26.01.1953
Sameinað þing: 32. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 676 í B-deild Alþingistíðinda. (723)

1. mál, fjárlög 1953

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. samþm. mínum að flytja hér till. á þskj. 601 við 13. gr. A. XI, þ.e. styrk til gististaðahalds, að liðurinn hækki í 52 þús. kr. úr 32 þús. Við bárum fram við 2. umr. fjárl. till. um að styrkja Brynjólf Gíslason gistihúshaldara í Tryggvaskála. Það voru færðar ástæður fyrir þessari till. þá, m.a. með því, sem hann segir í bréfi, sem var mjög skýrt og skilmerkilegt, um þetta efni. Við tókum till. aftur við þá umr., ef ske kynni, að hv. fjvn. sæi sér fært að flytja hana við þessa umr. Það hefur nú ekki orðið, því miður, en við teljum ástæður svo ríkar fyrir þessu, að þess vegna komum við með till. á ný, nokkru minni en áður, en ef samþ. yrði, þá mundi það þó manninum nokkur styrkur. Því var borið við, að hér gæti verið um fordæmi að ræða, ef samþ. yrði. Þetta er ekki rétt. Á þessum lið er greitt fé í nákvæmlega sama tilgangi, og ég efast um, að það sé annars staðar öllu meiri þörf, þar sem slík greiðsla fer fram, — og vil ég þó á engan hátt rýra gildi þess, — heldur en þarna, eftir því sem þessi maður starfrækir sitt gistihúshald að vetrinum, því að hann hefur verið bjargvættur ýmissa ferðamanna í ótíð og ófærð og bjargað mannslífum. Nú hefur það erfiðlega gengið um þennan gistihúsrekstur hans að vetrarlagi, að hann hefur tapað stórfé, og þetta getur auðvitað ekki orðið til lengdar. Að því dregur fyrr en varir, að maðurinn hætti þessari starfsemi, a.m.k. að vetrinum, og afleiðingar þess óttast ég. Ég þekki engan stað, sem getur komið í stað Brynjólfs Gíslasonar með þessa starfsemi eins og hún er rekin nú hjá honum. Ég vil því vona, að hv. Alþ. komi til liðs við þennan mann. Af því munu margir njóta góðs, og hér er áreiðanlega um nauðsynlegt mál að ræða.

Þá flytjum við hér, 5 þm. af Suðurlandsundirlendinu, till., sem er á þskj. 603, um að veita hæstv. ríkisstj. heimild til að kaupa jarðirnar Kirkjubæ vestri og eystri á Rangárvöllum og leigja landssambandi hestamannafélaga fyrir hrossaræktarbú. Það hefur legið erindi um þetta efni hjá hv. fjvn. Ég þekki það nú ekki nægilega vel, en mér hefur skilizt það vera þannig, að þar hafi ekki verið eingöngu um kaup á jörðinni að ræða, eða jörðunum, heldur einnig búi ásamt áhöldum. Ég veit nú ekki, hvort það kann að vera alveg rétt, en mér hefur skilizt það, og þar er auðvitað um nokkuð annað að ræða. Eins og kunnugt er, þá hefur sá maður fallið frá, sem þessa eign átti. Hann var búinn að koma upp álitlegum kynbótastofni á þessum jörðum, úrvals hestakyni. Hann hafði lagt sig fram um það um langt skeið að afla góðra hesta og vel kynjaðra og rækta þá. Nú er maðurinn fallinn frá, og þetta bú er þarna enn, en ef ekki verða gerðar sérstakar ráðstafanir bæði um jörðina og búið, þá sundrast það, og þá er það mikla starf, sem hann var búinn að leggja í þetta, eyðilagt að mestu eða öllu leyti. Sá félagsskapur, sem stendur að hrossaræktinni, Landssamband hestamannafélaga, hefur engum fjármunum úr að spila til þess að gera slík kaup. Því veitist vafalaust fullerfitt að kaupa annað á þessum stað, hrossin, áhöld og annað þess konar, en ég vona, að þeir sjái einhver úrræði til þess að leysa þann þáttinn, ef hlaupið verður undir bagga með þeim á þennan hátt, að ríkið kaupi jörðina og leigi þeim svo fasteignina til þessarar starfsemi, og það álít ég að væri vel farið. Ég held, að það væri heldur engin áhætta. Hæstv. ríkisstj. mun gæta þess við slík kaup, ef til kæmi, að verð og greiðsluskilmálar væri hóflegt, og eins og segir í till. verði jarðeignin svo leigð þessum félagsskap, en ríkið fari ekki að stofna til búrekstrar á jörðinni. Okkur, sem flytjum þessa till., dettur ekki í hug að leggja það til. Það verður hestamannafélagsskapurinn að annast um. En ég tel illa farið, ef ekkert verður úr neinu af þessu og þessu búi verður tvístrað gersamlega og það mikla verk, sem þessi maður var búinn að leggja í það að rækta þetta kyn og ná góðum stofnum þar, verður gert sama sem að engu. Ég vænti, að hv. Alþ. vilji af sinni hálfu hjálpa til að koma í veg fyrir slík endalok á þessu máli. Við erum sammála um það, sem flytjum þessa till., að þetta geti verið gott og gagnlegt og fyrir framtíðina gert og það sé mjög miður farið, ef starf, sem er hafið og er á góðri leið, sé fyrir tómlæti gert að engu.

Þá er ég hér meðflm. að tveimur till. öðrum, en ég geri ekki nema aðra þeirra og það mjög litillega að umtalsefni. Hún er á þskj. 601, tölul. 14. Hún er um að verja 12 þús. kr. til þess að kaupa Þingvallamynd frú Þórdísar Egilsdóttur á Ísafirði, listsaumaða með íslenzku bandi, jurtalituðu. Ég þykist vita, að hv. alþm. hafi margir séð handbragð þessarar konu. Hún er mjög við aldur og þau hjón bæði. Hennar vinna hefur verið með hinni mestu prýði, svo að ég veit ekki til, að hérlendis hafi verið eins mikið listaverk gert eins og til er eftir þessa konu. Þessi Þingvallamynd frúarinnar er með svipuðu handbragði og fleiri verk eftir hana, hin prýðilegasta. Mér finnst, að þar sem bæði aldur og heldur erfiðar kringumstæður þrengja nú orðið fjárhagslega að högum þessara hjóna, þá væri það vel gert af Alþ. og myndarlegt að tryggja nú þjóðinni fyrir framtíð hennar þetta verk.

Þá ætla ég nú ekki að fjölyrða um þessi atriði frekar. Ég vil þakka hv. fjvn. fyrir hennar till. um ábyrgð fyrir hitaveitu í Hveragerði og einnig hv. frsm. fyrir það, að þó að frv. um hitaveitur sé annaðhvort gengið í gegn eða í þann veginn, þar sem ákveðin er nú heimild fyrir ríkisstj. að ábyrgjast slík mannvirki, — þá vil ég þakka honum fyrir einmitt hans orð um það, að þessi till. fengi að standa á frv., þrátt fyrir það að frv. um hitaveitur verði samþ. En ef einhverjum sýndist svo að setja það niður í þá prósentutölu, sem gert er nú ráð fyrir í hitaveitufrv. að verði gildandi, 80% í stað þess, að þarna er 85%, þá hef ég vitaskuld ekkert um slíkt að segja, að það væri fært niður í það, og ég þykist vita, að hv. samþm. minn líti svipuðum augum á það. Annars ber þarna náttúrlega lítið á milli, en ef einhverjum sýndist svo, að það væri vert að hafa það þannig, þá tel ég það engu máli skipta og get á slíkt fallizt.