æði hart við marga landsmenn: Því hefur áður verið haldið fram hér á Alþ., og ég hygg, að það muni ekki vera fjarri lagi, að söluskatturinn muni þýða í almennri verðhækkun á vörum í landinu í kringum 11– 12%. Og mér þykir það ekki ótrúlegt, að slíkur skattur, sem hvílir á vöruverðinu og síðan hvílir álagningarprósenta einnig ofan á þessum skatti, muni nema í hinu almenna verðlagi hækkun, sem nemur 11–12%.

Ég skal nú ekki segja um það, hvernig reikningur sá, sem hæstv. fjmrh. minntist hér á í ræðu sinni, um tiltölulega fá vísitölustig, sem þessi skattur ætti að nema, er til kominn, en það eitt er víst, að hversu rangur grundvöllur. sem vísitalan er og hversu skakka mynd sem hún kann að gefa í sambandi við þetta mál, þá fær það ekki breytt þeirri staðreynd, að 83 millj. kr., sem lagðar eru ofan á vöruverðið í landinu og skapa síðan enn aukna álagningu verzlunarstéttarinnar, hljóta að hvíla með miklum þunga á vöruverðinu í landinu. Það kemur jafnþunglega við almenning í landinu, hvort svo sem það hefur hækkandi áhrif á vísitöluvörurnar, sem eru tiltölulega takmarkaðar, eða einnig aðra vöruflokka, sem eru meira og minna eða algerlega fyrir utan vísitölugrundvöllinn.

Það er nú um þessar mundir sérstakt vandamál Alþ., hvernig verði svo búið að aðalatvinnuvegum landsmanna, eins og t.d. bátaútveginum, að hann geti haldið áfram fullum rekstri. Hagur bátaútvegsins fer síversnandi, og svipað má segja um hag ýmissa annarra starfsgreina í landinu. En þessi söluskattur hvílir æði þungt m.a. á bátaútveginum og öllum atvinnurekstri í landinu, ekki aðeins í því formi, að hann stórhækkar allt verðlag og framkallar þannig hækkandi kaup, heldur einnig sem bein skattlagning á rekstrarvörur framleiðslunnar.

Ég kynntist því nýlega, að útgerðarmaður, sem var að kaupa sér vél í bátinn sinn, venjulegan fiskibát, varð núna að greiða í þennan söluskatt rösklega 21 þús. kr. — bara í söluskatt af vélinni, sem átti að fara í bátinn. Ég hef það fyrir satt, að aðeins af því sérstaka dæmi, þegar við tökum nýsköpunartogara hérna upp í Slippinn í Reykjavík og látum mála hann á venjulegan hátt, þá nemi þessi skattlagning í kringum 2.000 kr. bara á því verki einu í hvert skipti. Við höfum ótal dæmi um það, hvernig rekstrarvörur framleiðslunnar, efni og tæki t.d. til bátaútvegsins, hækka stórkostlega í verði vegna þessa skatts. Það virðist því ekki vera nema full ástæða til þess, að á það sé minnt nú, þegar komið er út í almenna vinnustöðvun af kröfum, sem fram eru komnar um hækkað kaup, en þær eru aftur bein afleiðing af því, að dýrtíðin fer sífellt hækkandi og kaupmáttur launanna fer minnkandi, — þá virðist ekki vera nema full ástæða til þess að minna nú á það, að þennan stóra skatt, sem nú er verið að leggja til að framlengja einu sinni enn, á raunverulega ekki að framlengja, hann hefur verið lagður hér á undir fölskum forsendum. Hann er ekki lengur lagður á í því tilefni, sem í l. segir, hann er notaður til allt annars, og hann ætti því annaðhvort að stórlækka eða afnemast með öllu.

Ég veit, að hæstv. fjmrh. og ríkisstj. öll muni segja, að það sé hægara sagt, en gert, að aflétta jafnstórum tekjustofni ríkisins, að það muni verða nokkuð mikill vandi fyrir ríkissjóð að sjá sér farborða, ef þessi tekjustofn ríkisins verði skertur. En hæstv. ríkisstj. má líka vita það, að eins og þarna mun verða talsverður vandi fyrir sjálfan ríkissjóð að verða þarna af nokkrum tekjum, t.d. með lækkun á skattinum,. þá er það einnig mikill vandi fyrir almenning í landinu að taka við þessum látlausu hækkunum, án þess að þessi sami almenningur bregðist við og heimti sínar bætur í staðinn. Ríkisstj. má líka vita það, að það er líka mikill vandi fyrir atvinnuvegina í landinu að taka við þessum hækkunum, sem leiðir m.a. af þessum skatti, og að eiga að sjá sér farborða, að tryggja reksturinn áfram undir þessum kringumstæðum. Margir þættir framleiðslunnar hafa þarna enga möguleika. Þeir verða að taka við því, sem að þeim er rétt. Þeir verða að sætta sig við það verð, sem fæst fyrir framleiðsluna á erlendum markaði. En þeir verða líka að borga þau útgjöld, sem á eru lögð á hverjum tíma. Það rís í þessu efni mikill vandi upp hjá þeim engu síður, en hjá hæstv. ríkisstj. Og einmitt af því, að þessi vandi rís á þennan hátt, þá er nú komið til þeirra vinnudeilna, sem bæði atvinnurekendur og verkafólk eiga við að glíma þessa dagana. Ég held sem sagt, að hæstv. ríkisstj. megi ekki taka þetta mál svo einfaldlega, að hún vilji aðeins víkja sér undan þeim vanda, hvernig hún á að mæta því, ef tekjur ríkissjóðs fara nokkuð minnkandi, en láti hitt svo að mestu afskiptalaust, hvernig atvinnuvegirnir bregðast við sínum vanda og hvernig almenningur í landinu bregzt við þeim vanda, sem hækkandi dýrtíð er fyrir hann.

En þá vil ég einnig minna á það í þessu sambandi, að hæstv. ríkisstj. er það vel kunnugt, að bæjar- og sveitarfélög í landinu eiga mörg við mikinn vanda að stríða í sínum fjárhagsmálum; og það hefur ekkert verið gert af hálfu ríkisvaldsins að reyna að aðstoða þau í þessum vanda. Þau hafa m.a. lagt það til, að þeim yrði ætlaður nokkur hluti af þessum skatti, ef hann á annað borð yrði lagður á, og á þann hátt yrði vandi þeirra að minnsta kosti gerður nokkru minni. Hvað segir hæstv. ríkisstj. við þessari málaleitun frá bæjar- og sveitarfélögum?

Mér sýnist sem sagt, að hæstv. ríkisstj. taki þetta á þann einfalda hátt, að hún vilji sjá ríkissjóði borgið og jafnvel það tryggilega, að ríkið komi út með allálitlegan tekjuafgang árlega, en að hún skjóti sér með öllu undan þeim vanda, sem á sama tíma er lagður á atvinnureksturinn í landinu, á almenning og m.a. á bæjar- og sveitarfélögin í landinu, sem eru að miklu leyti komin í alger vandræði. Ég tel, að það sé full ástæða til þess, að Alþ. geri nokkra breyt. á þessu frv., sem hér liggur fyrir, og lækki þennan skatt eitthvað og mæti á þann hátt að sínu leyti nokkuð þeim kröfum, sem nú eru uppi, og ríkisstj. sýni það, að hún vilji líka taka á sig nokkurn hluta af þeim vanda, sem aðrir hafa við að glíma núna, m.a. með því að horfast í augu við nokkuð minnkaðar tekjur ríkissjóðs.