26.01.1953
Sameinað þing: 32. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í B-deild Alþingistíðinda. (740)

1. mál, fjárlög 1953

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Það eru nú orðnir hér þunnskipaðir bekkirnir, eins og vænta má, þar sem svo langt er liðið af nóttu. En ég kemst ekki hjá því að reyna nokkuð á þolinmæði hæstv. forseta til þess að svara elnstökum atriðum hér í sambandi við umræðurnar, þótt ekki væri til annars, en að það væri hægt að vísa í yfirlýsingar og ummæli frsm. fjvn. í sambandi við einstök atriði, sem fram hafa komið í umræðunum.

Ég skal þá fyrst leyfa mér að segja hér nokkur orð í sambandi við þær till., sem fjvn. flytur og hefur verið lýst hér frá forsetastól, þar sem þær eru bornar fram skriflega.

Það er fyrst hér till. við 22. gr. frá fjvn., sem hljóðar svo: „Að aðstoða Loftleiðir h/f við kaup á einni millilandaflugvél með því að veita ríkisábyrgð fyrir allt að 10 millj. kr. láni, gegn þeim tryggingum, sem ríkisstj. metur gildar.“

Hv. 4. þm. Reykv. minntist á það áðan, að honum fyndist það gegna nokkurri furðu, að teknar væru upp heimildir til þess að lána 23 millj. kr. til einkafyrirtækja og því hefðu ekki verið gerð mikil skil hér við umræðurnar. Mér þykir því rétt, þegar hér bætist nú við heimild til þess að ábyrgjast 10 millj. kr. til einkafyrirtækis, að gera hér nokkra grein fyrir þeirri till.

Eins og kunnugt er, þá var skipt hér á milli flugfélaganna, Flugfélags Íslands og Loftleiða, með sérstökum ákvæðum frá rn. verkefnum innanlands, á hvaða staði hvort félag skyldi fljúga, og var þetta gert til þess að útiloka óeðlilega samkeppni í sambandi við flugið innanlands. Þetta varð til þess, að flugfélagið Loftleiðir hugsaði meira um að beita verkefnum sínum út á við, lét algerlega eftir Flugfélagi Íslands innanlandsflugið og hefur nú nótað sinn flugkost til þess að fljúga milli landa og um ýmis lönd erlendis, með þeim árangri, að á s.l. ári mun félagið hafa aflað rúmlega 2 millj. kr. erlends gjaldeyris, sem það hefur skilað hér í bankana. Nú á félagið eina millilandaflugvél, Heklu, sem er orðin nokkuð gömul og úrelt, og hafa þeir hugsað að kaupa nýja vél, enn stærri og betri tegund, sem mun kosta um 28 millj. kr. Þessi vél er í smíðum og mun verða tilbúin eftir næstu áramót. Þeir hafa einnig tilboð í Heklu og láta andvirði hennar ganga til þess að greiða nokkurn hluta af kaupverði hinnar nýju vélar, en þurfa á að halda a.m.k. 10 millj. kr. láni, sem þeir geta fengið erlendis, ef þeir hafa fyrir því ríkisábyrgð. Slík vél sem hér um ræðir mun kosta 28 millj. kr., og er boðinn 1. veðréttur í vélinni til tryggingar fyrir þeirri ábyrgð, sem hér um ræðir. Fjvn. getur því ekki séð, að hér sé um neina áhættu að ræða fyrir ríkið, nema siður sé, og leggur nefndin því til, að þessi till. verði samþykkt.

Hin brtt. er miklu veigaminni. Hún er við 15. gr. A. X, til skálda, rithöfunda og listamanna, og hljóðar svo: „Fyrir „4 manna nefnd“ komi: 3 manna nefnd.“ — Samkvæmt þessu ákvæði í fjárlfrv., eins og gengið var frá því við 2. umr., þá hljóðar þessi málsgrein þannig: „Að öðru leyti skal 4 manna nefnd, kosin af Alþ., skipta fjárhæð þessari“ — þ.e. því fé, þeim 630 þús. kr., sem veitt er til listamanna.

Það hefur sýnt sig undanfarin ár, að n. sú, sem skipuð hefur verið 4 mönnum, hefur komizt í allmikla erfiðleika oft og tíðum vegna þess, að hvað eftir annað hafa verið jöfn atkv., og þá venjulega annaðhvort orðið að semja um málin eða kasta hlutkesti um, hvort þessi skyldi fá þetta eða hinn. Slíkt er að sjálfsögðu ekki heppilegt, og þess vegna er þessi till. fram komin til að fyrirbyggja alla slíka erfiðleika. Það þykir eðlilegra að hafa þarna aðeins 3 menn og þar með skapa oddamannsaðstöðu, heldur en að hafa þar 4 menn til þess að gera n. hvað eftir annað jafnvei óstarfhæfa. Þetta er nú ekki frá n. allri, heldur frá meiri hl. n., og væntir hann þess, að þessi till. verði samþ.

