25.11.1952
Neðri deild: 32. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í B-deild Alþingistíðinda. (587)

88. mál, hitaveitur utan Reykjavíkur

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki mörg orð að segja um þetta mál. Það er ekki nema smávægileg breyt., sem lagt er til af hálfu n. að verði gerð á frv. Það er aðeins upphaf 1. og 6. gr., sem lagt er til að breytt verði. Það er sakir þess, að n. telur, að það kunni að verða fleiri en eitt hreppsfélag eða bæjarfélag í félagi um hitaveitur og sé þess vegna réttara, að l. taki einnig til þess konar framkvæmda. — Þá er það, að á eftir 7. gr. komi ný gr., sem veiti því félagi, sem nú rekur hitaveitu, sams konar rétt og ætlazt er til að bæjar- og hreppsfélög hafi eftir þessum l., unz bæjar- eða sveitarstj. kann að óska eftir að innleysa til sín fyrirtækið. Núna er eitt félag, þ.e. Kaupfélag Árnesinga, sem hefur lagt hitaveitu á Selfossi og rekið hana, og ég ætla, að ég viti það rétt, að engir samningar eru til staðar milli kaupfélagsins og hreppsfélagsins á Selfossi um þetta. Eftir frv., eins og það er, mundi tæpast vera hægt að telja, að það tæki til slíks fyrirtækis. En við teljum réttara, að það sé gert ráð fyrir því.

Ég skal geta þess viðvíkjandi undirskrift nál., að það vantar þar einn nm. undir, hv. 5. þm. Reykv. (JóhH). Það er af misgáningi. Hann tók þátt í undirbúningi og afgreiðslu málsins, en hefur láðst að ná til hans með að fá hans undirskrift, og leiðréttist það hér með.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um málið frekar. Ég vænti, að hæstv. forseti láti það ganga áfram.