Þá hefur n. borið fram hér brtt. á þskj. 618, tölul. 2. Hún er í tveim liðum, a og b. A-liður er við 18. gr. II. b. „Við bætist í stafrófsröð: Magnea Magnúsdóttir, 8.500.“ Ég minntist á það hér við framsögu mína í dag, að fallið hefði niður nafn hennar, þegar till. voru prentaðar. Nú er þessi till. tekin upp hér og vænzt þess, að hún verði samþ.

Þá er einnig hér b-liður. Það er við 22. gr., nýr liður: „Að ábyrgjast lán að upphæð allt að 200 þús. kr., er Íslenzka brennisteinsvinnslan h/f kann að taka til að koma upp vélum til hreinsunar á brennisteini, gegn þeim tryggingum, er ríkisstj. metur gildar.“ N. væntir einnig þess, að þessi till. verði samþ.

Með því að þetta er beint áframhald af ábyrgðum fyrir einstaklinga, sem hv. 4. þm. Reykv. minntist hér á áðan, þá vil ég aðeins leyfa mér að upplýsa, að í sambandi við þær ábyrgðir, sem eru í till. frá fjvn. og lýst var í dag, þá gerði ég nokkra grein fyrir því, hvers vegna þær hefðu verið teknar upp, en skal til viðbótar við það að gefnu tilefni aðeins leyfa mér að benda hv. alþm. á, að reynsla undanfarinna ára sýnir glögglega, að það er ekki allra meina bót að ábyrgjast fjárhæðir til félagssambanda eða sveitarfélaga. Það er ekki allra meina bót, að það séu nægilega margir menn, sem standa að slíkum félagsskap. Og reynslan hefur enn fremur sýnt, að þess er miklu frekar að vænta, að þessi mál séu betur rekin af einstaklingum, þótt færri séu, sem bæði hafa þrek, vilja og vit til þess að gera þessa hluti. Það er svar mitt við þeim athugasemdum, sem hv. 4. þm. Reykv. gerði í sambandi við þessar ábyrgðir, sem meiri hl. fjvn. hefur lagt til að teknar verði upp á 22. gr.

Þá minntist hæstv. fjmrh. hér nokkuð á þessi mál almennt. Ég get verið ánægður með þau orð, sem hann flutti, bæði til fjvn. og til mín sem formanns n., og sérstaklega í sambandi við þá afstöðu, sem ég hefði tekið vegna þeirra brtt., sem hæstv. ráðh. flytur hér, sem raunar var ekki neinn ágreiningur milli mín og hans um. Hann hefur skilið fullkomlega afstöðu mína sem formanns og afstöðu n. í sambandi við þetta mál, enda gerði ég fullkomlega grein fyrir því í minni framsöguræðu, og ég get verið fullkomlega ánægður með þau svör, sem hann gaf í sambandi við það. Hann hefur borið hér fram á þskj. brtt. upp á allmargar milljónir í sambandi við tekjuáætlun og útgjaldaáætlun. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara nánar inn á sérstök atriði í sambandi við það. Fjvn.- menn eru að sjálfsögðu, eins og ég tók þá fram, óbundnir um það, hvort þeir greiða þessum till. atkvæði eða ekki, en hitt vil ég endurtaka, að þess var ekki að vænta, að fjvn. sem slík vildi bera þessar till. fram, vegna þess, hvernig og af hvaða ástæðum þær raunverulega eru settar inn í fjárl. Skal ég ekki eyða tíma hv. alþm. til þess að ræða það nánar.

Hæstv. fjmrh. hefur hér einnig borið fram tvær brtt. á þskj. 620, þ.e. að heimila ríkisstj. að verja allt að 5 millj. kr. til þess að bæta úr atvinnuörðugleikum landsmanna á þann hátt, er hún telur heppilegast, og síðan einnig að ábyrgjast lán fyrir nokkur bæjarfélög vegna togaraútgerðar, og hafa þessar till. báðar verið ræddar við fjvn.- menn, a.m.k. við þá stuðningsmenn stj., sem í fjvn. eru, og hygg ég, að það sé enginn ágreiningur í meiri hl. n. um að styðja að því, að þær nái fram að ganga.

Ég skal aðeins, áður en ég lýk máli mínu um þær till., sem hæstv. ráðh. ber fram, minnast hér á eina till. á þskj. 606. Það er 6. till. undir b-lið, þar sem hann óskar eftir, að sé samþ. athugasemd við liðinn, eins og þar stendur, og er það í sambandi við lokun útsölu Áfengisverzlunarinnar, ef til kæmi, að hér yrðu samþ. héraðabönn. Þess er ekki að vænta, að fjvn. vildi taka þetta mál upp, eftir þá meðferð, sem frv. um áfengislöggjöfina hafði fengið hér í Alþingi. Út af fyrir sig liggja nú engar sannanir fyrir því, að nokkur tekjumissir verði af héraðabanni, þótt það verði samþ., því að það eru fjöldamargir staðir á landinu, þar sem héraðabönnin hafa gilt í mörg ár, og það er mjög vafasamt, að þeir hafi ekki metkaup á höfuð í áfengi frá Áfengisverzluninni. Og það ætti að vera nokkurt íhugunarefni fyrir þá menn, sem halda, að öllum þessum málum sé bjargað með því að setja á héraðabönn, að íhuga það, hvort einmitt á þeim stöðum, sem hafa búið við héraðabönnin í mörg ár, sé minna drukkið almennt en annars staðar, þar sem meira frelsi er.

Ég á ákaflega erfitt með að skilja, til hvers sá flokkur ætlast, sem fór með frv. um áfengislöggjöfina í Ed. eins og hann gekk frá því þar, stuðlaði að því, að um 70 brtt., sem lágu þar fyrir og mikil vinna hafði verið lögð í, fengju ekki leyfi til að koma til atkvæða í d., svo að hægt væri að sjá, hve margar af þeim yrðu samþ. og hvernig frv. þá liti út, því að vitanlega verður því ekki mótmælt, að margar af þeim till. voru til stórbóta. Þess verður því ekki að vænta, að allir þeir þm., sem höfðu með það mál að gera, stuðli að þeirri till., sem hér kemur fram, og mun ég verða einn af þeim, sem ekki munu fylgja henni hér eins og hún er sett fram á þskj. 606. Það stríðir raunverulega beint á móti þeirri hugsun, sem liggur á bak við atkvgr., og ég fæ sannarlega ekki skilið, hvers vegna á að vera að bjóða borgurunum upp á atkvgr. um málið, en á sama tíma fyrirbjóða með fjárlagaákvæði, að slík atkvgr. skuli koma í gildi fyrr, en eftir svo og svo langan tíma. Mér þykir líka rétt að benda hér á, úr því að ég er að ræða um þetta mál, að ég er alls ekki sammála ráðh. um það, að það þurfi að vera að neinu leyti lækkun á tekjum fyrir ríkissjóð, þótt veitingastöðunum sé lokað, því að það var margupplýst hér áður fyrr, að veitingastaðirnir seldu ekki nema lítið brot af því áfengi, sem vínverzlunin seldi á sínum tíma. M.a. komst Hótel Borg aldrei yfir 2 millj. kr. á ári af öllum þeim millj., sem seldar voru af Áfengisverzluninni. Og þær sögur ganga nú, m.a. frá síðustu samkundu iðnaðarmanna í Iðnó, þar sem aldrei áður hefur verið vínsala og engar vínveitingar, að þar gangi pelafyllirí slíkt, að það verður að kalla á lögregluna til þess að ryðja salina, og þar fá þó engir aðgang aðrir en þeir, sem eru um og undir 22 ára gamlir. Það sýnir ef til vill, að það sé ekki einasta ráðið við að laga þessi mál að þrengja meira að, en gert hefur verið um sölu áfengis. Það hefði verið nær, að betur hefði verið hugsað um það að fella ekki þær brtt., sem voru til bóta á þessu máli að öðrum leiðum.

Hæstv. ráðh. sagði, að hér hefði í sambandi við verkfallið verið aðeins um tvær leiðir að ræða. Annað hefði verið leiðin að hækka launin og fella krónuna, og hitt hefði verið leiðin, sem farin var, að lækka dýrtíðina eins og gert hefði verið með samkomulaginn. Ég get nú ekki verið hæstv. ráðh. sammála um þetta, en skal ekki fara frekar út í það hér, af því að svo er orðið langt liðið á nóttu, en mér sýnist, að sú leið, sem farin hefur verið, sé sú að leggja nýjar byrðar á þessa sömu aðila, sem fengu bæturnar. Meðan fjölskyldubætur eru greiddar, þá eru lagðir milljónabaggar á fólkið í landinu til þess að standa undir þessum bótum, sumpart í gegnum iðgjöldin sjálf, sumpart í gegnum sveitarfélögin, sem eru þrautpínd áður, sumpart í gegnum atvinnurekendurna, sem viðurkennt var af verkalýðnum að ekki gætu tekið á sig neinar byrðar, og svo sumpart af ríkissjóðnum sjálfum, því að það ætti að fara að verða mönnum nokkurn veginn ljóst, að ríkissjóður er ekki neitt, sem hangir uppi í loftinu og hægt er að taka þaðan, án þess að það snerti eitthvað afkomu fólksins í landinu, svo að ég er ekki alveg viss um, að þetta hafi verið bezta aðferðin.

Út af ummælum hv. frsm. 1. minni hl. um mína ræðu læt ég mér nægja að benda á, að hann virðist hafa verið ákaflega óánægður yfir því, að slíkar upplýsingar skuli hafa komið fram hér á Alþingi, eins og ég gaf í minni ræðu, um hinn raunverulega tilgang, sem lá á bak við verkfallið, og enn ergilegri yfir því, ef svo Illa skyldi takast til, að þessi ummæli birtust þjóðinni í víðlesnasta blaði landsins, Morgunblaðinu. En hinu kom hann ekki nálægt, að reyna að mótmæla neinum af þeim rökum, sem ég færði fram, eða að sanna, að ég hefði ekki farið með rétt mál.

Ég skal ekki heldur svara miklu ræðu hv. frsm. 2. minni hl., en vildi aðeins leyfa mér að benda á, að það gat engan veginn verið að lækka dýrtíðina í landinu að láta verkfallinu ljúka þannig með samningum, að þeir, sem voru hæst launaðir í landinu, fengju stærsta skerfinn, þegar öllu var á botninn hvolft, því að ofan á það, að þeir fengu öll þau fríðindi, sem þeir fátækustu og launaminnstu fengu í landinu, þá fékk hver og einn einasti embættismaður landsins og hver og einn einasti maður, sem er á föstum launum, hvort heldur er hjá ríki eða bæ eða fyrirtækjum, og hefur meira en 1.830 kr. á mánuði, þúsund króna viðbót ofan á öll hin fríðindin, sem hinir fengu. Og það kostar ríkissjóðinn margar milljónir. Svo eru þessir menn að telja okkur trú um það, að þeir séu fyrst og fremst að vinna fyrir fátækasta fólkið í landinu.

Langflestar af þeim till., sem hv. alþingismenn hér hafa lýst, eru fjvn. áður ókunnar. Nokkrar hafa að vísu verið bornar fram hér áður við 2. umr., og allar, sem bornar voru fram við 2. umr., hafði fjvn. tekið til athugunar og atkvgr. þar. Og þeim af þeim till., sem ekki eru teknar upp í till. n., vildi fjvn. ekki mæla með. Þess er því ekki að vænta, að hún verði með að samþ. þær till., þótt þær séu bornar fram hér á ný. Þetta þykir mér rétt að láta koma fram. Mér þykir einnig rétt að láta koma fram, að flestar af öðrum till. hefur n. ekki haft ástæðu til að segja neitt um. Ég get ekkert sagt um það fyrir hönd n., hvernig hún hefði snúizt við þeim, ef þær hefðu komið nægilega snemma, og get því ekki á þessu stigi málsins lofað neinu um það, hvort nm. sem slíkir styðja að framgangi þeirra eða ekki. Sumar af þeim till. eru þannig, að ég sem form. n. hefði gjarnan viljað hafa haft tækifæri til þess að ræða það við n. Nú er það orðið of seint, og þýðir ekki um það að fást, en ég get þá ekki heldur sagt neitt um það, hvort nm. munu fylgja þeim eða ekki. Þó vil ég taka það fram, að almennt hefur það verið samkomulag hjá meiri hl. n. að styðja ekki till., sem n. mælir ekki með. Ég hygg þó, að sumar af þeim till., sem hér hafa verið bornar fram, séu þess eðlis, að það sé engan veginn útilokað, að n. vilji enn, þótt hún hafi nú lokið störfum við afgreiðslu fjárl., gjarnan athuga einstakar till. og þá í sambandi við flokkana láta viðkomandi aðila vita, hvort hún sem slík mundi vilja mæla með þeim eða ekki. Annað eða meira get ég ekki sagt um þau mál. — Ég sé ekki ástæðu til þess hér, þegar svo er komið langt fram á nótt, að vera að ræða hinar einstöku till. og mun láta þetta nægja.